Friðrik Sólmundsson Það er oft undarlegt með hugboð, hve sterk þau eru. Í fyrrahaust komu þau Friðrik og Sólveig til að kveðja mig áður en ég hélt af landi brott. Þegar hann kvaddi mig, var eins og hvíslað að mér að við ættum ekki eftir að sjást aftur í þessu lífi. Gleymdi þessu strax, en svo rifjaðist það upp er ég frétti lát hans, fannst þetta hefði átt að vera á annan veg.

Við Friðrik höfðum þekkst lengi. Foreldrar hans fluttust til Stöðvarfjarðar frá Berufirði með tvær telpur, hin börnin fæddust öll á Stöðvarfirði. Það voru góðir innflytjendur. Sólmundur tók strax virkan þátt í öllu sem var að gerast í byggðarlaginu, var einn af stofnendum Kaupfélags Stöðfirðinga og í stjórn þess. Starfaði hjá ungmennafélaginu, lék til dæmis í Kristrúnu í Hamravík og gerði það með ágætum, var hlýr og skemmtilegur við okkur unglingana er lékum með honum.

Hann var ákaflega hagur, gat gert við allar vélar í bátunum og mikill smiður. Fyrst eftir að hann kom var hann formaður á mótorbátnum sem kaupmaðurinn átti. Síðar eignaðist hann sinn eigin bát, hafði marga sjómenn og gekk vel. Guðrún, kona hans, var mjög listfeng, prjónaði ólíklegustu munstur eins og hún hefði aldrei gert annað og fékkst við margt fleira með sínu stóra heimili. Hún hafði mikið yndi af bókum og sagðist ekki skilja fólk er aldrei liti í bók eða blað. Þau urðu brátt miklir vinir foreldra minna og samgangur mikill á milli bæjanna Ekru og Laufáss. Fjölskyldurnar komu saman um hátíðar, mikið var spilað á spil og allir voru kátir og glaðir. Það voru skemmtilegar stundir.

En ekki er alltaf sól og blíða í lífinu. Friðrik missti föður sinn þegar hann var aðeins sex ára. Ég var stödd á heimilinu. Það var átakanleg sjón að sjá öll börnin, stór og smá, standa við rúmið hans og pabbi var hættur að brosa og vera glaður eins og hans var venja. Móðirin á sjúkrahúsi í Reykjavík og amman hálfblind stóð þarna líka og tárin runnu niður kinnar hennar, amman sem búin var að sjá á eftir öllum sonum sínum og þessi tengdasonur sem hafði verið henni svo góður var þá líka farinn.

Eftir að Guðrún komst til heilsu buðust margir til að rétta henni hjálparhönd. Sum börnin fóru í fóstur, eflaust á góð heimili, en erfitt hefur það verið fyrir Guðrúnu í hvert sinn að skilja við þau eitt af öðru, því auðvitað þykir móður jafn vænt um öll börnin sín og mörg ör verða eftir þó sárin grói.

Jóna og Friðrik fóru til frændfólks í Reykjavík á vel statt heimili. Ég heyrði Guðrúnu segja við móður mína: Vonandi fá þau að menntast, ég get ekki veitt þeim það. Alvara var djúpt mörkuð í andlit hennar. En blessaður Friðrik kunni ekki við sig og kom heim aftur, til mikillar gleði fyrir Guðrúnu. Eftir það skildu þau ekki fyrr en hún féll frá, nema þegar hann fór í Sjómannaskólann og hún skrapp í vinnu.

Ég á margar góðar minningar um Friðrik. Hann var oft á heimili foreldra minna stund og stund. Einn vetur fór mamma hans ráðskona suður á Berufjarðarströnd og var hann hjá þeim á meðan, gekk hér í barnaskólann og fékk að hafa kisu sína með sér. Eitt sinn kom ég upp að Ekru og spurði hvort þetta væri ekki góður veiðiköttur. Hann hélt það nú. Bað ég hann að koma nú með hana til mín, það væri svo mikill rottugangur í kjallaranum. Það stóð ekki á því, daginn eftir kom hann og kisa vann sitt verk fljótt og vel. Það var gaman að sjá brosið á honum þegar við sáum margar liggja í valnum. Hún þurfti ekki á mat að halda, var vel haldin hjá honum og nuddaði sig við fætur hans.

Áður en þau keyptu sér hús leigðu þau á hæðinni fyrir ofan okkur. Guðrún þurfti eitt sinn að skreppa til Reykjavíkur. Hún sagði mér að búið væri að bjóða honum að vera á ýmsum stöðum en hann vildi helst vera hjá okkur í Kaupfélaginu. Þótti mér mjög vænt um það. Hann reyndist líka hinn skemmtilegasti og besti gestur, las mjög mikið fyrir son minn, Eystein, er þá var ungur en sjúkur í sögur. Oft var hann búinn að lesa Dísu ljósálf, alltaf jafn þolinmóður og viljugur. Síðar keyptu þau sér svo hús rétt hjá okkur og naut ég margskonar velvilja frá þeim.

Árin liðu. Friðrik orðinn stýrimaður á stórum bát, Heimi, er Varðarútgerðin átti. Eitt sinn ætluðu þeir skipverjar um borð í Heimi, er lá úti á bótinni, á litlum björgunarbát, en ekki tekst betur til en svo að jullan veltur um koll og þeir allir í sjóinn. Friðrik var þá búinn að vera á sundnámskeiði, gat synt að Heimi og kastað bjarghring til eins þeirra er barðist við drukknun, hinir náðu í litla bátinn og héldu sér þar til hjálp barst úr landi. Þetta var mikið afrek að bjarga sjálfum sér og öðrum manni.

Friðrik kvæntist elskulegri og vel gefinni konu, Sólveigu Sigurjónsdóttur, frá Snæhvammi í Breiðdal. Eiga þau fimm vel gefin og glæsileg börn er sverja sig í ættina með myndarskap og listhneigð.

Friðrik og Sólveig hafa búið í Stöðvarfirði allan sinn búskap, einnig þrjú börnin. Ef allir Stöðfirðingar væru eins og þau væri ekki fólksflótti héðan.

Frissa mínum þykir sjálfsagt nóg komið svo ég kveð hann og bið honum allrar blessunar með kærri þökk fyrir gömul og góð kynni.

Þorbjörg Einarsdóttir.