FRIÐRIK SÓLMUNDSSON

Friðrik Júlíus Sólmundsson fæddist í Laufási við Stöðvarfjörð 12. febrúar 1930. Hann lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 23. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sólmundur Kristján Sigurðsson sjómaður og smiður í Laufási við Stöðvarfjörð, f. 19. júlí 1897, d. 31. maí 1936, og Guðrún Auðunsdóttir húsmóðir, f. 11. nóvember 1897, d. 16. september 1951. Systkini Friðriks eru Auður Katrín, f. 1920; Sigríður, f. 1921; Sigurveig, f. 1924; Jóna Margrét, f. 1927, d. 1973; Laufey, f. 1928; Bergur, f. 1931, d. 1992; Jóhanna, f. 1932; Sólmundur Kristján, f. 1936, d. 1949. Hinn 17. október 1954 kvæntist Friðrik Solveigu Guðlaugu Sigurjónsdóttur, f. 2. september 1932, frá Snæhvammi í Breiðdal. Foreldrar hennar voru Oddný Elín Vigfúsdóttir húsmóðir, f. 9. janúar 1899, d. 28. janúar 1971, og Sigurjón Jónsson skáld og bóndi í Snæhvammi í Breiðdal, f. 5. febrúar 1896, d. 10. nóvember 1981. Börn Friðriks og Solveigar eru: Sigurjón Snær, f. 17. mars 1953, kvæntur Kristínu Jóhannesdóttur, barn þeirra er Arnar Snær, f. 1985; Sólrún, f. 10. febrúar 1955, gift Ríkharði Valtingojer, börn þeirra eru Kári Snær, f. 1981, og Rósa, f. 1983; Áslaug, f. 27. október 1959, gift Garðari Harðarsyni, börn þeirra eru Hilmar Örn, f. 1980, og Alda Rut, f. 1983; Sólmundur, f. 29. september 1967, kvæntur Guðrúnu Rakel Brynjólfsdóttur, börn þeirra eru Hildur, f. 1991, og Agnes, f. 1997; Solveig, f. 12. febrúar 1970. Friðrik ólst upp í Laufási fram undir fermingu. Hann stundaði sjómennsku frá 12 ára aldri og tengdist ævistarf hans sjónum æ síðan með einum eða öðrum hætti. Friðrik átti stóran þátt í uppbyggingu útgerðar á Stöðvarfirði ásamt félögum sínum í Varðarútgerðinni, bræðrunum Kjartani og Ara Vilbergssyni. Hann starfaði sem vélstjóri á bátum útgerðarinnar og sinnti einnig framkvæmdastjórn um tíma. Hann kom á fót og stýrði harðfiskverkun á vegum útgerðarinnar og var þar verkstjóri eftir sameiningu fyrirtækjanna á staðnum. Síðustu árin stundaði Friðrik sjóinn í formi trilluútgerðar en hætti störfum fyrir tveimur árum. Útför Friðriks fer fram frá Stöðvarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.