VIÐSKIPTA- og tölvuskólinn rekur upphaf sitt til Einkaritaraskólans sem stofnaður var árið 1974 af Einari Pálssyni. Stjórnunarfélag Íslands keypti skólann árið 1984 og var nafninu breytt í Skrifstofu- og ritaraskólann. Árið 1993 gekk Nýherji hf til samstarfs við Stjórnunarfélagið um rekstur skólans og varð nafnið þá Viðskiptaskóli.
Viðskipta- og tölvuskólinn "Seljum ekki ranga drauma"

Starfsnámið í skólanum er í takt við þarfir atvinnulífsins. Gunnar Hersveinn kynnti sér skólann með samtölum við skólastjórann og nemanda

VIÐSKIPTA- og tölvuskólinn rekur upphaf sitt til Einkaritaraskólans sem stofnaður var árið 1974 af Einari Pálssyni. Stjórnunarfélag Íslands keypti skólann árið 1984 og var nafninu breytt í Skrifstofu- og ritaraskólann. Árið 1993 gekk Nýherji hf til samstarfs við Stjórnunarfélagið um rekstur skólans og varð nafnið þá Viðskiptaskóli. Tölvuskóli þessara samstarfsaðila sameinaðist svo honum og úr varð nafnið Viðskipta- og tölvuskólinn. Endurmenntunarsjóður rafiðnaðarmanna tók svo við rekstri hans árið 1996 og er hann starfræktur í Faxafeni 10.

"Við leggjum okkur fram við að kanna bæði hvernig nemendum og atvinnurekendum fellur við skólann og lögum okkur svo að því," segir Jón Árni Rúnarsson skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans (VT), "nýlega sýndi könnun að 70% nemenda höfðu fengið vinnu við sitt hæfi sex mánuðum eftir útskrift.

Jón Árni segir sífellt umbótastarf vera í skólanum og faghópa vera að störfum til að skólinn sé ævinlega í takt við þörfina fyrir þessa menntun. Einnig leggi þeir metnað sinn í að skapa nemendum góðar aðstæður til náms. "Skipulagið, innréttingar og aðstæður miða við það að nemendum geti liðið sem best," segir hann.

VT er starfræktur allt árið nema í júlí. Hann er hannaður til að veita stutt starfsnám og verða nemendur að vera orðnir a.m.k. átján ára gamlir og eru mismunandi kröfur eftir brautum: Almennt skrifstofunám, markaðs- og sölunám, fjármála- og rekstranám og alhliða tölvunám.

"Brautirnar eru byggðar á könnun á því hverskonar menntun skortir á vinnumarkaðinum og höfum við því nýlega bætt við markaðs- og sölunámi og fjármála- og rekstrarnámi," segir Jón Árni.

Hann segir að þeir hafi einfaldlega rannsakað kerfisbundið atvinnuauglýsingarnar í Morgunblaðinu og til dæmis komist að því að oftlega er auglýst eftir sölumönnum en hinsvegar er sölumennska hvergi kennd. Jón Árni segir að faghópur í skólanum hafi uppgötvað fleiri með flokkun atvinnuauglýsinga og í kjölfarið sé í bígerð að bjóða fljótlega upp á nýjar brautir í VT.

VT er einkaskóli og því verða nemendur að greiða hærri skólagjöld en tíðkast í ríkisskólunum. Nemendur eiga heldur ekki greiðan aðgang að námslánum LÍN. "Við höfum því komið okkur upp eigin lánasjóði," segir Jón Árni, "og geta nemendur samið um að greiða námið eftir að námi lýkur og þeir hafa fengið betri störf."

Hann segir það í raun ósanngjarnt að nemendum sé mismunað eftir áhugamálum og hæfileikum. "Nemandi sem hefur áhuga á bóknámi getur stundað það á vegum ríkisins en nemandi sem uppgötvar að nám í VT falli best að hæfileikum hans og áhuga þarf að greiða námið sjálfur. Ég tel sanngjarnara að hverjum nemanda fylgdi opinber greiðsla og hann gæti svo valið sér nám óháð því hver ætti skólann."

Kennarar úr atvinnulífinu

Meðalaldur nemenda í VT er 26 ár en margir virðast tilbúnir til að velja sér ævistarf þá. Nemendur við skólann voru 80 árið 1996 en eru nú um 225 og segir Jón Árni að aldrei þurfi að kvarta um mætingu og enginn voni að kennarinn sé veikur.

Kennararnir eru iðulega fengnir út atvinnulífinu og eru því í góðum tengslum við það sem er að gerast. Stundatöflurnar eru svo aðlagaðar þeirra vinnutíma.

1. september byrjar ný lota í skólanum og svo aftur 1. febrúar með nýjum nemendum.

Jón Árni segir í lokin vera út í hött að bjóða upp á námsleiðir nema það sé fullsannað að þær leiði til starfs. "Það á ekki að selja nemendum ranga drauma," segir hann, "þessvegna erum við sífellt að kanna stöðu skólans út í atvinnulífinu. Nýlega völdum við til dæmis 50 af 100 stærstu fyrirtækjum landsins og 50 önnur af handahófi til að fá ákveðnum spurningum um skólastarfið svarað."

Morgunblaðið/Þorkell UMBÓTASTARF í samræmi við óskir nemenda og atvinnurekenda er aðalsmerki skólans að sögn Jóns Árna Rúnarssonar skólastjóra.