Sagan af Brandon Teena var verðlaunuð sem besta heimildarmyndin á Kvikmyndahátíðinni í Berlín. Gréta Ólafsdóttir og Susan Miska gerðu myndina sem sýnd hefur verið víða um heim og verður líklega frumsýnd hérlendis á Kvikmyndahátíð Reykjavíkur. Kristín Ómarsdóttir fjallar um myndina og tekur höfundana tali.
SAGAN AF

BRANDON TEENA Sagan af Brandon Teena var verðlaunuð sem besta heimildarmyndin á Kvikmyndahátíðinni í Berlín. Gréta Ólafsdóttir og Susan Miska gerðu myndina sem sýnd hefur verið víða um heim og verður líklega frumsýnd hérlendis á Kvikmyndahátíð Reykjavíkur. Kristín Ómarsdóttir fjallar um myndina og tekur höfundana tali.

EINU sinni var stelpa sem hét Teena Brandon. Hún bjó með systur sinni og mömmu í Lincoln í Nebraska. Dag einn hringdi síminn og Teena svaraði. Þá hafði unglingsstelpa hringt í skakkt númer en heillaðist svo af stráknum sem svaraði og sagðist heita Billy að úr varð stefnumót. Með hjálp systur sinnar klæddi Teena sig upp sem strákur og hitti símastelpuna. Uppfrá því klæddi Teena sig oftar og oftar sem strák, hún hætti að kalla sig Teena, notaði nafnið Brandon, blekkti umhverfið og naut mikillar kvenhylli ­ sem strákur. Fleiri villa á sér heimildir

Nýlega kom út í Bandaríkjunum ævisagan, Suits me ­ The Double Life of Billy Tipton, eftir Diane Wood. Billy Tipton var píanóleikari í jazzhljómsveitum á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum. Við lát hans uppgötvaðist að hann var kona. Um ævina hafði hann eignast nokkrar konur, stofnað fjölskyldu og alið upp börn sem karlmaður. Nebraska liggur í miðvesturhluta Bandaríkjanna. Þaðan kemur fræg bandarísk skáldkona, Willa Cather (1873-1947) sem á sínum yngri árum klæddi sig gjarnan sem strák og gekk undir nafninu William. Willa var af auðugu fólki, hún fór burt til náms, skapaði sér efnahagslegt sjálfstæði og var lengi ritstjóri tímarits í New York áður en hún helgaði sig skrifum. Lengst af ævi sinnar bjó hún með konu. Saga sem endar illa

Sagan af Brandon Teena gerist í litlum bæjum í Nebraska þar sem hvítt lágstéttarfólk er í meirihluta. Heimilisofbeldi er meira en víðast hvar annars staðar, glæpir eru algengir og fangelsið er annað heimili margra. Laun eru lág og barnseignaaldurinn líka. Í heimabæ sínum komst strákurinn Brandon fljótlega í kast við lögin. Hann stal ávísunum frá ástkonum sínum og færði þeim svo dýrindis gjafir, ilmvötn og blóm. Móðir hans og systir hættu að samþykkja "leik" Teenu og sögðu hverjum sem heyra vildi að Brandon væri stelpa. Brandon flutti frá Lincoln í nóvember 1993 og mánuði síðar hafði hann komið sér fyrir í nýjum bæ, Falls City, þar sem hann var bæði eftirsóttur hjá stúlkum og góður félagi strákanna. Hann eignaðist kærustu sem hét Lana Tisdel, og kynntist félögum hennar, John Lotter og Thomas Nissen. En sagan endurtók sig. Brandon komst í kast við lögin og upp komst um kyn hans. Á aðfangadagskvöld tóku John og Thomas sig til og nauðguðu Brandon. Daginn eftir kærði Brandon nauðgunina. Lögreglan tók skýrslu og læknisskoðun var gerð en fleira var ekki aðhafst í málinu. Áður en árið var liðið höfðu þessir sömu menn tekið líf Brandons og tveggja annarra, vinkonu hans og félaga, á heimili hinnar fyrrnefndu, en þangað hafði Brandon leitað skjóls í neyð sinni. Brandon var tuttugu og eins árs. Framleiddu myndina sjálfar Í ársbyrjun var heimildarmyndin "The Brandon Teena Story" eða Sagan af Brandon Teena frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Þar hlaut hún verðlaun sem besta heimildarmynd hátíðarinnar og einnig verðlaun áhorfenda. Síðan hefur myndin farið á milli kvikmyndahátíða, vakið athygli og hlotið fleiri verðlaun. Hún hefur verið sýnd í Torino, Toronto og nú síðast fékk hún "The Independent Film Channel Documentary Vision"-verðlaunin á fyrstu alþjóðlegu heimildarmyndahátíðinni í New York. Í september verður myndin tekin til sýninga í Film Forum í New York. Leikstjórar Sögunnar af Brandon Teena heita Susan Muska og Gréta Ólafsdóttir. Þær eru búsettar í New York og starfa við kvikmyndagerð. Þær hafa unnið að myndinni um Brandon í fjögur ár og fjármögnuðu hana og framleiddu sjálfar með hjálp vina og styrkja. Þær eru spurðar að því hvað hafi rekið þær áfram til að segja söguna af Brandon Teena. "Það sem rak okkur áfram," byrjar Susan, "kallast brjálæði," skýtur Gréta inn í og Susan heldur áfram: "var túlkun fólks á Brandon. Þegar það lýsir honum sem strák er hann hinn fullkomni ungi maður, elskulegur, hreinlegur, tillitssamur, ljúfur, höfðinglegur, skemmtilegur, góður hlustandi og allt þar fram eftir götunum. Þegar kemur að því að segja frá honum sem konu afsakar fólk sig eða notar neikvæð lýsingarorð."

Óskilgreind kynhneigð

"Billy Tipton var kona sem tókst að lifa sem karlmaður alla sína ævi enda bjó hún og starfaði í öruggu umhverfi," heldur Susan áfram. "Konurnar í lífi hans vissu það eða vissu það ekki og ef einhver í jazzheiminum hafði pata af "hinu rétta" kyni hans kærði sá hinn sami sig kollóttan. Umhverfið sem Billy hrærðist í var umburðarlynt og öruggt en í umhverfinu sem Brandon lifði var blekkingin lífshættuleg. Enda eru það afsakanir og réttlætingar þeirra sem myrtu hann: "Brandon laug!" Í augum morðingja sinna var Brandon réttdræpur. Við vitum ekki til þess að þeir hafi iðrast."

"Ef við spurðum fólkið í Nebraska: "Býr einhver samkynhneigður í Falls City?" Þá var svarað: "Strákur sem við köllum "fag" af því við þolum hann ekki," segir Gréta. "Ef einhver segir að Brandon hafi verið í vitlausum líkama þætti mér nær að segja að hann hafi verið á vitlausum stað. En vel að merkja, við munum aldrei komast að því hvaða stefnu hann hefði tekið í lífinu hefði hann lifað áfram. Þess vegna er þetta aðeins ágiskun. Myndin skilgreinir heldur ekki kynhneigðir hans eða segir áhorfendum af hverju Brandon kom fram sem strákur. Það er ekki á okkar valdi að gera Það." "Hómófóbía drap Brandon," segir Susan. "Það er okkar kenning svona prívat, en hún verður aldrei sönnuð. Fólk í Nebraska getur enn ekki horfst í augu við hann sem stelpu, að þarna hafi verið stelpa á ferð sem svaf hjá öðrum stelpum. Fólk forðast þá hugsun eins og heitan eldinn og segir: "Hann var yndislegur ungur maður og beið eftir því að komast í kynskiptaaðgerð."" Strákur vegna fordóma

"90 prósent af þeim stelpum sem voru með Brandon ­ og þær voru ófáar ­ hafa eignast barn eftir dauða hans," segir Gréta. "Ef við spurðum þær: "Áttuð þið í lesbísku ástarsambandi?" fengum við svarið: "Nei, hann var strákur." Hann var oft með ungum stelpum sem höfðu litla reynslu af kynlífi. Ef kyn hans uppgötvaðist sagði hann við þær að hann biði eftir því að komast í aðgerð og þær tóku því.

Efasemdir um eigin kynhneigð og/eða minningar þessara stelpna um að hafa átt í lesbísku ástarsambandi eru of hættulegar fyrir líf þeirra bæði innávið og að ég tali nú ekki um útávið. Það er auðvelt að halda því fram í ljósi aðstæðnanna og umhverfisins að gervið sem Brandon klæddist hafi verið tilkomið af því hann langaði að vera með stelpum en ekki af því að hann efaðist um kyn sitt. Að hómófóbía umhverfisins og hans eigin hómófóbía hefðu klætt hann upp. En auðvitað erum við hér að tala um látna manneskju sem kaus að fela hluta af sjálfri sér og því förum við ekki útí þessa sálma í myndinni sem er ekki byggð uppá öðru en frásögnum fólksins sem kom þarna við sögu," segir Gréta. Brandon var ástsæll drengur

"Sagan af Brandon er líka saga konu sem tekur sér hlutverk karlmanns og að það skuli vera mögulegt finnst mörgum hræðilegt. Í réttarhöldunum var alltaf talað um Teena Brandon, aldrei um Brandon. Klæðskipti voru aldrei nefnd á nafn. Saksóknarinn vildi það ekki af ótta við að rugla kviðdómendur í ríminu sem hefðu getað hugsað: "Nú já, hún kom sér þá í þetta sjálf!" Og morðingjarnir hefðu gengið út sem frjálsir menn.

Það eru engin lög sem verja "transgender" fólk í Bandaríkjunum. Og ef staða þess er skoðuð í víðu samhengi er það venjulega neðst í þjóðfélagsstiganum, býr við lítið sem ekkert öryggi og er háðara velvild annarra en gengur og gerist. Þannig endaði Billy Tipton, sem átti sín blómaskeið, ævi sína í miklum erfiðleikum og niðurlægingu," segir Susan. "Sem strákur var Brandon elskaður. Hann var það sem við köllum ástsæll. Fyrirfram hefði engan getað grunað að þau örlög ættu fyrir honum að liggja að vera myrtur af hatursmönnum sínum," segir Gréta. Skrifuðust á við morðingjana Við gerð myndarinnar fengu Gréta og Susan nokkra styrki sem fjármögnuðu þrjár ferðir af níu ferðum til Nebraska. Þær fengu svo styrk til að klippa myndina. Þær áttu sjálfar tækin og segja að það hafi ráðið miklu um möguleika þeirra á að gera myndina. "Og annað atriði lækkaði kostnaðinn. Við vorum bara tvær," segir Gréta, "og þannig var líka auðveldara að öðlast trúnað fólks. Við fórum bara tvær í heimsókn en ekki heilt kvikmyndatökulið. Við gáfum okkur mjög góðan tíma í að kynnast fólkinu á staðnum áður en við tókum upp viðtölin. Við heimsóttum það, fórum út að skemmta okkur með því, skrifuðumst á við það og vorum í símasambandi.

Við höfðum skrifast á við og hitt John og Thomas í fangelsunum sem þeir sitja í, hátt á eitt ár áður en við áttum við þá viðtölin sem birtast í myndinni. Við vildum gefa okkur allan þann tíma sem þurfti til að öðlast trúnað allra og sýna lífi allra virðingu og áhuga, ekki bara þeim hluta lífs þeirra sem þessi saga kemur fyrir í.

Í gegnum samtöl og viðtöl fréttum við svo stundum af fólki sem vakti áhuga okkar og það gat tekið okkur ár að hafa uppá því. Fólk býr á svo dreifðu svæði og flyst á milli staða. Þó má segja um íbúa þessa svæðis að þeir flytja ekki brott svo glatt. Kynslóð eftir kynslóð heldur kyrru fyrir, lifir á bótum og ungt fólk er ekki hvatt áfram í námi." Áhugi á sögunni í Hollywood

Hollywood hefur sýnt sögunni áhuga og stuttu eftir að atburðirnir gerðust kom kona sem skrifar sannar sakamálasögur, Aphrodite Jones, til Falls City til þess að skrifa bók um atburðina. Hún gerði svo samninga við fólk sem var þá skuldbundið til að sjá henni fyrir viðtölum, bréfum, ljósmyndum og öðrum heimildum sem gætu hjálpað henni við ritun bókarinnar og gerð kvikmyndar uppúr bókinni.

Í staðinn fengju þeir sem skrifuðu undir samning prósentur af kvikmyndarétti verksins. Sá peningur hefur ekki sést í Nebraska en Diana Keaton keypti kvikmyndaréttinn og hefur áhuga á að gera úr efninu leikna mynd. Drew Barrymore hefur lýst yfir löngun sinni til að leika Brandon. "Það er merkilegt að Hollywood sem á svona mikla peninga," segir Susan, "tæki, vélar og hæfileikafólk skuli enn ekkert hafa gert. Enda urðu þeir undrandi þegar þeir fréttu að við værum búnar. Ef við hefðum haft Miramax og Diana Keaton hefði styrkt okkur hefðum við lokið myndinni fyrir tveimur árum og værum byrjaðar á annarri! En það eru víst vandræði í Hollywood með að finna leikstjóra að myndinni. Og það er sérstakt því leikstjórar í Bandaríkjunum eru jafn algengir og kínverskir veitingastaðir og atvinnulausir leikarar. Allan þann tíma sem við unnum að okkar mynd fréttum við að Hollywood væri að vinna á fullu að sinni.

Við erum ekki að rægja Hollywood. Ástæðan fyrir gremju okkar í þeirra garð er sú að þegar við vorum að byrja hringdi aðstoðarmaður Keatons og vildi fá frá okkur upplýsingar um Nebraska og fólkið sem við hittum. Okkur datt í hug að í staðinn fyrir þessar upplýsingar myndu þeir styrkja okkur, á einhvern hátt, ekkert endilega með peningum, kannski með nafni. Þá var sagt þvert nei, því við værum samkeppnisaðilar. Og hvernig í ósköpunum getur okkar heimildarmynd verið í samkeppni við leikna mynd? Ég sé það ekki. En augun í Hollywood"

"eru alsjáandi," bætir Gréta við.

Nóg af verkefnum

Þegar þær eru spurðar um framtíðarverkefni BLESSBLESS Production sem er nafnið á kvikmyndafyrirtæki þeirra, en einkennismerki þess er ekki grenjandi ljón heldur baulandi kú, segir Gréta: "Við ætlum að gera myndir um það sem enginn vill heyra um. Allt sem við gerum hefur með félagsleg vandamál og réttlætismál að gera, sérstaklega ef þau varða konur. Langtímaverkefni okkar er mynd um dauðarefsinguna, en sá áhugi vaknaði við gerð þessarar myndar þar sem annar morðingjanna var dæmdur til dauða.

Fyrir liggja svo tvö verkefni í Evrópu sem við munum fljótlega byrja að vinna. Annað verður framleitt af austurrískri konu og hitt er í samvinnu við vinkonu okkar í París. Við þetta bætist svo löngun okkar til að gera eitthvað fyndið og skemmtilegt, svona til að vega upp á móti harmleiknum sem Sagan af Brandon Teena fjallar um." Morgunblaðið/Gréta Ólafsdóttir

SUSAN Muska og Gréta Ólafsdóttir gerðu mynd um Brandon Teena.

BRANDON Teena lést vera strákur og tókst að villa á sér heimildir.

MORÐIÐ á Brandon var framið við Humboldt í Nebraska.