NÁM í tónlistarskólum er eftirsótt og reynslan sýnir að ekki komast allir að í hverfisskólunum. Tónlistarnám er miðað við námskrá menntamálaráðuneytis. Í Tónskóla Eddu Borg í Hólmaseli í Breiðholti verður hefðbundin kennsla eins og undanfarin ár en einnig verða í boði námskeið með áherslu á dægurlög og söng.
Dansað í tónlistarskóla

Í Tónskóla Eddu Borg verður litlum börnum kennt að skynja taktinn á námskeiðinu Ding dong.

NÁM í tónlistarskólum er eftirsótt og reynslan sýnir að ekki komast allir að í hverfisskólunum. Tónlistarnám er miðað við námskrá menntamálaráðuneytis. Í Tónskóla Eddu Borg í Hólmaseli í Breiðholti verður hefðbundin kennsla eins og undanfarin ár en einnig verða í boði námskeið með áherslu á dægurlög og söng. "Þeir sem eiga gítar, bassa eða hljómborð og hafa áhuga á að læra á gripina en vilja ekki fara hina klassísku leið," segir Edda Borg, "námsefnið verður sniðið fyrir þessa nemendur."

Aðsóknin í skólann er mikil og eru langir biðlistar núna. Í skólanum starfa átján kennarar. "Ég hef verið með nemendur allt frá Hvalfirði til Keflavíkur en þróunin hefur verið sú að börnin sækja tónskóla í hverfinu sínu.

Kennslan verður fjölbreytt í vetur," segir Edda, "og ætlunin að gera margt með nemendum, því skólinn heldur upp á tíu ára afmælið sitt. Í skólanum eru um 180 nemendur og verða haldnir tónleikar þar sem allir fá að koma fram. Ég tel mjög mikilvægt að nemendur öðlist þá reynslu." Í skólanum eru strengjasveit, lúðrasveit, kammertónlistarhópur og kór.

Ding dong

Nýstárlegt námskeið byrjar í Tónskóla Eddu Borg 26. september og er nefnt Ding dong eftir hljómdiski sem Edda gaf út fyrir síðustu jól. "Þetta er stutt námskeið fyrir þriggja til sex ára börn og felst í því að þjálfa rytma- og taktskynjun," segir hún, "lögin á diskinum verða notuð og dansar æfðir."

Námskeiðið er fyrir hug og hönd og verður sérstakur tími handa foreldrum. "Ég hef alla tíð kennt litlum börnum og spilað fyrir börn og lögin á diskinum eru þau sem hafa virkað best."

Hún segir að eftir að diskurinn kom út hafi margir foreldrar nefnt við sig að gaman væri að þjálfa hreyfingarnar sem textarnir gera ráð fyrir og því hafi hún ákveðið að halda þetta námskeið.

Sem dæmi má nefna að í Ding - dong laginu eru hreyfingar gerðar í samræmi við textann:

Ding, dong - Froskurinn blikkar augunum

Um, eh -Eðlan rekur út úr sér tunguna

King kong - Apinn slær á brjóst sér

Mjá, mjá - Kisan mjálmar

Blúbb, blúbb - Fiskurinn opnar munninn

Morgunblaðið/Arnaldur "DING dong er námskeið handa 3­4 ára börnum til að þjálfa rytma- og taktskynjun," segir Edda Borg.