Sveinn Eiríksson Það er um hádegisbil á fögrum sunnudegi. Við hjónin sitjum og spjöllum saman. Ég segi henni frá síðastliðinni viku. Var með yngsta fjölskyldumeðliminn fyrir austan, í Steinsholti. Okkur fannst að þau systkinin í Steinsholti væru svo blessunarlega hress. Svenni hafði verið að hjálpa mér að þekja. Gamli kartöflukofinn fékk nýjar þökur. En skjótt skipast veður í lofti. Síminn hringir og truflar samtalið. Harpa, dóttir mín, réttir mér símtólið. Hann Svenni er dáinn! Það varð slys. Við sitjum sem lömuð. Af hverju? Hann sem var svo hress. Fyrsta hugsunin er að fara austur strax, og á leiðinni rifjast upp minningarnar. "Á ég að líta á þig?" Þetta var setning sem Svenni sagði við mig lítinn hnokka ef ég hafði verið eitthvað óþægur. Svo alvarlegt var það í barnshuganum að setningin hreif. Það var ekkert grín ef Svenni þurfti "að líta á mig".

Svenni var sérlega barngóður og var ég einn af þeim sem fékk að njóta þess. Síðar börnin mín. Hann þurfti stundum að "líta á mig" en hann leit í raun aldrei alveg af mér. Taugin sem ofin var í æsku hefur aldrei slitnað, þó kannski megi segja að teygst hafi á henni. En Svenni var alltaf á sínum stað. Þegar leið mín lá um dimman dal, voru Svenni og hin frændsystkini mín kletturinn sem ekki bifaðist. Mig langar í þessum fáu orðum að þakka Svenna fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mína. Svo og fyrir þá auðlegð minninga sem hann skildi eftir í hugum okkar. Megi algóður Guð blessa minningu Svenna.

Að kveðja heim sem kristnum ber

um kvöld og morgun lífsins er

jafnerfitt æ að læra,

og engum lærðist íþrótt sú,

ef ei, vor Jesú værir þú

hjá oss með orð þitt kæra.Ó, Drottinn, nær sem dauðans hönd

frá dufti mínu skilur bönd

mig lykja láttu hvörmum

sem barn við móðurbrjóst og fá

þann blund, er værstan hljóta má,

í þínum ástarörmum.

(Helgi Hálfdanarson) Þórir Haraldsson og fjölskylda.