RÖGNVALDUR JÓNSSON OG

INGIBJÖRG JÓNSDÓTTIR

Þegar ég horfi um öxl til æskudaganna norður í Skagafirði koma skýrt fram minningarmyndir sveitunga sem greyptust fast í barnshugann. Bjart er yfir þeim mörgum, en fáar bera þó meiri birtu en mynd barnakennarans í Út-Blönduhlíð, Rögnvaldar Jónssonar í Flugumýrarhvammi. Hann kenndi mér allan minn barnaskólalærdóm. Og sú handleiðsla, sem ég hlaut hjá honum og á heimili hans þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á námsbrautinni, hefir reynst mér bæði vel og lengi. Hann var bæði framúrskarandi góður kennari og um leið mikill félagi okkar nemenda sinna. Hann skildi okkur svo vel, enda hygg ég, að okkur hafi öllum þótt innilega vænt um hann. Nú er Rögnvaldur orðinn aldinn að árum. Hann er níræður í dag. En árafjöldinn segir þó ekki allt. Að því er ég best veit er afmælisbarnið ern og ber aldurinn vel. Hann er lifandi sönnun þess sem skáldið segir:

Fögur sál er ávallt ung

undir silfurhærum.

Rögnvaldur er Skagfirðingur að langfeðgatali og á til traustra ættstofna að telja. Hann fæddist í Réttarholti í Akrahreppi. Foreldrar hans voru hjónin Jón Rögnvaldsson bóndi þar og Sólveig Halldórsdóttir frá Syðstu-Grund í sömu sveit. Rögnvaldur var einkabarn foreldra sinna. Föður sinn missti hann innan við fermingaraldur, en ólst upp í Réttarholti hjá móður sinni og munu þau að mestu leyti hafa átt samleið á meðan bæði lifðu. Sólveig var ein þessara hljóðlátu kvenna, sem geisluðu af góðleik og göfgi. Og traust voru kærleiksböndin, sem tengdu þau mæðginin alla tíð.

Rögnvaldur stundaði nám við bændaskólann á Hólum og lauk búfræðiprófi þaðan vorið 1930. Hann gekk að eiga unnustu sína, Ingibjörgu Maríu Jónsdóttur frá Flugumýri 26. maí árið 1932. Þau hófu búskap í Flugumýrarhvammi árið 1933 og þar hafa þau átt heima allt til þessa dags í farsælu hjónabandi. Þau hjónin eru fædd sama árið. Ingibjörg fyllti 9. tuginn sinn 9. júlí síðastliðinn. Hér er því um að ræða stórt og einstætt merkisár hjá þeim góðu hjónum báðum.

Barnakennslu í Út-Blönduhlíð í Akrahreppi hóf Rögnvaldur þegar árið 1934 og hafði það starf með höndum í áratugi. Lengi fór kennslan fram á heimili hans í Flugumýrarhvammi, en um skeið einnig á nokkrum öðrum bæjum í sveitinni. Flest gengum við börnin heimanað frá okkur á morgnana og öllum var hópnum kennt í sömu stofunni á sama tíma, eitthvað 10­15 börnum oftast nær, á aldrinum 9­13 ára. Öllum þurfti að sinna og í raun og veru er það alveag óskiljanlegt hvernig Rögnvaldi tókst að leysa þá þraut og það með þeim ágætum, sem raun bar vitni. Aldrei man ég eftir að hann hastaði á okkur eða setti ofan í við okkur. Þess þurfti ekki með. Auðvitað vorum við engir englar, en við bárum virðingu fyrir kennaranum okkar og okkur þótti vænt um hann. Sjálfsagt var nú talsvert skvaldur í skólastofunni stundum, en Rögnvaldur beitti valdi hinnar hlýju vináttu á þann veg, að ótrúlegur árangur náðist í kennslunni. Það er ekkert of djúpt tekið í árinni þótt staðhæft sé, að hann hafi verið kennari af Guðs náð. Oft var hann einn af okkur í frímínútum, lék sér með okkur og kenndi okkur ýmsa leiki. Hann lagði mikla áherslu á að kenna okkur lög og ljóð og láta okkur syngja. Og minnisstæð verða okkur mörgum líka vikulokin, þegar hann settist við orgelið, hóf að leika danslög og lét okkur dansa góða stund, áður en við héldum heim. Þessar stundir voru mörgum okkar mikils virði. Þær efldu sjálfstraust okkar og styrktu okkur í tjáskiptum við aðra unglinga á þeim árum, sem í hönd fóru. Þetta skildi Rögnvaldur og þannig má segja að í samskiptum sínum við æskuna hafi hann á þessum vettvangi verið á undan samtíð sinni.

Tónlistin hefir löngum átt sterk ítök í Rögnvaldi og verið hans hjartans mál. Hann gerðist ungur, árið 1927, organisti við Flugumýrar- og Miklabæjarkirkju og gegndi því starfi samfleytt í meira en hálfa öld. Eftir að hann hætti í heimasveit sinni var hann í nokkur ár organleikar í Hóladómkirkju. Í karlakórnum Heimi, sem svo oft og lengi hefir gert garðinn frægan bæði hérlendis og á erlendri grund, söng hann fram yfir áttrætt og geri aðrir betur. Í dag er hann heiðursfélagi kórsins.

Um árabil var Rögnvaldur virkur þátttakandi í félagsmálum sveitar sinnar. M.a. átti hann sæti í stjórn Ungmennafélagsins Glóðafeykis og Lestrarfélags Flugumýrarsóknar. Í tillögum þótti hann glöggskyggn og grandvar, en lipur og fylginn sér þegar til framkvæmda kom. Var því jafnan vel fyrir þeim málum séð, sem hann lagði hag og hönd að.

Það er bjart yfir heimilinu í Flugumýrarhvammi í minningu barnsins, sem þangað sótti fræðslu og lífsvísdóm í árdegi æviferðar. Þeir gimsteinar, sem þar voru gefnir, verða aldrei metnir eða þakkaðir svo sem vert væri. Þar á ekki aðeins Rögnvaldur, heldur þau bæði hjónin, bæði afmælisbörnin, hlut að máli. Þó að Ingibjörg fengist ekki við kennslu stóð hún þétt við hlið eiginmanns síns og átti áreiðanlega sinn þátt í þeirri farsæld, sem fylgdi honum í kennarastarfinu. Okkur börnunum var hún fyrirmynd í fagurri breytni. Og einn drengur a.m.k. telur sig standa í lífstíðar þakkarskuld við hana fyrir tímabær áminningarorð, töluð af hlýju og hreinskilnu móðurhjarta. Og ekki gleymist Sólveig, sem breiddi glitblæju friðar og kærleika yfir umhverfi sitt með návist sinni einni saman.

Börn þeirra hjóna eru tvö. Sólveig Norðmann, starfsstúlka í Reykjavík. Maður hennar var Ólafur Þórarinsson og eiga þau fjóra syni og tvær dætur. Jón er aðstoðarvegamálastjóri í Reykjavík. Hann er kvæntur Ásdísi Björnsdóttur og eiga þau einn son og eina dóttur.

Framanskráðar línur eiga að tjá vini mínum, fræðara og frænda, Rögnvaldi í Flugumýrarhvammi, síðbúið, en innilegt þakklæti fyrir þá traustu og góðu vegsögn til framtíðar, sem ég hlaut á skólabekk hjá honum, og sami þakkarhugurinn beinist einnig til Ingibjarga eiginkonu hans. Við hjónin sendum þeim hlýjar kveðjur, árnum þeim allra heilla á afmælisári og biðjum þeim blessunar héðan í frá sem hingað til.

Björn Jónsson.