Friðrik Sólmundsson Pabbi. Á sólríkum morgni leystir þú landfestar í síðasta sinn, öllum að óvörum, og hélst út á hafið sem skilur milli þessa heims og annars. Ekki hefði ég getað ímyndað mér að svo myndi fara þegar við kvöddumst daginn áður; að hönd þín sem ég kreisti í kveðjuskyni þann daginn, myndi halda um árarnar í þínum hinsta róðri.

Þrátt fyrir að þú stæðir höllum fæti gegn illvígum sjúkdómi sem hafði heltekið þig á svo stuttum tíma, beindist hugur þinn einungis í þá átt að safna kröftum; komast á fætur og berjast við þennan vágest. Í mínum huga var þessi barátta rétt að hefjast og ég ætlaði svo sannarlega ekki að liggja á liði mínu í þeirri baráttu.

Það að liggja á sjúkrabeð og þurfa að þiggja hjálp frá öðrum var hlutskipti sem þú áttir erfitt með að sætta þig við. Þú sem alltaf hafðir verið sá sterki, kletturinn sem alltaf varst til reiðu til að styðja aðra, þurftir nú sjálfur á stuðningi að halda. Enda sagðir þú í glettni þinni í okkar síðasta samtali að það endaði með því að þú þyrftir að flýja á fjöll, svo skuldugur værir þú orðinn við þá sem voru að færa þér smáræði í heimsóknartímunum. Talaðir um að nú væri mál að rífa sig upp úr þessu og gera eitthvað í málunum. Og það gerðirðu svo sannarlega, en ekki á þann hátt sem við gerðum ráð fyrir.

En nú hefur þú ýtt frá landi og snýrð ekki aftur. Eftir stend ég og finn sárar öldur sorgarinnar brotna á ströndu minni og það svíður í sölt sárin. Svíður að heyra aldrei aftur þinn einstaka hlátur og skoplegu athugasemdir. Svíður að geta ekki sagt allt það sem ég átti eftir að segja við þig. Svíður fyrir hönd dætra minna sem fá ekki framar að hjúfra sig í þínum eftirsótta faðmi. Svíður sáran.

Í þessum fátæklegu skrifum til þín, pabbi minn, vil ég þakka þér fyrir það að hafa leitt mig inn á réttar brautir í lífinu. Fyrir stuðninginn og traustið sem þú sýndir óhörðnuðum unglingi við ákvarðanir sem vörðuðu framtíðina. Þú varst og ert sú besta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér í lífinu. Ég þakka þér.

En þar sem þú hverfur yfir sjóndeildarhringinn með stefnuna setta á höfnina hinum megin, er ég sannfærður um að gömlu félagarnir þínir á Heimi bíða á bryggjunni, tilbúnir að taka á móti endunum. Það verða án efa miklir fagnaðarfundir.

Sólmundur.