TÁLKNFIRÐINGURINN Lilja Magnúsdóttir er ein þeirra 22 sem luku námi í svæðisleiðsögn á Vestfjörðum vorið 1994, en það fór fram í samvinnu Farskóla Vestfjarða og Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Síðan hefur hún verið mikið á faraldsfæti og er óþreytandi að kynna ferðamönnum náttúru Vestfjarða, menningu og sögu.
Alltaf að læra þó að formlegu námi sé lokið

Á Vestfjörðum er meira að sjá en margan þann grunar sem ekki þekkir þar til. Svæðisleiðsögumenn hafa átt sinn þátt í að opna ferðalöngum nýja sýn á þennan um margt sérstæða landshluta.

TÁLKNFIRÐINGURINN Lilja Magnúsdóttir er ein þeirra 22 sem luku námi í svæðisleiðsögn á Vestfjörðum vorið 1994, en það fór fram í samvinnu Farskóla Vestfjarða og Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Síðan hefur hún verið mikið á faraldsfæti og er óþreytandi að kynna ferðamönnum náttúru Vestfjarða, menningu og sögu. Lilja er auk þess formaður Ferðamálafélags Barðastrandarsýslu og afgreiðslustjóri Eyrasparisjóðsins á Tálknafirði.

"Jarðfræði Vestfjarða er sérstök, því þetta er elsti hluti landsins. Gróðurfarið er líka sérstakt að því leyti að þó að hér sé mikið fjalllendi þá er það mikið gróið. Ekki má heldur gleyma fuglalífinu sem er gífurlega mikið, en hér höfum við stærstu fuglabjörg landsins, Látrabjarg og Hornbjarg," segir hún.

Lilja lætur vel af svæðisleiðsögunáminu og telur það hafa nýst vel. En það var líka hörkuvinna. "Við mættum í skólann á föstudagskvöldi og vorum í námi allan laugardaginn, og yfirleitt fram til um fjögur á sunnudögum. Það var kennt aðra og þriðju hverja helgi, að mig minnir níu helgar í allt yfir veturinn, og að vori tókum við svo próf."

Upprifjunarnámskeið æskilegt

Auk bóklegs náms í almennum greinum, svo sem um gróðurfar, dýralíf, jarðfræði o.s.frv., voru fengnir staðkunnugir menn á hverjum stað til þess að segja frá sínu svæði. "Við fórum um alla Vestfirði, vorum í Flókalundi, á Reykhólum, Ísafirði, Núpi, Tálknafirði, í Reykjanesi og á Ströndum. Þannig kynntumst við svæðinu ekki bara af bókum, heldur fórum við í skoðunarferðir líka," segir Lilja.

Nú eru liðin rúm fjögur ár síðan Lilja og félagar luku svæðisleiðsögumannanáminu og mörg hver hafa þau aflað sér mikillar reynslu í faginu. Og eru alltaf að læra, þó að hinu formlega réttindanámi sé lokið. "Þegar maður fer að starfa við þetta fer maður auðvitað að reyna að afla sér meiri upplýsinga sjálfur og hlusta eftir góðum sögum. Reyndar hefur verið rætt um að það þyrfti að halda upprifjunarnámskeið."

Hefur eflt áhugann á ferðaþjónustunni

Eitt af markmiðum Ferðamálasamtaka Vestfjarða með því að halda námskeiðið á sínum tíma var að sögn Lilju að efla áhuga fólks á svæðinu á því að starfa við ferðaþjónustuna og reyna að auka breiddina í þeirri grein. "Ég held að það hafi skilað sér að einhverju marki," segir Lilja.

Hún segir að hópurinn hafi reynt að halda sambandi að náminu loknu. "Auðvitað hafa ekki allir farið að vinna við þetta, en lauslega áætlað hefur sennilega u.þ.b. helmingurinn komið nálægt leiðsögn síðan. Og ég held að allir hafi verið sammála um að þetta var gaman og fólk lærði geysilega mikið."Morgunblaðið/Margrét LILJA Magnúsdóttir svæðisleiðsögumaður í vinnunni ­ á Látrabjargi, vestasta odda Evrópu.