NÝI söngskólinn "Hjartansmál" hefur sitt fjórða starfsár í glænýju húsnæði Karlakórs Reykjavíkur við Skógarhlíð. Neðri hæð húss Karlakórs Reykjavíkur er sérstaklega hönnuð sem skólahúsnæði og samþykkt sem slík. Aðstæður eru ákjósanlegar.

"Hjartansmál"

NÝI söngskólinn "Hjartansmál" hefur sitt fjórða starfsár í glænýju húsnæði Karlakórs Reykjavíkur við Skógarhlíð.

Neðri hæð húss Karlakórs Reykjavíkur er sérstaklega hönnuð sem skólahúsnæði og samþykkt sem slík. Aðstæður eru ákjósanlegar. Í húsinu starfa bæði Karla- og Kvennakórar Reykjavíkur ásamt Telpna- og Stúlknakór Reykjavíkur svo að segja má að í Skógarhlíðinni sé að stærsta sönghús Reykjavíkur að verða til.

Nýji söngskólinnn Hjartansmálvar stofnaður árið 1995 og skiptist í þrjár deildir þ.e.: Einsöngsdeild, söngdeild fyrir áhugafólk og barnadeild sem kallaður er Syngjandi forskóli en í henni munu kennarar í vetur einbeita sér að grunnskólanemendum, þ.e. 6 til 8 ára.

Í einsöngsdeildinni er hefðbundið söngnám og er ennt er samkvæmt viðurkenndri námskrá menntamálaráðuneytisins.

Hverri námsönn lýkur með prófum og tónleikum. Áherslan er á fjölbreytni og boðið uppá einsöngstíma, samsöng, undirleik, tónfræði, tónheyrn. tónlistarsögu, hljómfræði, leikræna tjáningu og hreyfingu og framburðarkennslu í ítölsku/þýsku/frönsku. Einnig hafa óperusöngvarar verið fengnir til að halda námskeið fyrir nemendur; Sigurð Demetz, Sólrúnu Bragadóttur og Judy Gans.

Í vetur byrjar skólinn um miðjan september með námskeiði sem bandaríska sópransöngkonan Judy Gans heldur. Hún er íslendingum kunn fyrir túlkun sína á íslenskum sönglögum.

Söngdeild fyrir áhugafólk er ætluð öllum sem vilja læra að syngja sér til gagns og gamans. Í henni er hægt að fá söngkennslu bæði í einka- og hóptímum. Ekki eru tekin próf en vetrinum lýkur með tónleikum.

Kennarar við Nýja söngskólann eru Björk Jónsdóttir, Björn Björnsson, Dúfa S. Einarsdóttir, Einar Sturluson, Friðrik S. Kristinsson, Guðbjörg Sigurjónsdóttir, Jóhanna G. Linnet, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Margrét J. Pálmadóttir, Matthildur Ó Matthíasdóttir, Ragnheiður Linnet, Sigurbjörg H. Magnúsdóttir og Sigrún Grendal.