ORSAKIR liggja til alls. Eftir að þjóðvegur nr. 1 varð að veruleika með tilkomu Hvalfjarðarganga breyttist æði margt frá fyrri tíð, meðal annars gatnamótin við Laxá hjá Sláturfélagi Suðurlands. Áður voru gatnamótin aðeins fjær ánni er nú er með viðunandi aðreinum í beygjum í báðar áttir.

Slysagatnamót

Frá Ásmundi U. Guðmundssyni:

ORSAKIR liggja til alls. Eftir að þjóðvegur nr. 1 varð að veruleika með tilkomu Hvalfjarðarganga breyttist æði margt frá fyrri tíð, meðal annars gatnamótin við Laxá hjá Sláturfélagi Suðurlands. Áður voru gatnamótin aðeins fjær ánni er nú er með viðunandi aðreinum í beygjum í báðar áttir. Núverandi gatnamót eru þröng í vinkil með öfugum halla, enda er hér malarkambur með veginum á móti beygjunni til að reyna að taka við þeim sem missa bílinn í það sem kallast að velta. Sömu sögu er að segja um gatnamótin við Urriðaá á leiðinni til Akraness og gatnamótin nálægt hituveitutank Akurnesinga á leiðinni til Akraness og Reykjavíkur. Öll þessi gatnamót hafa sömu einkenni, öfugur halli og níðþröng. Þar sem vitað er að tæknideild Vegagerðarinnar hannaði umræddar vegaframkvæmdir, er það ljóst í mínum huga að Vegagerðin hefur hugsað sér alfarið að borga úr eigin sjóði allt það eignatjón sem kann að verða á þessum slysagatnamótum í framtíðinni, ásamt þeim dánar- og slysabótum sem kunna að verða til á sömu gatnamótum. Ég er þess fullviss að þeir sem eru álitnir fáráðir hefðu ekki látið henda sig að rissa upp á blað slíka hörmung sem þessi gatnamót eru, á sama tíma og atvinnutækin eru að breikka og lengjast, og gera þeim nánast ókleift að komast leiðar sinnar nema að stofna öðrum í hættu sem um veginn fara. Ótalin eru raunar hringtorgsgatnamótin við norðurenda Hvalfjarðarganga, sem eru á við venjulegt frímerki að umfangi og falla því í sömu gryfju og hin gatnamótin sem áður voru talin.

ÁSMUNDUR U. GUÐMUNDSSON,

Suðurgötu 124, 300 Akranesi.