Olgeir M. Bárðarson Okkur langar í fáeinum orðum að minnast Olla vinar okkar sem við vorum svo heppin að fá að kynnast. Hann var lifandi og skemmtileg persóna og hafði mikla frásagnargleði. Við kynntumst á Kanarí og áttum ógleymanlegar stundir, t.d. þegar við fórum til Las Palmas. Á heimleiðinni fylltist bíllinn af gufu og við urðum að stoppa á margfaldri hraðbraut. Olli brá ekki rólegheitunum og brosti sínu blíðasta, eins og vanalega, snaraði sér út úr bílnum og lék hlutverk umferðarlögregluþjóns eins og hann hefði ekki gert annað!

Við gleymum heldur aldrei Olla síðasta vetur á Kanarí, hann í stuttbuxum, sandölum og íslensku ullarsokkunum sínum, alltaf hlæjandi, til í spjall og góð ráð og tilbúinn að greiða götu allra. Við minnumst Olla vinar með þakklæti og virðingu og okkur finnst við ríkari á eftir.

Elsku Gunnhildur, börn, barnabörn og aðrir aðstandendur; við vottum ykkur innilega samúð og biðjum góðan guð að styrkja ykkur. Við geymum minningu um góðan vin og félaga.

Guðbjörg (Bubbý) og Örvar.