Sveinn Eiríksson Steinsholt í Gnúpverjahreppi er gömul margbýlisjörð og kirkjustaður fram til 1800, en þá eftir móðuharðindin var kirkjum fækkað víða í sveitum og Steinsholtskirkjusókn þá sameinuð Stóra-Núpssókn og hefur svo verið síðan.

Árið 1920 keypti Eiríkur Loftsson hjáleiguna Bala sem mun hafa verið fast að þriðjungur Steinsholtstorfunnar og eftir það var Steinsholt orðið ein besta jörðin í sveitinni, bæði landmikil og landkostir ágætir. Með þessum jarðakaupum batt fjölskyldan sér þunga bagga, en með miklum dugnaði og búhyggindum tókst að gera Steinsholt að afurðasælu stórbýli, jörðin stöðugt endurbætt og aukið við túnin, og íbúðarhús og peningshús stækkuð og bætt, eins og best varð á kosið. Það var ánægjulegt að fylgjast með þessari sigurför hinnar samhentu fjölskyldu, sem vann þarna í bróðerni og besta samkomulagi hvern stórsigurinn eftir annan, og gerði Steinsholt að býli, sem var aflögufært og reiðubúið að leysa margra vanda, þegar einhverjir þurftu á hjálparhönd að halda. Systkinin í Steinsholti lærðu að vinna saman og félagsbúið í Steinsholti, sem þau stóðu að fjölskyldan, fimm til sex einstaklingar í fulla hálfa öld, bar svo ríkulegan ávöxt að indælt var að fylgjast með búinu og sjá árangur starfsins.

Það er stutt bæjarleið á milli bæjanna Hæls og Steinsholts, og þar sem systkinahóparnir á bæjunum voru á svipuðum aldri, þá lékum við okkur oft saman mitt á milli bæjanna, fórum þangað með heilmikla búslóð á vorin og þar á meðal mikið af hornum, og dreifðum þeim um hagana. Síðan þurftum við að fara í erfiðar og langar fjallferðir og smala hornunum til rétta og var Sveinn fjallkóngurinn enda fjármargur. Í þessum leikjum kom strax fram hin ábyrga framkoma Sveins og hve fljótt hann hlaut traust sinna samferðamanna.

Sveinn hlaut ekki langa skólagöngu, en var þó ágætlega menntaður, fróður og ritfær og átti létt með að koma fyrir sig orði. Honum auðnaðist að fara á Bændaskólann á Hólum og var þar í tvo vetur og reyndist þar fyrsta flokks nemandi og tók þar búfræðipróf árið 1942.

Sveinn hafði nú aflað sér góðrar menntunar til þess að verða bóndi, og hann hlaut í vöggugjöf hæfileika til að verða úrvalsbóndi, sérstaklega í sauðfjárrækt. Hann var ágætlega fjárglöggur og einstaklega glöggskyggn á líðan og þarfir hjarðarinnar. Hann var frábær fjallmaður, ratvís með afbrigðum, veðurglöggur og úrræðagóður í illviðrum, vatnavöxtum eða vondri færð. Fáir menn munu hafa þekkt afrétt Gnúpverja betur en Sveinn, enda mun hann hafa farið flest haust í afréttinn sem fjallmaður frá árinu 1932 til ársins 1988 eða í 56 ár og oft tvisvar á hausti og oft í lengstu leitir. Síðustu níu árin sem Sveinn var á fjalli var hann skipaður fjallkóngur og þann ábyrgðar- og virðingarsess skipaði hann með mikilli prýði.

Þegar fjárræktarfélag Gnúpverja var stofnað árið 1946 var Sveinn Eiríksson kosinn fyrsti formaður þess. Fjárpestirnar gerðu þá mikið tjón í fjárstofninum, en fjárræktaráhuginn var mikill í sveitinni og enn höfðu menn ekki gefið upp vonina að ráð fyndust til að vinna bug á mæðiveikinni. Árið 1951 var svo ákveðið að hafa fjárskipti og farga öllu fé og hafa héraðið fjárlaust í eitt ár. Árið 1952 var svo keypt fé í Kelduhverfi í staðinn og var Sveinn í Steinsholti skipaður foringi fjárkaupamannanna.

Fjárkaupin tókust með afbrigðum vel, og átti Sveinn áreiðanlega mestan heiðurinn af hinu velheppnaða lambhrútavali, sem var alveg einstakt og vitnaði um þá þjálfun og kunnáttu í fjárvali, sem þessir ungu bændur höfðu aflað sér, sennilega mest við störf í hinu unga sauðfjárræktarfélagi. Einnig mun sú áhugavakning sem fjárræktarfélagið skapaði hafa stuðlað hér að. Eftir fjárskiptin kom mikið blómaskeið í fjárræktina í sveitinni og þar var löngum mikið af álitlegasta kynbótafé héraðsins og fjárræktarfélagið starfaði með miklum blóma. Í starfi þess var mikil festa, enda voru þar sömu menn í forystu í áratugi og Sveinn í Steinsholti var formaður félagsins í full fjörutíu ár.

Haustið 1990 afhentu bræðurnir Gunnari Marteinssyni stjúpsyni Lofts Eiríkssonar fjárbúið í Steinsholti, en það sama haust var Sveini og bræðrum hans veitt heiðursskjal á aðalfundi sunnlenskra fjárræktarmanna fyrir "forystuhlutverk í fjárræktarstarfinu um margra áratuga skeið". Sveinn sem sinnti fjárræktarstarfinu mest, lagði sig mjög fram um að skapa fjárstofn, þar sem dugnaður og hreysti ásamt mikilli og góðri afurðasemi lagði grunninn í fjárræktarstarfinu.

Sveinn var ólatur að taka að sér margvísleg félagsmálastörf fyrir sveit sína, og er það hreint ótrúlegt hvað hann komst yfir að sinna þar miklum og tímafrekum störfum. Hann var þannig um áratuga skeið forðagæslumaður sveitarinnar, í stjórn búnaðarfélagsins, í hreppsnefnd í 36 ár og fyrir utan þessi sveitarstjórnarmál, þá var hann í ungmennafélaginu lengi fram eftir ævi, hann tók þátt í leikstarfsemi að minnsta kosti í fjóra áratugi, söng í kirkjukórnum lengi enda hafði hann ágæta bassarödd.

Nú að leiðarlokum finnst mér að Gnúpverjahreppur hafi misst einn af sínum bestu sonum, sem vann á langri starfsævi af öllum mætti að því að bæta hag sveitunga sinna, með óeigingjörnu ræktunarstarfi búfjárins og farsælu félagsmálastarfi. Mér finnst sjálfum að ég hafi með Sveini misst einn minn besta vin og öflugan samstarfsmann, sem ég fæ seint fullþakkað uppörvandi samstarf og trygga vináttu.

Ég votta öldruðum systkinum hans og skyldmennum og vinum innilega samúð við sviplegt fráfall Sveins, og það er huggun harmi gegn að Sveinn fór héðan með sóma og á hans vopn og verjur féll aldrei blettur.

Blessuð sé minningin um þennan góða dreng.

Hjalti Gestsson.