Í HAFNARBORG, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, verður í dag klukkan 16 opnuð sýning á verkum þriggja listamanna, þeirra Jóns Óskars, Guðjóns Bjarnasonar og Bjarna Sigurbjörnssonar. Í kynningu segir, að á þessari sýningu sé leitast við að reyna á mörk málverksins að afmarka og opna í senn þær hugmyndir sem ráðið hafa í málaralist.
Við mörk málverksins

Í HAFNARBORG, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, verður í dag klukkan 16 opnuð sýning á verkum þriggja listamanna, þeirra Jóns Óskars, Guðjóns Bjarnasonar og Bjarna Sigurbjörnssonar.

Í kynningu segir, að á þessari sýningu sé leitast við að reyna á mörk málverksins að afmarka og opna í senn þær hugmyndir sem ráðið hafa í málaralist. Þannig teygja listamennirnir sig yfir á önnur svið, í skúlptúr og teikningu og yfir á það illskilgreinanlega svæði sem í uppgjöf hefur verið kennt við innsetningar.

Jón Óskar hefur t.d. unnið með ljósmyndir og tölvuunnar myndir, Bjarni málar gjarnan á plexigler og hefur fellt röntgenmyndir inn í málverk sín og Guðjón hefur blandað saman málverkum og málmverkum á sýningum sínum.

Sýningin stendur til 14. september og verður opið frá kl. 12-16 alla daga nema þriðjudaga. Frá Hafnarfirði fer sýningin til Noregs og í gangi eru viðræður um að hún fari þaðan til Finnlands, Þýzkalands og síðar Bandaríkjanna.