"DRAUMURINN var að mennta sig en það dróst alltaf á langinn. Núna í janúar fannst mér ég vera orðin nógu gömul til að ákveða framtíðarstarfið," segir Lilja Jónsdóttir í Viðskipta- og tölvuskólanum í Faxafeni. "Ég kynnti mér námsframboðið m.t.t. þess að ég vildi fá sem mesta menntun á sem skemmstum tíma.
"Ég mun sakna skólans""DRAUMURINN var að mennta sig en það dróst alltaf á langinn. Núna í janúar fannst mér ég vera orðin nógu gömul til að ákveða framtíðarstarfið," segir Lilja Jónsdóttir í Viðskipta- og tölvuskólanum í Faxafeni. "Ég kynnti mér námsframboðið m.t.t. þess að ég vildi fá sem mesta menntun á sem skemmstum tíma."

Lilja segir að í samtölum sínum við atvinnurekendur hafi þeir iðulega bent sér á Viðskipta- og tölvuskólann. "Ég hringdi í skólann og innritaði mig en lenti aftarlega á biðlista. Ég var þó nógu heppin til að komast inn og byrjaði námið í febrúar."

Lilja er í almennu skrifstofunámi. "Ég er búin að læra ótrúlega mikið á stuttum tíma, til dæmis að gera heimasíður á tölvu. Þetta er mjög markvisst nám og hér er frábært starfslið. Alltaf hlýjar móttökur þegar maður mætir í skólann."

Lilja er í VT-skólanum 9­12 á morgnana og útskrifast núna í október en hún hefur starfað á Hard Rock Café í níu ár og rekur einnig bílaréttinga- og bílasprautunarfyrirtæki með manni sínum.

"Bekkjarsystkini mín eru frábær," segir hún og segir þau hafa miðlað sér mikilli reynslu úr atvinnulífinu. "Metnaðurinn er mikill. Ég mun örugglega sakna skólans."

Morgunblaðið/Þorkell "METNAÐURINN hérna er mikill," segir Lilja Jónsdóttir.