17. september 1998 | Innlendar fréttir | 770 orð

Fjórir þingmenn stofna Þingflokk óháðra

Í BRÉFI til forseta Alþingis í gær segja fjórmenningarnir að þessi ákvörðun tengist breyttum aðstæðum í íslenskum stjórnmálum, þar sem þeir flokkar sem þeir hafi boðið sig fram fyrir eða í samstarfi við, hafi nú horfið frá því að efna til framboðs í eigin nafni og á grundvelli eigin stefnu í komandi alþingiskosningum.
Fjórir þingmenn stofna Þingflokk óháðraÞingflokkur óháðra var stofnaður í gær af þremur fyrrverandi þingmönnum Alþýðubandalagsins og óháðra og einum þingmanni sem kjörinn var á þing fyrir hönd Kvennalista í síðustu alþingiskosningum.

Í BRÉFI til forseta Alþingis í gær segja fjórmenningarnir að þessi ákvörðun tengist breyttum aðstæðum í íslenskum stjórnmálum, þar sem þeir flokkar sem þeir hafi boðið sig fram fyrir eða í samstarfi við, hafi nú horfið frá því að efna til framboðs í eigin nafni og á grundvelli eigin stefnu í komandi alþingiskosningum. Þingmennirnir hafi því ákveðið að starfa saman í þingflokki og sé þessi ákvörðun tekin í samráði við varamenn þeirra.

Þeir þingmenn sem um ræðir eru Hjörleifur Guttormsson, 4. þingmaður Austurlands, Kristín Ástgeirsdóttir, 14. þingmaður Reykjavíkur, Steingrímur J. Sigfússon, 4. þingmaður Norðurlands eystra, og Ögmundur Jónasson, 17. þingmaður Reykjavíkur. Auk þeirra voru á stofnfundinum í gær Guðrún Helgadóttir, varaþingmaður í Reykjavík, Þuríður Backman, varaþingmaður á Austurlandi, Árni Steinar Jóhannsson, varaþingmaður í Norðurlandi eystra, og Svanhildur Kaaber, varaþingmaður í Reykjavík.

Þingflokkurinn hefur ekki skipt með sér verkum, en það verður gert innan tíðar. Hjörleifur Guttormsson stýrði fundinum í gær sem aldursforseti hópsins. Hann sagði að á stofnfundinum hefði verið farið yfir þau mál sem augljóslega væru framundan hjá þingflokki í stjórnarandstöðu, eins og skipan í nefndir og annað slíkt, sem ganga þyrfti frá áður en til þings kæmi innan hálfs mánaðar, í samvinnu við aðra flokka í stjórnarandstöðu. Þá hefði einnig verið farið yfir efni sem tengdust þingmálum og undirbúningi þingstarfa. "Við erum mjög bjartsýn með starfið framundan í þessum nýja þingflokki og væntum þess að við látum nokkuð að okkur kveða á komandi þingi," sagði Hjörleifur við þetta tækifæri.

Ákvörðun um framboð óháð stofnun þingflokksins

Aðspurður hvort í þessari ákvörðun um stofnun þingflokksins fælist ákvörðun um samstarf að framboðsmálum fyrir Alþingiskosningarnar í vor, sagði Steingrímur J. Sigfússon að ákvörðun þar að lútandi væri algjörlega óháð stofnun þingflokksins. Stofnun hans lyti að skipulagningu starfa í þinginu, en það væri sjálfstætt mál hvers og eins hvað hann gerði varðandi þær hræringar sem væru í stjórnmálum út í þjóðfélaginu og því hverjir yrðu með í væntanlegri stofnun nýrrar hreyfingar, vinstri hreyfingar.

Steingrímur sagði að þingflokkarnir væru mjög mikilvæg grunneining í öllu starfi og skipulagi þingsins og það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt mál að hópur þingmanna, sem væru eins settir, skipulegði sín störf saman. "Það fylgja þessu ekki neinar skuldbindingar um þátttöku í neinu öðru. Hitt er svo annað mál að við teljum okkur munu eiga auðvelt með að ná saman um allt sem snýr að störfunum hér og höfum auðvitað farið vel yfir það. Við erum allt þingmenn í stjórnarandstöðu og þar af leiðandi sömu megin meginvíglínunnar í stjórnmálabaráttunni sem skiptir stjórn og stjórnarandstöðu og við erum öll eins sett hvað það snertir að við höfum sagt skilið við okkar flokka. Við ætlum ekki með í þann sambræðing sem verið er að reyna að mynda og höfum þar af leiðandi sjálfstæða eða óháða stöðu í stjórnmálunum um þessar mundir, eins og nafn þingflokksins ber með sér," sagði Steingrímur.

Aðspurður hvort gera megi ráð fyrir að þingflokkurinn móti sameiginlega afstöðu til mála, sagði Steingrímur að það yrði væntanlega unnið með mjög svipuðu sniði og gert væri. Farið yrði yfir mál og þau mál rædd sem menn hygðust flytja og strengirnir stilltir saman eftir því sem við ætti. "Auðvitað eru aðstæðurnar að sumu leyti óvenjulegar, en ég hef ekki nokkrar minnstu áhyggjur af því að okkur gangi verr í þeim efnum en oft og iðulega hefur verið um þingflokka," sagði Steingrímur ennfremur.

Ekki í framboð næsta vor

Kristín Ástgeirsdóttir segist ekki vera á leið í nýjan vinstriflokk og að hún muni að öllu óbreyttu hætta á þingi í vor. "Ég er fyrst og fremst að ganga til samstarfs við þingmenn sem eru lentir í sömu stöðu og ég; að vera utan flokka. Við erum að leggja saman okkar atkvæðamagn til þess að tryggja stöðu okkar í þingnefndum og aðkomu að stjórn þingsins og þeim upplýsingum sem þingmenn þurfa nauðsynlega að fá. Ég rak mig á það sjálf í fyrra að ég var nokkuð utangátta þannig að í þeirri stöðu sem upp er komin finnst mér ástæða til þess að við nýtum okkur þessa stöðu. Við erum ekki að binda okkur á nokkurn hátt málefnalega. Við eigum eflaust samleið í ýmsum málum og öðrum ekki. Það verður bara að koma í ljós," segir Kristín.

Kristín segir aðspurð að eins og staðan sé í dag þá sjái hún ekki fram á að vera í framboði fyrir næstu þingkosningar og að mikið megi breytast til þess að svo verði.

Morgunblaðið/Ásdís MEÐLIMIR hins nýja þingflokks kynntu stofnun hans á blaðamannafundi í gær.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.