MEÐ vinsælasta efni á vefnum er kvikmyndaumfjöllun ýmiskonar og staðir þar sem fræðast má um þá listgrein legíó. Hér á landi er til vefsetrið kvikmyndir.is, sem opnað var í júníbyrjun. Aðstandendur kvikmynda.is eru þeir Gunnar Ingvi Þórisson og Helgi Páll Helgason.
Íslenskur kvikmyndavefur MEÐ vinsælasta efni á vefnum er kvikmyndaumfjöllun ýmiskonar og staðir þar sem fræðast má um þá listgrein legíó. Hér á landi er til vefsetrið kvikmyndir.is, sem opnað var í júníbyrjun. Aðstandendur kvikmynda.is eru þeir Gunnar Ingvi Þórisson og Helgi Páll Helgason. Báðir segjast þeir miklir áhugamenn um kvikmyndir, en allar upplýsingar sem eru á vefnum eru sóttar jafnóðum og þeirra er þörf í gagnagrunn sem var hannaður sérstaklega fyrir vefinn af aðstandendum hans. Gunnar segir að á vefnum sé m.a. að finna yfirlit yfir hvað er í kvikmyndahúsum og sýningartíma, upplýsingar um væntanlegar kvikmyndir í bíó svo sem frumsýningardaga o.fl, upplýsingar um ný og væntanleg myndbönd, yfirlit yfir kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi á hverjum tíma auk upplýsinga um nýja og væntanlega stafræna mynddiska. "Þannig verður hægt að finna upplýsingar um alla DVD-diska sem gefnir hafa verið út fyrir Íslandsmarkað á hverjum tíma. Meðal upplýsinga sem fletta má upp fyrir hverja kvikmynd er tenging í heimasíðu kvikmyndarinnar auk tengingar í umfjöllun hjá einum virtasta kvikmyndagagnrýnanda netsins, James Berdinelli. Gestum vefjarins gefst einnig kostur á að gefa myndum sem þeir hafa séð einkunn í formi stjörnugjafar. Hver mynd fær þannig einkunn sem er byggð á áliti allra þeirra sem greitt hafa atkvæði og er sú stjörnugjöf birt þegar viðkomandi mynd er flett upp sem gefur gestum kost á að sjá hvernig fólki hefur líkað hver mynd," segir Gunnar og bætir við að vissulega hafi fólk skiptar skoðanir á kvikmyndum, en með þessu móti komi álit meirihluta gesta í ljós. Einnig stendur til að sögn Gunnars að bæta við möguleika á að gestir geti skrifað í stuttu máli sitt álit á hverri mynd. Þeir félagar eru sífellt að auka möguleika á vefnum og þannig bættu þeir við leitarvél fyrir skemmstu sem gerir gestum mögulegt að leita í kvikmyndagagnagrunninum eftir titli, leikurum, leikstjórum og handritshöfundum. Í kringum vefinn er einnig rekinn póstlisti þar sem gestir geta skráð sig og fengið síðan sendar í tölvupósti tilkynningar og fréttir um nýtt efni á vefnum. Gunnar segir að aðsókn að vefnum hafi verið góð, en hann sé það nýr af nálinni að enn séu margir sem viti ekki af honum. Að hans sögn liggur talsverður kostnaður í því að koma slíkum vef af stað, en mestur kostnaður felist í að viðhalda vefnum, enda reyni þeir félagar að hafa upplýsingarnar alltaf sem ferskastar, sem kostar mikla uppfærsluvinnu.