"Við hlökkum til að takast á við þetta verkefni," sagði Hlynur Stefánsson, fyrirliði Íslandsmeistara ÍBV, sem hefur verið Eyjamanna lengst í eldlínunnisagði. Sagði Eyjamenn mættu vel stemmdir til bikarúrslitaleiksins við Leiftur, er hann gaf sér tíma til að líta upp frá vinnunni en hann er rekstrarstjóri Vífilfells, framleiðanda Coca- Cola, í Vestmannaeyjum.


Hlynur Stefánsson, fyrirliði Eyjamanna

Stóð stolt-

ur í stafni "Við hlökkum til að takast á við þetta verkefni," sagði Hlynur Stefánsson, fyrirliði Íslandsmeistara ÍBV, sem hefur verið Eyjamanna lengst í eldlínunnisagði. Sagði Eyjamenn mættu vel stemmdir til bikarúrslitaleiksins við Leiftur, er hann gaf sér tíma til að líta upp frá vinnunni en hann er rekstrarstjóri Vífilfells, framleiðanda Coca- Cola, í Vestmannaeyjum. "Það hefur verið gífurlega mikið að gera í sumar enda hefur salan aukist um 25% í sumar. Hér hefur verið hiti og sól og fólk því eðlilega þyrst. Auk þess hefur verið mikið um ferðamenn og ef að líkum lætur á þeim eftir að fjölga vegna Keikos. Megi hann því lifa sem lengst."

Eyjamenn leika til úrslita í bikarkeppninni þriðja árið í röð en þeir töpuðu fyrir Skagamönnum 1996 og Keflvíkingum í vítakeppni í fyrra eftir tvo framlengda leiki. "Við erum sjóaðir í þessum úrslitaleikjum og höfum trú á því að þetta fari að koma hjá okkur, að eftir því sem tapleikirnir eru fleiri hljótum við að vera nær sigri." Hann áréttaði samt að liðið ætti erfiða mótherja fyrir höndum. "Við erum að fara að spila við lið sem er mjög sterkt. Það spilar vel og er með marga sterka og reynslumikla leikmenn. Liðin eiga það sameiginlegt að hafa verið sveiflukennd, ýmist átt toppleik eða fallið niður í meðalmennsku og jafnvel neðar. En við erum að tala um bikarúrslitaleik og þetta verður hörkuleikur."

Talandi um sveiflur þá voru Eyjamenn ekki upp á sitt besta um helgina þegar þeir gerðu jafntefli við Valsara en á sama tíma unnu Leiftursmenn Þróttara sannfærandi. "Menn voru að hugsa um annað en leikinn á Valsvellinum, gerðu ekki það sem þeir höfðu gert í leikjunum á undan, voru að spara sig fyrir bikarúrslitin," sagði Hlynur.

Stefnan á tvöfaldan sigur

Eyjamenn áttu mikla möguleika á að verða Íslands- og bikarmeistarar í fyrra en tókst ekki ætlunarverkið. "Það er ekkert leyndarmál að snemma í sumar settum við okkur það markmið að sigra í bikar og deild. Þegar við lögðum upp með þetta markmið höfðum við mannskap til að standa undir því, stóran og breiðan hóp. Hins vegar hefur flísast úr honum síðan og róðurinn verður erfiðari fyrir vikið en við vonum að þeir sem hafa komið inn í staðinn grípi gæsina og noti tækifærið."

Í almennri umræðu að undanförnu hafa Eyjamenn verið taldir sigurstranglegri en Hlynur sagði liðin standa jafnt að vígi. "Í mínum huga erum við ekki sigurstranglegri heldur eru möguleikar liðanna jafnir," sagði hann. Reyndar töpuðu Eyjamenn stórt fyrir Leiftri fyrir norðan í sumar, 5:1, en Hlynur sagði deildarleikinn ekki vatn á myllu norðanmanna. "Við vorum að spila illa á þessu tímabili, höfðum rétt slefað í gegnum bikarleik, og svo virtist sem við værum að bíða eftir að fá skell. Eftir hann batnaði leikur okkar. Auðvitað munum við eftir þessum leik og ljóst er að við viljum ekki fá aðra rassskellingu og alls ekki frá þessum mönnum sem unnu okkur stórt fyrr í sumar."

Ekkert í hendi

Sannir keppnismenn sætta sig ekki við neitt nema sigur og Eyjamenn eru í þessum hópi. Samt sagði Hlynur að utanaðkomandi þrýstingur á leikmenn væri ekki til að tala um. "Þrýstingurinn er ekki meiri utanaðkomandi en frá okkur sjálfum. Hins vegar hefur fólkið þurft að horfa á okkur lúta í gras tvö ár í röð og því má segja að við skuldum okkur og áhorfendum okkar það að ljúka dæminu að þessu sinni. Við höfum ekki sýnt okkar rétta andlit í fyrri úrslitaleikjum og því er mikilvægt fyrir okkur að ná toppi að þessu sinni en það verður líka að gerast ef við ætlum að sigra Leiftur. Við berum mikla virðingu fyrir Leiftri en félagið hefur byggt upp sterkt lið í Ólafsfirði og ekki háir því þó leikmenn séu frá mörgum þjóðum. Þvert á móti hafa þeir sameinast í sterku liði og greinilegt er að allir hafa gaman af því sem þeir eru að gera. Við erum líka ánægðir með stöðuna sem við erum í en enn er ekkert í hendi. Við veltum okkur ekki upp úr því sem liðið er; þetta er nýr leikur, honum fylgja nýir möguleikar og þá ætlum við að nýta okkur."

Stoltur í stafni

Hlynur var varamaður þegar Eyjamenn urðu bikarmeistarar 1981 og hann sagðist vilja upplifa fögnuðinn á ný. "Hvernig svo sem leikurinn fer förum við heim til Eyja með Herjólfi. Tilfinningin 1981 er ólýsanleg; þá stóð ég stoltur í stafni þó ég hafi aðeins verið 19 ára varamaður og fleiri hundruð manns tóku á móti okkur á bryggjunni. Það yrði gaman að upplifa þetta aftur áður en ég hætti," sagði Hlynur, sem verður 34 ára í október.

Morgunblaðið/Sigfús G. Guðmundsson HLYNUR Stefánsson, fyrirliði ÍBV, að störfum. Hann er rekstrarstjóri Vífilfells í Eyjum. Steinþór Guðbjartsson skrifar