Friðrik Sólmundsson Mágur minn og vinur, Frissi, þú ert horfinn sjónum okkar að sinni, þar til við sameinumst þér, foreldrum þínum og bræðrum þar sem ljósið og nýtt líf er eilíft í Drottni og Jesú Frelsara okkar. Það tárfelldu margir sl. sunnudag, þegar fréttin barst okkur um að þú værir farinn. Við vissum að þú varst veikur ­ en við áttum ekki von á því að kallið kæmi svo snöggt ­ bænir okkar náðu ekki að halda þér lengur hjá okkur.

Menn verða ekki merkilegri, duglegri né betri þótt þeir deyi. Frissi var góður maður og duglegur og völundur í höndunum eins og faðir hans Sólmundur. Frissi reri sig upp úr árabáti í skuttogara með bræðrunum Kjartani og Ara ásamt fleirum. Þeir þrír voru um langan tíma burðarásinn í atvinnulífinu á Stöðvarfirði ­ sjósóknarar og fiskverkendur, þar sem Frissi var m.a. vélstjórinn og bókhaldarinn.

Það var lærdómsríkt að fá að starfa fyrir þá og með þeim á Stöðvarfirði en nú hafa þeir allir siglt á Drottins mið. Jón Axel Pétursson, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, sagði eitt sinn við mig á gangstéttinni sunnan Landsbankans: "Maður tekur nú bara ofan fyrir sona mönnum," og átti hann þar við Varðarútgerðarmenn, sem gerðu út aflaskipið Heimi SU 100 enda stóðu þeir ávallt í skilum í Landsbankanum.

Frissi var traustur og heiðarlegur maður, fyrirmyndar fjölskyldumaður og mikill afi. Samverustundir okkar og samvinna hefur varað í meira en 40 ár. Við sváfum á heimilum hvor annars ásamt eiginkonum okkar, Laufeyju og Sollu, í Reykjavík og Stöðvarfirði.

Gróðurreitur Frissa og Sollu í Fögruhlíð í Skriðdal sem hugur og hönd Frissa hefur prýtt svo fagurlega ­ verði áfram griðastaður Sollu, barna hennar og barnabarna. ­ Það er ósk okkar Laufeyjar og bæn. Ég sakna þín Frissi.

Bænarorð séra Hallgríms bið ég um að fylgja þér, góði mágur og vinur:

Vertu, guð gaðir, faðir minn

í Frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Hæsti Höfuðsmiður, blessa þú Sollu og Frissa og alla afkomendur þeirra.

Jón Magnússon.