6. september 1998 | Minningargreinar | 993 orð

Sigríður Ragnarsdóttir

Sigríður Ragnarsdóttir Sigríður Ragnarsdóttir var á margan hátt sérstök kona. Hún var mikill persónuleiki, hert af erfiðum kjörum og lífsbaráttu. Ægifagurt, hrikalegt og stórbrotið landslag Vestfjarða mótaði hana og hafði sterk áhrif eins og á alla, sem dveljast um lengri eða skemmri tíma í Lokinhamradal undir snarbröttum og háum fjöllum við þungan nið úthafsöldunnar. Fyrr á öldinni voru um og yfir 300 manns í Auðkúluhreppi, sem náði yfir allan norðanverðan Arnarfjörð suður til Geirþjófsfjarðar. Sigríður mátti muna tímana tvenna í dalnum, frá því sem áður var, þegar þar voru 30 til 40 manns heimilisfastir og nærri 50­60, þegar vermenn voru til vers í verbúðum í Grísavík, innan við Hrafnabjörg, og svo hin síðustu ár, þegar aðeins voru tveir ábúendur í Lokinhamradal, sitt hvorum megin árinnar. En Sigríður undi vel lífi einbúans og var þessu útnesjalífi samgróin. Hún var ásamt Guðmundi bróður sínum alla tíð lífið og sálin í búrekstri foreldra sinna. Í eðli sínu var hún náttúrubarn, sérstaklega fjárglögg og mikill dýravinur. Heimilis- og fjárhundarnir voru hennar tryggu vinir í einveru langra vetrarmánaða frá því í lok september og fram í maí. Sigríður talaði við hundana og þeir skildu hana, enda sagði hún, þegar hún varð að láta lóga hundinum Platon, er hún kvaddi dalinn sinn fjársjúk í síðasta sinn, að hún "væri hrygg yfir að slökkva fögru augun hans". Sauðfé mátti aldrei kalla annað en kindur eða ær og "blessaðar skepnurnar". Á veturna er oftast aðeins fært af sjó í Lokinhamradal, en forvaðir eru beggja megin frá Arnarfirði og Dýrafirði. Aðdrættir eru mjög erfiðir, sérstaklega þó fyrr á árum, en vegarsamband komst fyrst á sumarið 1974 og er aðeins fært jeppum yfir hásumarið. Þarna er brimasamt og jafnvel á miðju sumri getur orðið mikið lognbrim, sem vitnar um storm í úthafinu. Á veturna gengur brimið stundum upp í grasi gróna bakka, og er kallað grasganga, en brimhljóðið er sterkt. Óvíða verður fólk jafnáþreifanlega vart við vorkomuna, hækkandi sól og líf sem fylgir sumri og gróðri og þar vestra í Lokinhamradal, en sólarlag á sumarkvöldum, þegar kvöldsólin sígur í haf eldrauð úti við hafsbrún og öll fjöll í eldskini er ólýsanlega fallegt og áhrifamikið. Sauðburðurinn í maí og júní var jafnframt tími andvöku og erfiðis, ef hörð voru vorin. Þessu lífi og náttúru unni Sigríður þegar svo sumarið kom, stundum reyndar seint um síðir, fylltist bærinn og dalurinn af ungu fólki, ættingjum og unglingum í sumardvöl. Margir þeirra dvöldu á Hrafnabjörgum í fjöldamörg sumur og reyndist Sigríður þeim sérstaklega vel. Öllum sem henni var trúað fyrir og voru í hennar umsjá kom hún til meiri þroska. Margir, sem komu að Hrafnabjörgum barnungir í tíð Kristínar og Ragnars, voru þar til fullorðinsára. Rétt er að geta hér sérstaklega Skarphéðins Garðarssonar, kennara og skólastjóra á Þingeyri, sem reyndist Sigríði hjálparhella og hægri hönd eftir að Guðmundur bróðir hennar andaðist á besta aldri og hún var orðin einyrki. Sérstaklega þökkum við Anika góðar mótttökur hvert sumar sem við komum í heimsókn, tryggð og rausnarskap við börn okkar, sem héldu mikið upp á frænku sína, dvöldu þar í mörg sumur og voru síðan tíðir gestir að Hrafnabjörgum.

Sorgin sótti Sigríði heim. Aðdáunarvert var hve vel hún bar sinn mikla missi og harm, er Hallveig, einkadóttir hennar, sem hafði nýlega lokið glæsilegu prófi sem búfræðingur frá Hvanneyri andaðist í blóma lífsins, aðeins 23 ára gömul, hinn 3. nóvember 1979. Hallveig hafði þá með aðstoð móður sinnar hafið búskap með Halldóri Lárusi Sigurðssyni í Hokinsdal, sem Sigríður keypti, en Hokinsdalur er syðsti bær í V-Ísafjarðarsýslu, á Langanesi innst í Arnarfirði og höfðu áður búið þar ættmenni Kristínar Sveinbjörnsdóttur. Andlát Hallveigar varð Sigríði mikið áfall og högg og sýndi hún minningu hennar mikla ástúð og virðingu. Í kyrrþey gaf hún til minningar um Hallveigu stórgjöf til stuðnings samtökum krabbameinsveikra barna, sem ég leyfi mér að geta í kveðjuorðum við útför hennar. Safnanir til bágstaddra og þeirra sem höfðu orðið fyrir áföllum eins og gerðist í snjóflóðunum miklu og öll líknarmál studdi hún af rausnarskap. Sigríður Ragnarsdóttir var skarpgreind kona, mjög sjálfstæð í eðli sínu og stjórnsöm. Hún gerði kröfur, en fyrst og fremst til sjálfrar sín, ekki til lífsins gæða, en hún vildi að fólk stæði fyrir sínu, héldi gefin loforð og æðraðist ekki. Á yngri árum las hún mikið og kunni ógrynni af rímum, sem hún kvað, þegar hún sat við rokkinn og spann; sátu þá yngri systkinin í kring og lærðu af vörum hennar rímur og kvæði þjóðskáldanna. Á síðustu árum hafði hún mikinn áhuga á íslensku máli, talaði sjálf kjarnyrta íslensku eins og margt fólk til sveita hér fyrrum og blöskraði stundum ambögur og erlend áhrif á tunguna. Hún var Íslendingur umfram annað, þó að ekki væri þar orð um haft. Miklum og merkum kafla er nú lokið í sögu Auðkúluhrepps hins forna. Enn býr Sigurjón Jónasson bóndi á Aðalbóli í Lokinhamradal, sem á síðari árum hefur verið nefnt Lokinhamrar, enda situr hann hálfa Lokinhamrajörðina, sem hann átti á móti Sigríði. Gott var á milli þeirra grannanna og þótti þeim mikið öryggi að vita hvort af öðru í dimmum vetrarhríðum. Búskap er, a.m.k. í bili, lokið að Hrafnabjörgum, en þetta fagra og sterka umhverfi er slíkt að þangað munu ættingjar Sigríðar, afkomendur Kristínar og Ragnars bónda, fara og njóta mikillar náttúru. þá mun minningin um Sigríði, síðasta ábúanda á Hrafnabjörgum á þessari öld, Guðmund bróður hennar, Ragnar bónda og Kristínu húsfreyju, sem þarna bjuggu rausnarbúi, verða sterk í hugum okkar allra. Ég þakka Sigríði, mágkonu minni, allt gott frá því ég mætti henni fyrst fyrir um 40 árum. Aldrei bar þar skugga á. Síðastliðin tvö ár voru henni erfið, þó að barist væri á meðan stætt var. Hún trúði einlæglega á líf að loknu þessu. Megi sú heita trú hennar rætast og mun hún þá á ströndu æðri heima mæta elskaðri dóttur, sem hún syrgði ætíð og saknaði svo sárt, ásamt hópi vina og ættingja. Veri hún Guði falin og blessuð sé minning mætrar konu. Þegar Sigríður Ragnarsdóttir kvaddi þennan heim féll þar eikin stælta.

Guðjón Ármann Eyjólfsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.