5. september 1998 | Menningarblað/Lesbók | 954 orð

RABB

VOPNIÐ SEM SNERIST Í HÖNDUM BISKUPS

VIÐ SEM lifum á öld fjarskipta og fjölmiðlunar upplifum heiminn sem stöðugt ferli áróðurs og innrætingar. Fyrir þá sem þurfa að koma málstað sínum á framfæri er grundvallaratriði að hafa aðgang að fjölmiðlum. Þar er sannleikurinn mótaður líkt og myndverk þar sem hver og einn getur valið sér það sjónarhorn sem hann vill. Prentverkið breytti heiminum.
RABB

VOPNIÐ SEM

SNERIST Í HÖNDUM

BISKUPS

VIÐ SEM lifum á öld fjar skipta og fjölmiðlunar upplifum heiminn sem stöðugt ferli áróðurs og innrætingar. Fyrir þá sem þurfa að koma málstað sínum á framfæri er grundvallaratriði að hafa aðgang að fjölmiðlum. Þar er sannleikurinn mótaður líkt og myndverk þar sem hver og einn getur valið sér það sjónarhorn sem hann vill. Prentverkið breytti heiminum. Auðug stofnun, eins og katólska kirkjan, var fljót að nýta sér þá möguleika sem fólust í hinni nýju tækni. Jón Arason Hólabiskup lét flytja hingað bæði prentverk og prentara snemma á 16. öld og var prentun á Íslandi næstu aldir einokuð af kirkjunni og fyrst og fremst nýtt til prentunar trúarlegra rita. Eftir siðaskiptin þurfti að ganga skipulega til verks við að útrýma hinum katólska hugsunarhætti, sem Jón Halldórsson prestur í Hítardal kallar í Biskupasögum sínum: "Hið gamla súrdeig pápískrar villu". Til þess var prentverkið ómetanlegt hjálpartæki. Hinir fyrstu biskupar siðaskiptanna á Íslandi litu reyndar á katólikka sem hverja aðra villutrúarmenn og lögðu að jöfnu við áhangendur Múhameðs. Þeim hefði aldrei komið til hugar að minnast innleiðingar katólskrar trúar á Íslandi með hátíðarhöldum. Guðbrandur Þorláksson, sem varð biskup á Hólum árið 1571, lagði gífurlegan metnað í útgáfustarfsemi og hann átti stærstan þátt í því að festa lútherskar trúarhugmyndir í sessi meðal almennings. Guðbrandsbiblía þykir gimsteinn bæði hvað varðar frágang og málfar. Þorlákur Skúlason, dóttursonur Guðbrands, sem tók við biskupsdómi að honum látnum, taldi af einhverri ástæðu þörf á nýrri þýðingu biblíunnar og þýddi sjálfur. Þessi þýðing þótti langtum lakari en Guðbrands enda kemst Jón Halldórsson svo að orði: "Og svo sem flestum mun ei falla svo létt, án sérlegs athuga, að útfleygja úr dönsku á íslenzku, svo engan keim dragi af dönskum vegna skyldsemi þessara tungumála, svo fram koma og í þessari biblíuútleggingu nokkrir danismi eða dönsk orð, ­" Veraldleg staða kirkjunnar gjörbreyttist við siðaskiptin. Í katólskri tíð voru biskuparnir nánast kóngar í ríki sínu og gátu ráðið því sem þeir vildu. Eftir siðaskiptin áttu þeir aftur á móti mjög undir högg að sækja lenti þeim saman við veraldlega höfðingja, sem nú áttu bakhjarl í öflugra konungsvaldi. Jón Sigmundsson, móðurafi Guðbrands, varð eitt af fórnarlömbum ofurvalds hinnar katólsku kirkju og tapaði til hennar nánast öllum sínum miklu eignum. Jón var mjög áberandi maður á sinni tíð, sýslumaður um tíma og lögmaður norðan og vestan 1509- 1518. Hann lenti í hatrömmum deilum við Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, sem lét dæma hjónaband hans og Bjargar, konu hans, ógilt vegna fjórmenningsmeinbuga en fólki, sem skylt var í fjórða lið, leyfðist ekki að ganga í hjónaband á þeim tíma. Einhver vafi lék á um þennan skyldleika og Jón neitaði að yfirgefa konu og börn. Um 1590 hóf Guðbrandur tilraun til þess að endurheimta jarðir afa síns, sem á þeim langa tíma sem liðinn var, höfðu sumar gengið kaupum og sölum. Hvort hér var á ferðinni ágirnd eða sterk réttlætiskennd Guðbrands skal ekki dæmt um en Guðbrandur þótti duglegur við að ásælast jarðaeignir bæði kirkjunnar vegna og sjálfs sín: "Hans þrálegu jarðaklaganir og lagaþrætur öfluðu honum óvildar og ámælis hjá mörgum," segir Jón Halldórsson. Málaferli þessi stóðu með löngum hléum í yfir þrjátíu ár og urðu biskupi andstæð. Til þess að kynna málstað sinn greip Guðbrandur til þeirrar nútímalegu aðferðar að beita prenttækninni í því skyni að koma persónulegum málstað sínum á framfæri. Þetta eru hinir svokölluðu Morðbréfabæklingar, sem urðu alls þrír og komu út með nokkurra ára millibili. Í þessum bæklingum reifar biskup sína hlið málsins og kveður fast að orði um andstæðinga sína, sem höfðu komið fram með vægast sagt ótrúlegar ásakanir á hendur Jóni Sigmundssyni. M.a. átti hann að hafa drekkt sínu eigin barni í soðkatli, drepið bróður sinn og drekkt stjúpbarni sínu í Gljúfurá. Af bæklingunum má ráða að Guðbrandur hefur lagt í mikla rannsóknarvinnu til að sýna fram á að skjöl þau sem andstæðingarnir lögðu fram væru fölsuð, en skjalafals var algeng iðja á miðöldum. Í þessu skyni skoðaði hann um 500 bréf Hólastóls frá biskupstíð Gottskálks og gat sýnt fram á ýmsa formgalla á þeim skjölum sem lögð höfðu verið fram í dómum m.a. að dagsetningar með mánaðardögum hafi ekki verið komnar til sögunnar í tíð Gottskálks, heldur alltaf miðað við messudaga, hátíðir o.s.frv. Var þá nefndur dagur fyrir og eftir. Einnig bendir Guðbrandur á að í hinum meintu falsbréfum sé talað um salinn á Hólum, en sá salur hafi ekki verið byggður fyrr en í tíð Jóns Arasonar: "nema þeir meini náðhúsið niður hjá stóru baðstofu ­ slíkt herbergi þykir mér vel hæfa slíku bréfi og þeim, sem það logið hafa". Einnig hafi bæði Jón Sigmundsson og Gottskálk biskup verið dauðir þegar sum bréfanna eru dagsett. Sum skjölin beri það með sér að hafa verið meðhöndluð og skafin upp að hluta og skrifað ofan í með nýju bleki, önnur hengd upp í reyk til að sýnast gömul. Guðbrandur er ómyrkur í máli bæði um andstæðinga sína og Gottskálk biskup: "­ hann hélt sína biskupsreglu eptir lögum heilagrar kirkju í þann tíma með saurlífi og þremur opinberum barneignum. Hvar út af opinbert er, að hann sjálfur var í stærsta pávans banni fyrir sitt hórerí ­" Þótt konungur hafi tekið Jón Sigmundsson í sitt beskermelsi og veitt honum konunglegt verndarbréf segir Guðbrandur það í engu hafa heft Gottskálk biskup, sem líkt og margir biskupar í katólskri tíð, lét sem kóngurinn kæmi honum ekki við. Eftir siðaskiptin höfðu valdapólarnir víxlast svo rækilega hinum veraldlegu yfirvöldum í hag að Guðbrandur hafði ekki annað upp úr bæklingum sínum en málssókn fyrir meiðyrði og öll þessi málaferði urðu honum einungis til mæðu og enduðu með ósigri biskups. Þannig lauk fyrstu tilraun til þess að beita prentlistinni til að móta almenningsálitið á Íslandi á hinu veraldlega sviði. Eftir stendur ómetanleg heimild um hugmyndir og hugarheim horfinnar kynslóðar. ÁRNI ARNARSON

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.