FERÐAMÖNNUM er leggja leið sína til Rúmeníu stendur nú til boða að njóta sömu lystisemda og fyrrum einræðisherrann Nicolae Ceaucescu í lengri eða skemmri tíma. Fyrir um 250 þúsund krónur á dag er hægt að sofa í rúmi einræðisherrans, synda í sundlauginni hans, veiða í skógum er hann hafði einkarétt á og borða uppáhaldsmatinn hans.
Bjarga Ceaucescu-ferðir

rúmenskri ferðaþjónustu?

The Daily Telegraph. FERÐAMÖNNUM er leggja leið sína til Rúmeníu stendur nú til boða að njóta sömu lystisemda og fyrrum einræðisherrann Nicolae Ceaucescu í lengri eða skemmri tíma. Fyrir um 250 þúsund krónur á dag er hægt að sofa í rúmi einræðisherrans, synda í sundlauginni hans, veiða í skógum er hann hafði einkarétt á og borða uppáhaldsmatinn hans. Hafa nokkrir af fyrrum þjónum Ceaucescus ásamt kokkum og þernum verið ráðnir til að veita gestum betri innsýn í líf einræðisherrans.

Er þetta liður í tilraun til að endurreisa ferðamannaþjónustu Rúmeníu og afla gjaldeyris. Fyrir tuttugu árum lögðu um tvær milljónir ferðamanna leið sína til Rúmeníu árlega en þeim fækkaði stöðugt í valdatíð Ceaucescus. Hann var tekinn af lífi árið 1989 en það ár voru ferðamenn einungis 80 þúsund.

Það er prótokollskrifstofa rúmenska ríkisins sem skipuleggur ferðir þessar og segir Mihai Nicu, viðskiptafulltrúi skrifstofunnar, að rauður dregill verði á flugbrautinni er gestir mæta og verði þeir keyrðir í hallir einræðisherrans fyrrverandi á Buick-bifreið er hann notaði á sínum tíma. "Í fyrsta sinn getum við boðið fólki upp á að lifa lífi einræðisherra rétt eins og um raunveruleika væri að ræða," segir Nicu.

Ferðamönnum gefst ekki kostur á að gista í hinni risavöxnu Höll alþýðunnar í Búkarest en þeir geta hins vegar valið á milli þriggja annarra halla í höfuðborginni. Þá standa þeim hallir Ceaucescus við Svartahaf og í Transylvaníu til boða.

Reuters

Ceaucescu-hjónin ásamt fylgdarmönnum