Á SIGLUFIRÐI eru sex kennaraefni að hefja fjarnám við Kennaraháskóla Íslands. Öll hafa þau starfað við kennslu en vantað réttindin. Bæjar- og skólayfirvöld á staðnum styðja nám þeirra með fjárframlagi og með því að veita þeim alla aðstöðu sem þau þurfa á að halda í grunnskólanum.
Fjarnám KHÍ Í háskólanámi

á Siglufirði

Á SIGLUFIRÐI eru sex kennaraefni að hefja fjarnám við Kennaraháskóla Íslands. Öll hafa þau starfað við kennslu en vantað réttindin. Bæjar- og skólayfirvöld á staðnum styðja nám þeirra með fjárframlagi og með því að veita þeim alla aðstöðu sem þau þurfa á að halda í grunnskólanum.

Kennaranám með fjarkennslusniði hefur verið starfrækt á vegum KHÍ síðan 1993 og nú þegar hafa alls tæplega 70 nemendur útskrifast með B.Ed.-próf. Námið er 90 einingar og er skipulagt á sjö misserum, eða þremur og hálfu ári. Að sögn Karls Jeppesen, umsjónarmanns fjarnámsins í KHÍ, eru nú um 120 nemendur í fjórum hópum í fjarnámi og á næsta ári er gert ráð fyrir að um 60 manns útskrifist.

Hvert misseri hefst með kennslulotu í Kennaraháskólanum í Reykjavík, þar sem námskeið þess misseris hefjast, og einnig er lögð rík áhersla á verklega kennslu í þessum lotum. Þess á milli er námið svo með fjarkennslusniði, þar sem samskipti milli nemenda og kennara fara fyrst og fremst fram um tölvunet. Hverju misseri lýkur svo með prófum sem nemendur glíma við heima eða í nálægum skólum.

Hefði ekki getað tekið sig upp og farið suður í nám

Að sögn Erlu Gunnlaugsdóttur, eins kennaranemanna á Siglufirði, hafa þau öll starfað við kennslu, fjögur í grunnskóla, ein í tónlistarskóla og önnur við aðstoð við heimanám. Sjálf segir hún nokkuð ljóst að hún hefði ekki getað tekið sig upp og farið suður í nám, þannig að fjarnámið breyti aðstöðunni til muna fyrir sig og aðra sem búa við svipaðar aðstæður. Allir eru kennaranemarnir fjölskyldufólk og aðspurð um barnafjölda var Erla nokkuð lengi að telja. Eftir því sem hún komst næst eftir talningu og samlagningu eru börn kennaranemanna siglfirsku alls nítján og því kannski ekki að undra þótt þeim hefði þótt erfitt að þurfa að flytja suður yfir heiðar til þess að fara í nám.

Morgunblaðið/Sigríður Ingvarsdóttir FJARKENNSLUNEMAR á Siglufirði hittust á dögunum og báru saman bækur sínar. Frá vinstri: Hildur Ingólfsdóttir, Hildur Halldóra Bjarnadóttir, Erla Gunnlaugsdóttir, Hans Rúnar Snorrason og Ríkey Sigurbjörnsdóttir. Sigurbjörg Bjarnadóttir átti ekki heimangengt umrætt kvöld.