GEÐHJÁLP, samtök fólks með geðsjúkdóma, aðstandenda þeirra og áhugafólks um geðheilbrigðismál, býður í haust að vanda upp á námskeið og fyrirlestra um geðsjúkdóma og viðbrögð við þeim. "Í fyrirlestrunum er fjallað um geðsjúkdóma og hvernig aðstandendur eiga helst að umgangast ástvin sem er með geðsjúkdóm," segir Ingólfur H. Ingólfsson, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Fyrirlestrar Geðhjálpar fyrir aðstandendur geðsjúkra Viðbrögð við breyttum aðstæðum í fjölskyldunni

GEÐHJÁLP, samtök fólks með geðsjúkdóma, aðstandenda þeirra og áhugafólks um geðheilbrigðismál, býður í haust að vanda upp á námskeið og fyrirlestra um geðsjúkdóma og viðbrögð við þeim.

"Í fyrirlestrunum er fjallað um geðsjúkdóma og hvernig aðstandendur eiga helst að umgangast ástvin sem er með geðsjúkdóm," segir Ingólfur H. Ingólfsson, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Fyrirlestrarnir fjalla um geðklofa, geðhvörf, félagslega endurhæfingu og viðbrögð aðstandenda við hinum breyttu aðstæðum sem upp koma í fjölskyldunni þegar fjölskyldumeðlimur veikist af geðsjúkdómi. Þar er m.a. stuðst við ítarlegan bækling sem nýlega var gefinn út af Landspítalanum, en hann ber yfirskriftina Leiðarljós ­ Leiðbeiningar fyrir aðstandendur geðsjúkra.

Sjálfshjálparhópar og símaþjónusta

"Í framhaldi af fyrirlestrunum eru svo stuðningshópar sem hittast einu sinni í viku, sex til átta sinnum. Í stuðningshópunum eru oftast fimm eða sex manns og leiðbeinandi sem fer dýpra í þessi sömu mál og meira á einstaklingsgrundvelli. Í framhaldinu er aðstandendum svo boðið að halda áfram einhverju starfi hjá félaginu, t.a.m. er nú einn sjálfboðaliðahópur starfandi sem varð til í framhaldi af svona námskeiði og hann sér um Fjölskyldulínuna svokölluðu," segir Ingólfur. Fjölskyldulínan er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Rauða kross Íslands og hafa aðstandendurnir tekið þátt í sérstöku undirbúningsnámskeiði. Þeir sjá nú um símsvörunarþjónustu fyrir aðstandendur geðfatlaðra.

Fleira er á döfinni hjá Geðhjálp. "Nú er að fara af stað sjálfshjálparhópur fyrir fólk með geðklofa, undir stjórn hjúkrunarfræðings. Hér hafa einnig verið starfandi sjálfshjálparhópar fyrir fólk með fælni og einnig fyrir fólk sem þjáist af þunglyndi og geðhvörfum," segir Ingólfur að síðustu.

Morgunblaðið/Golli FRÁ alþjóðageðheilbrigðisdeginum sem haldinn var hátíðlegur 10. október 1998.