SÁ ORÐRÓMUR gengur staflaust að mikillar ókyrrðar gæti í hugskoti þingmanna stjórnarliðsins, vegna sjávarútvegsmála. Sem vonlegt er lízt þeim mörgum hverjum illa á að ganga til kosninga með óbreytt fiskveiðastjórnarfar. Sér í lagi munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins með böggum hildar og hugsa til þess með skelfingu að eiga að verja stefnu LÍÚ og lénsherranna í kosningabaráttunni.
Rekum

flóttann

Flótti er brostinn í stjórnarliðið, segir Sverrir Hermannsson , bæði í fiskveiðimálum og bankamálum.

SÁ ORÐRÓMUR gengur staflaust að mikillar ókyrrðar gæti í hugskoti þingmanna stjórnarliðsins, vegna sjávarútvegsmála. Sem vonlegt er lízt þeim mörgum hverjum illa á að ganga til kosninga með óbreytt fiskveiðastjórnarfar. Sér í lagi munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins með böggum hildar og hugsa til þess með skelfingu að eiga að verja stefnu LÍÚ og lénsherranna í kosningabaráttunni. Eru því góð ráð dýr og engin í sjónmáli. Enda sjávarútvegsráðherrann ófáanlegur með öllu að stjórna eftir öðru en fyrirmælum frá forystu LÍÚ. Þar við bætist að flokknum er lofað ómældu fjármagni í kosningasjóðinn ef hann heldur fast við stefnu sína og Framsóknar að færa þjóðarauðinn á þær fáu hendur, sem með hann kunna að fara að hyggju Hólmsteins. Eins og menn rekur minni til gripu stjórnarliðar til þess skyndiráðs á næstsíðasta degi þings í vor að gera að sinni gamla tillögu Alþýðubandalagsins um auðlindamál, ef vera kynni að með því fyndist skjöldur að skjóta fyrir sig. Samkvæmt tillögunni var kosin fjölmenn nefnd í málið, en ekki fer frekari sögum af starfi hennar. Þó binda þingmenn vonir við að nefndinni takist að flétta haldreipi fyrir þá að hanga í við næstu kosningar. Kunnugir telja þó að sú von sé afar veik og horfur tvísýnar svo ekki sé meira sagt. Fyrir því er það að fundvísum mönnum í Sjálfstæðisflokknum hefir verið falið að snúa saman ályktun fyrir landsfund að hausti, sem skilja megi a.m.k. á tvo vegu eftir því hvort lesin er af lénsherrum eða fjandmönnum kvótakerfis, og sigla þann veg milli skers og báru. Hvað við taki eftir kosningar megi Óðinn vita. Í öðru stórmáli þeirra stjórnarliða er einnegin brostinn á hraður flótti. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins þora heldur ekki í kosningar með sölu Landsbankans til Svía á samvizkunni. Fyrir því hefir þar á bæ verið ákveðið að biðja Framsókn um að fresta sölunni fram yfir kosningar í þeirri von að flokkarnir haldi meirihluta á þingi og geti haldið áfram að stjórna, eins og foringjarnir gerðu samkomulag um í janúar sl. Enda verði yfirtöku Íslandsbanka á Búnaðarbankanum einnig frestað. Við landtöku að kosningum loknum verður svo fengnum skipt í fjöru þar sem Framsókn kýs og Davíð deilir. Verður þá haldin hátíð heilags Hólmsteins og hins mikla áfanga í hans anda. Viðeigandi væri og, á þeim merku tímamótum, að selja Ríkisútvarpið vönum mönnum, fyrrverandi eigendum Stöðvar 2, Haraldi Haraldssyni í Andra og Jóhanni J. Ólafssyni, heildsala. Ef lesendur álíta að undirritaður sé að gera að gamni sínu þá er það misskilningur, enda verður ekki á valdhafana logið. Á hinn bóginn þarf starfsfólk bankanna ekki að vera felmtri slegið vegna ótíðinda af ætlan stjórnvalda. Ef fólkið vill þarf það ekki að láta leika sig eins og fé til slátrunar leitt. Taki það höndum saman af einurð og festu getur það átt drýgstan þátt í að hrinda af höndum sér og þjóðarinnar óhæfuætlan ríkisstjórnarinnar í bankamálum. Það má einskis láta ófreistað, annars en lögbrota, til að hindra framgang þess að lunginn úr íslenzku fjármálaafli, Landsbanki Íslands, verði seldur í hendur erlendum auðkýfingum. Áhrifarík aðferð í þeirri baráttu verður að láta ganga á sölumönnunum atkvæðapískinn í næstu kosningum. En augljós flótti er brostinn í stjórnarliðið í stórmálunum tveimur, fiskveiðimálum og bankamálum. Við skulum reka þann flótta af kappi fram að næstu kosningum og láta þá höggið ríða. Höfundur er fyrrv. bankastjóri.

Sverrir Hermannsson