Sveinn Eiríksson

Við hjónin vorum stödd í hestaferð í Áfangagili á Landmannaafrétti ásamt fjölskyldu okkar, þegar yngsti sonur okkar kom úr Reykjavík og flutti þau hörmulegu tíðindi, að Sveinn í Steinsholti hefði látist af slysförum þá fyrr um daginn. Þetta hafði verið einn allra fallegasti dagur sumarsins, og hafa þeir þó verið margir þetta sumar á Suðurlandi, en nú var sem ský drægi fyrir sólu. Í stað glaðværðar og kátínu við kvöldverðarborðið sátum við nú hnuggin og sorgmædd. Daginn eftir riðum við niður í Gnúpverjahrepp að finna vini okkar í Steinsholti. Ég var strákur á áttunda ári, þegar mér var komið fyrir í sveit í Steinsholti, fyrir milligöngu afa míns. Þar dvaldi ég síðan samfellt í sjö sumur. Þá bjuggu þar félagsbúi fimm systkininna ásamt föður sínum og móður, en Margrét systir þeirra var þá gift og nýbyrjuð búskap með manni sínum, Jóni Ólafssyni, í Eystra-Geldingaholti. Samvinnan og verkaskiptingin við búskapinn í Steinsholti var til mikillar fyrirmyndar og aldrei man ég eftir að þau systkin deildu um nokkurn hlut. Sveinn, eða Svenni eins og hann var alltaf kallaður heima í Steinsholti, var fyrir þeim bræðrum í sauðfjárhaldinu, Nonni réð ríkjum í fjósinu, Loftur smíðaði allt og sá um viðhald véla og aðdrætti til búsins, og Eiríkur faðir þeirra var sístarfandi að búskapnum. Systurnar Sigga og Bagga sáu um allt innanstokks með Sigþrúði móður sinni og saman vann svo öll fjölskyldan ásamt sumarfólki við heyskap, smalamennsku og önnur störf. Ég á margar góðar minningar um Svenna frá æskuárunum við fjárstúss og smalamennsku í Steinsholtshögum. Stundum fór ég einn með honum, en oftast vorum við fleiri saman, einkum ef smalað var til rúnings eða þegar rekið var til fjalls. Ég setti mig sjaldan úr færi að fá hann til að segja mér sögur frá fjallferðum sínum, en hann var þá þegar orðinn einn reyndasti fjallmaður Gnúpverja. Hann var mjög góður sögumaður, sagði skipulega frá og var einkar lagið að færa frásögur sínar í spennandi búning. Raunar á ég þeim bræðrum öllum í Steinsholti að þakka, þann áhuga sem þeir glæddu með mér til að kynnast öræfum landsins af eigin raun. Svenni var mikill barnakarl og börn löðuðust að honum. Fyrst man ég hvað hann var góður Þóri, systursyni sínum, sem ólst upp í Steinsholti, en síðar börnum Lofts og Möggu og á seinni árum barnabörnum þeirra. Í huga mér er skýr mynd af Svenna heima í stofu í Steinsholti með strákhnokka eða telpuhnátu á hnjánum. Strákarnir okkar hjóna fengu líka að njóta barngæsku hans og umhyggju systkina hans, þegar þeir fengu að dvelja mörg sumur við leik og störf í Steinsholti á uppvaxtarárum sínum. Þá menntun og uppeldi sem þeir fengu hjá Svenna og systkinum hans metum við ekki síður en skólagöngu þeirra, og sá vinargreiði að taka þá til sumardvalar til margra ára verður aldrei fullþakkaður.

Ekki er á mínu færi að rekja öll þau störf sem sveitungar Svenna fólu honum á langri ævi, en hann var ungur kosinn í hreppsnefnd Gnúpverjahrepps og sat þar í áratugi, var formaður búnaðarfélags sveitarinnar um langt árabil og var lengi fjallkóngur Gnúpverja. Öllum þessum störfum sinnti hann af stakri samviskusemi og trúnaði. Í mörg ár var hann forðagæslumaður sveitarinnar og þar veit ég að hann kom fram sem hinn ljúfi leiðbeinandi fremur en strangur embættismaður, ætíð reiðubúinn að rétta hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á. Haustið 1951 var skorið niður allt fé á stórum hluta Suðurlands og 1952 og 1953 sendu Sunnlendingar menn til fjárkaupa norður í land og var Sveinn í Steinsholti einn þeirra manna sem valinn var til þeirra starfa. Strax eftir að nýja féð kom hófust þeir Steinsholtsbræður handa, með Svenna í forystu, um að rækta upp góðan fjárstofn og náðu brátt frábærum árangri í því starfi. Má með nokkrum sanni segja að til hafi orðið í Steinsholti nokkurs konar séraguðmundarkyn þeirra Árnesinga. Sauðfjárbændur fóru nú að sækjast eftir að kaupa lambhrúta frá Steinsholti og einhverju sinni í réttum er ég tók eftir þessu spurði ég Svenna hvort þetta væru ekki ábatasöm viðskipti, hvort hann gæti ekki selt þessa hrúta svo sem eins og á tvöföldu sláturverði (náttúrlega samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn). Hann kvað nei við því og sagðist selja þá á sláturverði. Þegar ég svo spurði hann hvort honum þætti ekki eðlilegt og sjálfsagt að hann, sem eytt hefði svo miklum tíma og fyrirhöfn í þetta ræktunarstarf, hlyti einhverja umbun erfiðis síns, svaraði hann því til, að sá heiður sem þessir kollegar hans sýndu honum með því að sækjast eftir lambhrútunum hans veitti honum miklu meiri gleði en nokkrar krónur. Þetta þykir kannski skrýtin kenning nú, þegar allt er metið eftir arði og gróða, en lýsir Svenna vel. Hann þekkti nefnilega þá sönnu gleði sem fólgin er í því að deila því sem maður á með öðru fólki. Á þeim árum sem ég var snúningastrákur í Steinsholti höfðu tekið við búskap á mörgum bæjum sveitarinnar jafnaldrar systkinanna í Steinsholti. Flest þetta fólk naut ekki langrar skólagöngu, en það gekk í Ásaskóla og naut frábærrar leiðsagnar Unnar Kjartansdóttur frá Hruna, sem síðar varð reyndar fyrsti barnakennari minn hér í Reykjavík og ég mat mikils. Sumir piltanna komust í búnaðarskóla eins og Svenni sem var tvo vetur í Hólaskóla, og nokkrar stúlknanna fóru í héraðs- eða húsmæðraskóla. En ofan á þann góða grunn sem lagður var í Ásaskóla bætti þetta fólk við sig með sjálfsmenntun, fyrst og fremst með lestri góðra bóka. Mottó þessa fólks var ræktun. Ræktun jarðarinnar og búfjárins, en ekki síður ræktun hugans. Það var þessi kynslóð sem umbylti íslenskum landbúnaði, frá stritinu með orfið, hrífuna og rekuna til þess tæknivædda landbúnaðar, sem við þekkjum í dag. Síðar á lífsleiðinni, þegar ég varð fullorðinn, átti ég þess kost að hitta þetta fólk á skemmtunum austur í hrepp og þá fann ég hvað það var fallega menntað. Það var hreinn unaður að umgangast það og eiga við það samræður, og ekki síður að taka með því lagið, því Gnúpverjar eru með afbrigðum söngelskt fólk. Í öllu þessu menningar- og ræktunarstarfi, sem unnið var í Gnúpverjahreppi fyrir og eftir miðbik aldarinnar, voru Sveinn í Steinsholti og systkini hans virkir þátttakendur. Þau störfuðu í ungmennafélagi sveitarinnar og tóku þátt í leiksýningum þess, Svenni og þrjú systkini hans sungu í kirkjukór Stóra-Núpskirkju í áratugi og sjálfur var hann í forystu í búnaðarfélagi sveitarinnar og í hreppsnefnd um langt árabil, eins og áður er sagt. Fyrir öll þessi störf veit ég að sveitungar hans þakka honum í dag. Sjálfur þakka ég og fjölskylda mín Svenna af heilum hug allt það góða sem hann gjörði okkur. Það er gott og mannbætandi að hafa átt þess kost að eiga mann eins og Svein í Steinsholti að vini. Heimilisfólkinu á Steinsholtsbæjunum báðum, í Eystra-Geldingaholti og öðrum nánum aðstandendum Svenna vottum við okkar dýpstu samúð og biðjum þeim öllum Guðs blessunar.

Andreas Bergmann.