LEIKHÚSSPORT, flamenco og magadans eru splunkuný námskeið sem hefjast í Kramhúsinu við Bergstaðastræti á næstu dögum. Sívinsæl námskeið sem alltaf eru fljót að fyllast eru leikfimi, afródans, jóga og listasmiðja barna, að sögn Hafdísar Árnadóttur í Kramhúsinu.
Kramhúsið Heitt haust

Heyrst hefur að haustið verði heitt í Kramhúsinu. Suðrænir vindar munu verða þar ríkjandi og með þeim berast erlendir kennarar sem fá nemendur til að svífa um gólfin í flamenco, salsa, afró og magadansi.

LEIKHÚSSPORT, flamenco og magadans eru splunkuný námskeið sem hefjast í Kramhúsinu við Bergstaðastræti á næstu dögum. Sívinsæl námskeið sem alltaf eru fljót að fyllast eru leikfimi, afródans, jóga og listasmiðja barna, að sögn Hafdísar Árnadóttur í Kramhúsinu.

Nýlokið er tveimur kennaranámskeiðum og leikhússportnámskeiðið er að hefjast. Kennarinn þar, Martin Geijer, kemur frá Svíþjóð, en hann hélt samskonar námskeið hér við góðar undirtektir á síðastliðnu vori. Leikhússport er leikform sem nýtur vaxandi vinsælda erlendis og byggist á spuna og hæfni leikarans til að bregðast við stað og stund.

Skammt er þess að bíða að Gabriela Gutarra komi frá Spáni með flamenconámskeið, en í fréttatilkynningu frá Kramhúsinu segir að hún sé Íslendingum að góðu kunn. Hún hélt hér námskeið sl. vor og fyrir nokkrum árum samdi hún dansa í sýninguna Blóðbrullaup í Þjóðleikhúsinu.

Magadansinn heldur

innreið sína

Hingað til hefur magadans ekki verið mikið iðkaður hér á landi en nú gæti orðið þar breyting á, því hingað er væntanleg danska magadansmærin Tove Vestmø, sem er menntuð í faginu í Egyptalandi og París.

Frá New York kemur senn Nanette Nelms, sem kenndi í Kramhúsinu fyrir tíu árum. Nú mun hún kenna afró við lifandi trommutónlist, sem og nútímadans.

Fjölmörg önnur námskeið verða í boði í haust, svo sem leiklist fyrir börn og unglinga, kínversk tai-chi-leikfimi og djassdans, sem Sveinbjörg Þórhallsdóttir á Verkstæðinu kennir.

Morgunblaðið/Jim Smart INNLIFUNIN var ósvikin á kóreógrafíunámskeiði í Kramhúsinu á dögunum.