Friðrik Sólmundsson "Er Frissi frændi að koma í heimsókn," spurði ég mömmu þegar ég fann kjötsúpulykt. Jú, það var nefnilega venja að elda kjötsúpu þegar Frissi kom suður. Kannski er það þess vegna sem mér finnst kjötsúpa svona góð í dag, það var eitthvað svo notalegt að vera nálægt Frissa. Hann var skapgóður með eindæmum og í návist hans, með sína kímnigáfu og ró, leið öllum vel.

Í æsku var ég svo heppinn að dveljast sumarlangt á heimili Frissa og Sollu. Minningarnar frá þessu sumri eru eins og ævintýri í huga mér og munu verða áfram um aldur og ævi. Þorvarður sonur minn hefur fengið að njóta þessara minninga þegar ég hef sagt honum sögur fyrir svefninn.

Kæri frændi, ég þakka þér og fjölskyldu þinni fyrir þær ánægjustundir sem þið hafið veitt mér. Elsku Solla, megi Guð styrkja þig og fjölskylduna í sorg ykkar.

Ágúst Már og fjölskylda.