"MYNDIN er af 6. bekk B veturinn 1963-64, úskriftarárið, en við vorum stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1964. Það sem er kannski einna sögulegast við þennan árgang var það að þetta var fjölmennasti árgangurinn sem þá hafði útskrifast frá skólanum, við vorum tvo hundruð og ellefu. Við erum flest fædd lýðveldisárið 1944.
Bekkjarmyndin Margir í mikilvægum stöðum

Veturinn 1963 til 1964 var Stefán Baldursson í 6. bekk B í Menntaskólanum í Reykjavík. Með gömlu bekkjarmyndinni rifjar hann upp minningar frá menntaskólaárunum og segir Ólafi Ormssyni frá viðburðarríkum og skemmtilegum árum.

"MYNDIN er af 6. bekk B veturinn 1963-64, úskriftarárið, en við vorum stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1964. Það sem er kannski einna sögulegast við þennan árgang var það að þetta var fjölmennasti árgangurinn sem þá hafði útskrifast frá skólanum, við vorum tvo hundruð og ellefu. Við erum flest fædd lýðveldisárið 1944. Eftir þriðja bekk voru tvær deildir, máladeild og stærðfræðideild, og við vorum í máladeild. Máladeildin lærði latínu á hverjum degi, sex tíma í viku í þrjú ár. Við kláruðum dönskuna í fjórða bekk og þá tókum við stúdentspróf í dönsku og í máladeild var einnig þýska, franska, enska og auðvitað íslenska og saga. Á þessum árum var það svona aðalreglan að skipt var á milli kynja í bekkjum, en það voru nú til undantekningar á því. Bekkjarfélagar í B bekknum fylgdust að gegnum fjórða, fimmta og sjötta bekk. Í þessum strákabekk voru tvær stúlkur, Ásdís Skúladóttir leikstjóri og leikkona, sem starfar reyndar líka í félagsmálum og lærði félagsfræði og hefur t.d. staðið fyrir starfi Hana nú klúbbsins, sem er klúbbur eldri borgara og María Kristjánsdóttir, sem fór í að læra leikhúsfræði og hefur starfað mörg undanfarin ár sem leikstjóri og leiklistarstjóri Ríkisútvarpsins. Það var oft mikið fjör í kringum þær og örugglega hafa þær báðar notið sín innan um okkur strákana," segir Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri og brosir þegar hann virðir fyrir sér bekkjarmyndina og rifjar upp löngu liðna daga á skrifstofu sinni í húsi Þjóðleikhússins við Lindargötuna í Reykjavík. Margir góðir kennarar ­ skemmtilegur rektorsritari "Kristinn Ármannsson var rektor Menntaskólans í Reykjavík þau árin sem ég var þar í námi. Við höfðum marga góða kennara. Hér á bekkjarmyndinni er með okkur Ólafur M. Ólafsson. Hann kenndi okkur t.d. þessi þrjú ár ýmist íslensku eða þýsku. Þeir kennarar sem mér þótti mest til um og hélt mikið upp á, það var annars vegar Jón Guðmundsson íslenskukennari, sem var mjög góður kennari, lifandi og skemmtilegur og vakti áhuga nemenda á sínu fagi og hins vegar Gunnar Norland, sem kenndi okkur frönsku, sérstaklega litríkur og lifandi karater, óhefðbundinn og það fannst manni alltaf skemmtilegt á þessum árum. Þá var þarna kennari sem kenndi okkur af og til og mér fannst kenna okkur meira en flestir aðrir og það var Ólafur Hansson sögukennari. Hann var frábær kennari. Sumir kennarar voru þá ennþá í þessum gömlu aðferðum. Þeir voru að hlýða yfir úr námsefninu sem lesið var heima og síðan var verið að yfirheyra nemendur, ­ að þeir hefðu nú örugglega lesið samviskusamlega það sem fyrir þá var lagt. Ólafur hafði allt aðrar aðferðir. Hann talaði minnst um það sem stóð í bókinni því það gátum við sjálf lesið, en hann talaði um allt mögulegt annað og leiddi okkur inn á svið sem voru þá eiginlega ekki á námskránni, en hann tók inn í sína kennslu eins og sálfræði, heimspeki, listasögu og allt mögulegt sem þá var algjört nýmæli fyrir okkur. Og fleiri kennarar eru einnig minnisstæðir frá menntaskólaárunum t.d. Einar Magnússon, sem kenndi dönsku og varð nokkrum árum síðar rektor. Hann var ágætur kennari og einnig annar dönskukennari, Bodil Sahn. Það var mikið af skemmtilegu fólki sem starfaði við skólann. Rektorsritari var Guðrún Helgadóttir, sem síðar varð þjóðkunnur ríthöfundur og var árum saman borgarfulltrúi og alþingismaður og situr nú í Þjóðleikhúsráði. Hún kom inn í bekkina og gerði manntal og athugaði hverjir voru mættir og hverjir ekki. Hún var alltaf mjög skemmtileg og hress. Guðrún var kölluð "Stefanía". Fyrsti rektorsritarinn hét Stefanía og síðan voru þær allar sem fóru í þetta starf kallaðar svona í gríni "Stefaníur"."

Öflugt félagslíf í MR "Það var öflugt félagslíf í MR á þessum árum. Þessi bekkur var töluvert áberandi á ýmsum sviðum í félagslífinu. Einn bekkjarfélaga minna, sem reyndar er nú látinn, Júníus Kristinsson var Inspektor Scholae. Við sem síðar lögðum fyrir okkur leiklistina vorum þó ekki í leiklist innan skólans, hvorki ég né María, en Ásdís og reyndar annar bekkjarfélagi okkar, Kjartan Thors, voru efnilegir leikarar og léku í öllum sýningum Herranætur þessi ár. Þá var þarna Listafélag sem kynnti hinar ýmsu listastefnur og í skólanum voru starfandi allskonar klúbbar, djassklúbbur og tónlistarklúbbur. Það sem var einna helst að gerast þennan vetur og sérstaklega þegar við vorum að undirbúa stúdentsprófið vorið 1964 var að þá voru Bítlarnir að halda innreið sína hér á Íslandi. Bítlarnir voru þá að skapa sér óhemju vinsældir og tónlist þeirra var mjög grípandi og þótti spennandi og við sungum Bítlalögin á traktorum á dimmisjón.

Leikhúsáhugi minn var þá þegar vaknaður. Ég var í leiklistarskóla Ævars Kvaran og tók reyndar þennan vetur þátt í sýningu Þjóðleikhússins á Hamlet." Í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík hafa margir birt sínar fyrstu ritsmíðar, ljóð eða smásögur. Skrifuðu þínir bekkjarfélagar í blaðið á þessum árum? "Júníus Kristinsson skrifaði mikið í blaðið og Megas sem var í öðrum bekk myndskreytti oft forsíður skólablaðsins. Einn af okkar bekkjarfélögum var mjög efnilegur myndlistarmaður. Hann lést fáum árum eftir stúdentsprófið. Hann hét Bragi Þór Gíslason og fór til Ósló í myndlistarnám. Þá voru oft málfundir í skólanum og þar man ég einna helst eftir Svavari Gestssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þeir höfðu sig mjög í frammi og voru mjög mælskir og það voru líka Júníus Kristinsson og Heimir Pálsson. Heimir kom í bekkinn norðan úr landi, frá Laugum. Heimir er bekkjarráðsfulltrúinn okkar og hefur verið duglegastur við að ná bekknum saman þegar tilefni hafa gefist í seinni tíð. Það var ekki yfir línuna mikil pólitísk meðvitund í skólanum eða í bekknum. Það gildir um mjög marga af þessum árgangi að okkar vitundarvakning í víðtækara samhengi, bæði pólitískt og þjóðfélagslega, hún kemur í 68-hreyfingunni. Við erum hin eina sanna 68-kynslóð. Við vorum að fara inn í eða vorum í okkar framhaldsnámi það ár. Sjálfur var ég kominn í framhaldsnám í leikhúsfræðum í Stokkhólmi vorið 1968 þegar stúdentauppreisnirnar hófust í París og við endurtókum sömu aðgerðir í Svíþjóð nokkrum dögum síðar. Á bekkjarmyndinni

ýmis kunn andlit Stefán Baldursson er fæddur á Hjalteyri við Eyjafjörð 18. júní 1944, sonur Baldurs Stefánssonar, verkstjóra hjá ÁTVR, og Margrétar Stefánsdóttur húsmóður. Hann er elstur þriggja systkina. Kona Stefáns er Þórunn Sigurðardóttir rithöfundur og leikstjóri og núverandi stjórnandi Reykjavíkur- menningarborgar 2000 og eiga þau tvö börn, Baldur og Unni Ösp. Að loknu stúdentsprófi lauk Stefán prófi í forspjallsvísindum frá HÍ 1965. Fil. kand- prófi í leikhús-og kvikmyndafræðum frá Stokkhólmsháskóla 1971. Hann starfaði sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 1967 til 1971. Leiklistarfulltrúi Ríkisútvarpsins 1972­74. Leikstjóri og leikhúsritari Þjóðleikhússins frá 1974­1980. Leikhússtjóri LR 1980 til 1987. Leikstjóri í lausamennsku 1987-91 aðallega erlendis, á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum og þjóðleikhússtjóri frá 1991. "Eins og sjá má hér á bekkjarmyndinni þá eru þetta mjög settlegir unglingar. Strákarnir voru flestir í jakkafötum og margir í hvítri skyrtu og með svart bindi og stelpurnar voru gjarnan í pilsum. Á bekkjarmyndinni eru ýmis kunn andlit og margir úr okkar bekk eru í mikilvægum stöðum í þjóðfélaginu í dag. 6. bekkingar í B bekk veturinn 1963-64 státa af því að hafa átt tvo síðustu menntamálaráðherrana," segir Stefán og horfir með velþóknun á gömlu bekkjarmyndina. "Ég vil taka það fram að á myndina vantar þrjá bekkjarfélaga, Maríu Kristjánsdóttur, Svavar Gestsson og Véstein Lúðvíksson. Þau voru stundum utan skóla, en tóku með okkur stúdentspróf. Svavar og Björn Bjarnason eru þeir einu úr bekknum sem hafa gert stjórnmál að sínu starfi. Við erum auðvitað svolítið montin af því að einn bekkjarfélaganna varð heimsmeistari í brids, Guðlaugur R. Jóhannsson. Hér í fremstu röð frá vinstri er Skúli Sigurðsson. Hann fór í lögfræði, en lést fyrir örfáum árum. Við hlið hans er Ásdís Skúladóttir leikstjóri og félagsmálafrömuður og við hlið hennar er Ólafur M. Ólafsson kennari. Hann hefur sennilega verið bekkjarkennari okkar þennan vetur. Við hlið Ólafs er Heimir Pálsson. Heimir fór síðan í íslensku og hefur starfað mikið í kennslu og var um tíma konrektor í MH og rektor Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefur í seinni tíð starfað hjá Námsgagnastofnun og sjálfstætt sem íslenskumaður. Þá er það Einar Sigurbjörnsson guðfræðiprófessor, sonur séra Sigurbjörns biskups. Hér lengst til hægri í fremstu röð er Kjartan Thors, sem fór í jarðfræði og hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun og er með sjálfstæðan rekstur við jarðfræði- og vísindastörf. Í annarri röð, lengst til vinstri, er Grétar L. Marinósson. Hann lærði sálfræði og er dósent við Háskólann. Við hliðina á honum er Júníus heitinn Kristinsson, sem lærði íslensku og sagnfræði og starfaði hjá Þjóðskjalasafni og við hlið hans er Hrannar G. Haraldsson. Hann var íþróttahetja bekkjarins og hann starfaði við verslun og viðskipti, en er nú látinn. Þá kemur hér Sturla Þórðarson, sem er lögfræðingur og hefur lengst af starfað hjá Lögreglustjóraembættinu. Við hlið Sturlu er Sveinn Sigurkarlsson, sem einnig er lögfræðingur og er dómarafulltrúi hér í Reykjavík. Þá er ég hér lengst til hægri í annarri röð. Í þriðju röð lengst frá vinstri er Björn Bjarnason, sem hefur verið menntamálaráðherra undanfarin ár. Þá er hér Ólafur Kristinsson, sem er löggiltur endurskoðandi. Við hlið Ólafs er Helgi H. Jónsson, sem er fréttastjóri Sjónvarpsins og þá er hér Guðlaugur R. Jóhannsson, sem er viðskiptafræðingur og endurskoðandi. Hér fyrir aftan Gunnlaug glittir í Valdimar Briem, sem lærði sálfræði og var lengi búsettur erlendis. Þá gnæfir hér yfir Leonhard Ingi Haraldsson. Hann er tannlæknir. Þá er hér á myndinni Karl Jónsson, sem hefur unnið við bankastörf og í verðbréfaviðskiptum. Hér er Sigurður Þorgrímsson, sem er barnalæknir og annar frá hægri er Sveinbjörn Rafnsson, sem er prófessor í sagnfræði við Háskólann og lengst til hægri í þriðju röð er Ketill Högnason, sem er sérfræðingur í tannréttingum hér í Reykjavík. Við vorum miklir mátar og fylgdumst að sem bekkjarfélagar allt frá því í 7 ára bekk í Kópavoginum. Í efstu röð eru hér tveir bekkjarfélagar. Þorsteinn Þorsteinsson. Hann er skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og hér lengst til hægri er Bragi Þór Gíslason, sem er látinn og fór í myndlistarnám."

Morgunblaðið/Þorkell STEFÁN Baldursson, þjóðleikhússtjóri, virðir fyrir sér myndina af bekkjarsystkinunum úr 6. bekk B í MR veturinn 1963-1964.

Sjötti bekkur B

veturinn 1963-1964

Fremsta frá vinstri: 1. Skúli Sigurðsson, látinn 2. Ásdís Skúladóttir, leikstjóri 3. Ólafur M. Ólafsson, kennari 4. Heimir Pálsson, íslenskukennari og fyrrum rektor 5. Einar Sigurbjörnsson, guðfræðiprófessor 6. Kjartan Thors, jarðfræðingur Önnur röð: 1. Grétar L. Marinósson, dósent við HÍ 2. Júníus Kristinsson, látinn 3. Hrannar G. Haraldsson, látinn 4. Sturla Þórðarson, lögfræðingur 5. Sveinn Sigurkarlsson, dómarafulltrúi 6. Stefán Baldursson, þjóðleikhússtjóri. Þriðja röð: 1. Björn Bjarnason, menntamálaráðherra 2. Ólafur Kristinsson, endurskoðandi 3. Helgi H. Jónsson, fréttastjóri 4. Guðlaugur R. Jóhannsson, viðskiptafræðingur 5. Sigurður Þorgímsson, barnalæknir 6. Sveinbjörn Rafnsson, sagnfræðiprófessor 7. Ketill Högnason tannlæknir. Fjórða röð: 1.(glittir í) Valdimar Briem, sálfræðingur 2. Leonhard Ingi Haraldsson, tannlæknir 3. Karl Jónsson viðskiptafræðingur 4. Þorsteinn Þorsteinsson, rektor í Garðabæ 5. Bragi Þór Gíslason, látinn.

Á myndina vantar Maríu Kristjánsdóttur, leiklistarstjóra Ríkisútvarpsins, Svavar Gestsson, alþingismann og fyrrverandi menntamálaráðherra, Hermann Jóhannesson, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, Véstein Lúðvíksson, rithöfund.