19. september 1998 | Blaðaukar | 919 orð

Tími vaxtarins er núna

TÖLVUMYNDIR eru tólf ára fyrirtæki, upphaflega stofnað til að vinna að hugbúnaði með grafískri eða myndrænni framsetningu gagna. Tveir helstu stofnendur voru þeir Friðrik Sigurðsson og Bjarni Júlíusson, en Friðrik er forstjóri fyrirtækisins í dag. 1988 hóf fyrirtækið að framleiða hugbúnað með miðils/biðils tækni og fyrsta áratuginn var aðaláhersla lögð á sérsmíði hugbúnaðar.
Tími vaxtarins er núna Tölvumyndir hafa undanfarið mótað þá stefnu að veita alla þjónustu á einum stað. Markaðs- og sölustjóri fyrirtækisins, Kári Þór Guðjónsson , segir að viðskiptavinir fyrirtækisins vilji vera með einn þjónustuaðila. TÖLVUMYNDIR eru tólf ára fyrirtæki, upphaflega stofnað til að vinna að hugbúnaði með grafískri eða myndrænni framsetningu gagna. Tveir helstu stofnendur voru þeir Friðrik Sigurðsson og Bjarni Júlíusson, en Friðrik er forstjóri fyrirtækisins í dag. 1988 hóf fyrirtækið að framleiða hugbúnað með miðils/biðils tækni og fyrsta áratuginn var aðaláhersla lögð á sérsmíði hugbúnaðar. 1992 komu TölvuMyndir sér upp sérstakri þjónustudeild og skerptu um leið skilin milli forritunar, rekstrar og viðhalds tölvukerfa. Fyrirtækið hélt síðan að mestu óbreyttum rekstri, fram til ársins 1996 þegar ákveðið var að sameina fyrirtækið hugbúnaðarfyrirtækinu Skyggni hf., en Skyggnir sérhæfði sig þá í sölu og aðlögunum á viðskiptahugbúnaðinum Navision (Fjölni) og Navision Financials. í dag selja TölvuMyndir Navision Financials viðskiptahugbúnað og margar pakkalausnir fyrir ýmsa geira atvinnulífsins. Fyrir sameininguna hafði Skyggnir yfirtekið rekstur Tölvumiðstöðvarinnar hf. og eftir sameininguna hafa fyrirtækin VSÓ-mínúta og Geysir hugbúnaður hafa runnið inn í TölvuMyndir, aukinheldur sem fyrirtækið hefur eignast hlut í Forritun ehf., Hópvinnukerfum ehf. og AKS ehf. sem gerir TölvuMyndir að einni stærstu hugbúnaðarsamstæðu landsins, en samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna innan samsteypunnar er 115. Eigendur TölvuMynda eru Burðarás og Friðrik Sigurðsson. Sex deildir TölvuMynda Kári Þór Guðjónsson, markaðs- og sölustjóri TölvuMynda segir að fyrirtækinu sé skipt upp í sex deildir. Fyrst er að telja fjármáladeild sem þjónar fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Stærsta verkefni deildarinnar er þróun á Verðbréfavog, sem Kári segir í notkun hjá stærstu verðbréfa- og fjármálafyrirtækjum landsins, en einnig annist fjármáladeild hugbúnaðarpakkana Fold, Fjármálatorg, Safnið og Þingbók. Viðskiptadeild TölvuMynda vinnur að lausnum með Navision Financials og J.D.Edwards fjárhags- og viðskiptahugbúnaðinum. Kári segir deildina leggja sérstaka áherslu á sjávarútvegsfyrirtæki með hugbúnaðarpakka sem kallast Útvegsstjóri og hefur að sögn Kára nokið sívaxandi hylli. Einnig annast Viðskiptadeildin um svonefndan Sveitarstjóra, sem ætlaður er sveitarfélögum og einnig er boðið upp á sérstakar lausnir. Sérlausnadeild vinnur að sérsmíði hugbúnaðar sem ekki fellur undir fyrrnefndar deildir og nefnir Kári Gulu línuna, Lóðsinn og sektarkerfi lögreglunnar sem dæmi um sérstök verkefni. Í takt við þá stefnu TölvuMynda að bjóða alla þjónustu á sama stað segir Kári að fyrirtækið reki öfluga rekstrar- og þjónustudeild. Sú sér um rekstur á tölvukerfum viðskiptavina, allt frá víðneti til Netsins og frá skrifstofuhugbúnaði til vélbúnaðar. TölvuMyndir eru með útibú á Akureyri með fjórum starfsmönnum og er það reyndar rekið sem sérstök deild innan fyrirtækisins. Kári segir það hafa gefið góða raun að hafa deild úti á landi og að fyrirtækið sé nú að kanna möguleika á að koma sér upp deildum víðar um land, til að mynda á Vestfjörðum. TölvuMyndir reka einnig veflausnahóp undir nafninu Skyggnir sem nýtir sér þekkingu allra deilda og sinnir heimasíðugerð fyrir fyrirtæki meðal annars. Öll þjónusta á einum stað Kári segir að TölvuMyndir hafi tekið ákvörðum um að veita alla þjónustu á einum stað enda sé það mat stjórnenda þess að fyrirtæki séu að leita eftir því að hafa sem fæsta birgja. Áður fyrr hafi menn keypt besta hugbúnað í hverjum pakka, besta bókhaldsforritið, besta launakerfið og þar fram eftir götunum, en í dag horfi þau til svonefndra ERP-kerfa, eða heildarstjórnkerfa. "Við teljum að þessi þróun eigi eftir að fara lengra, þ.e. að ekki vilji menn bara vera með eitt kerfi heldur vilji þeir líka vera með einn þjónustuaðila. Þannig höfum við smám saman bætt við framboð okkar af þjónustu. Við bjóðum til dæmis Nettengingar og veflausnir, erum einnig að hasla okkur völl í þjónustu við Lotus Notes notendur og erum líka mjög sterkir í þjónustu við AS/400, enda sjáum við það ekki gerast á næstunni að menn hætti að nota AS/400. Það kom til að mynda fram á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins fyrir stuttu að AS/400 er að bæta við sig þó það sé ekki í sama mæli og Windows NT. Stórfyrirtæki sem treysta mjög á gagnaöryggi og uppitíma skipta til að mynda seint úr AS/400 yfir í NT." Kári segir að þróunin á íslenskum tölvumarkaði sé greinileg samþjöppun fyrirtækja og þau eigi eflaust fleiri að fara sömu leið í að veita alhliða þjónustu. "Þetta kallar vitanlega á það að fyrirtæki sé mjög vakandi fyrir því sem er að gerast á markaðnum, verði á undan viðskiptipavininum að sjá hvað er í aðsigi," segir Kári og bætir við að einnig verði menn að vera með skýran fókus á geira innan upplýsingaiðnaðarins. "Við erum til að mynda að bjóða allt til alls fyrir sjávarútveginn og bjóðum til dæmis Útvegsstjórann, þar sem tekið er á öllu því sem lýtur að útvegi og fiskvinnslu, framleiðsluferlum, uppgjörum við sölusamtök, veðsetningum og afurðalánum, gæðamálum, þrifum og viðhaldi, kvörtunum og starfsmannamálum og svo mætti telja. Annað heildarstjórnunarkerfi sem okkur hefur gengið vel að selja og þróa er Sveitarstjóri, sem er sérhönnuð lausn fyrir sveitarfélög í Navision Financials upplýsingakerfinu. Sveitarstjóri samanstendur af sjö sérstæðum kerfum, sem saman mynda eina heild. Þetta þýðir að tengja má upplýsingar úr einu kerfi við upplýsingar í öðru og þannig að laga upplýsingar eftir þörfum hvers og eins. Þannig höfum við leitast við að búa til heildarstjórnunarkerfi fyrir geirana og síðan boðið heildarlausnir í þjónustunni." Kári segir að fyrirtækið stækki jafnt og þétt og vanti til að mynda fólk til starfa í öllum deildum. "Tími vaxtarins er núna. Við erum í þannig umhverfi að engin leið er að segja hvað sé framundan og við vitum ekkert hvernig tölvuumhverfið verður eftir tvö ár. Við teljum það lykilatriði að staðsetja fyrirtækið rétt, treysta starfsgrundvöll sem mest við megum og geta þannig haldið áfrma að stækka og dafna á næstu árum."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.