Sveinn Eiríksson Frændi minn Sveinn Eiríksson í Steinsholti var mikill öðlingur. Hann var móðurbróðir minn og við systur- og bróðurbörn hans áttum í honum mikinn vin. Honum var gefið ómælt af þeim kostum sem leiða til farsældar í daglegu lífi, svo fátækleg orð segja þar lítið. Gæfan var okkar sem fengum að ganga með honum spölkorn á langri ævi. Aldur er þó afstætt hugtak og árin 84 sem hann lifði sögðu ekki allt, því andinn var enn ungur og líkaminn hraustur. Af æðruleysi fylgdist hann með nútímanum, skoðaði málin af skynsemi og án fordóma og jók stöðugt við þann mikla fróðleik sem hann hafði numið og geymdi í sínu óvenju skarpa minni. Hann fylgdist af áhuga með verkefnum okkar systkinabarnanna, gladdist yfir unnum áföngum og bar hag okkar mjög fyrir brjósti. Og börnin okkar, sem enn eru lítil voru eins og við, fljót að skynja hlýju og kærleik Svenna og löðuðust að honum. Litlar hendur fundu öryggi í stóra hlýja lófanum og trítluðu með frænda sínum upp á loft að lesa bók eða upp á Bala að líta á landið.

Eins og djúpur og frjósamur jarðvegur getur geymt og miðlað vatni og næringarefnum var Svenni ávallt tilbúinn að miðla fróðleik og tilbúinn til aðstoðar. Til hans var gott að leita og óhætt að treysta minni hans og góðvilja til annarra. Það fengu margir að reyna, því oft voru honum falin erfið verk sem reyndu mjög á færni í mannlegum samskiptum. Hann gekk til allra verka af trúmennsku og vandvirkni, sem eru dýrmætir eiginleikar, ekki síst fyrir bóndann, forðagæslumanninn og hreppsnefndarmanninn, en öllum þessum störfum sinnti Svenni af einstakri árvekni.

Með hógværð en festu stjórnaði hann liði sínu sem fjallkóngur og sagði vel til. Hann var kennari á fjöllum. Langt inni á óbyggðum hélt hann erindi um afréttinn, sagði frá hvernig ætti að smala hann og ræddi um atferli manna og dýra. Því það er list að vera góður smali. Það var mikil gæfa og ævintýri að fara um afrétt Gnúpverja í fylgd Svenna. Þar þekkti hann hverja þúfu og var glöggur á allt sem þar ber fyrir sjónir, gróður, dýralíf, ár og jökla. Svo kunni hann óteljandi sögur sem tengdust þessu landsvæði.

Ég man eitt sinn niðri við Þjórsá, er búið var við reka féð fram yfir Gljúfraá. Svenni hafði þá ekki gefið sér tíma til að matast allan daginn, en nú var dagsverki að ljúka og tími til að hvílast stundarkorn. Hann lagðist í lyngbreiðuna og við átum þykkt smurðar flatkökur sem hann hafði sjálfur útbúið. Ég man hann leggja fyrstan út í Miklukvísl, öruggan og varfærinn leggja á sund og við hin fylgdum á eftir. Man hann í öllum barnaafmælum hjá systkinabarnabörnum sínum. Ég man hann heima í Steinsholti bæði við vinnu og í samræðum ásamt systkinum sínum um ótal margt sem skiptir máli. Mest ræddum við þó um landið og gróðurinn. Svenni dó á einum fegursta og blíðasta degi sumarsins í faðmi landsins sem hann unni. Heiðríkja og logn þessa sunnudags er lýsandi fyrir minningarnar um einstakan mann og léttir sviðann sára.

Við systkinin kveðjum Svenna móðurbróður okkar með virðingu og einlægri þökk.

Sigþrúður Jónsdóttir.