Alma Tynes Það var sl. sunnudag að síminn hringdi. Í símanum var Ragnar Páll frændi minn og tjáði hann mér að móðir hans hefði orðið bráðkvödd um morguninn. Í amstri dagsins setti mig hljóða, ekki Alma frænka ­ og af hverju ekki? Hún var orðin 81 árs og orðin frísk og hress eftir veikindi frá liðnu vori. Af hverju núna og af hverju er það svona sárt? Það læðast í huga mér sárindi sem ég get rakið til sjálfrar mín. Af hverju hringdi ég ekki oftar og af hverju kom ég ekki oftar? Nú verður engu breytt, það er allt búið ­ eða er ferðin mikla að hefjast? Alma frænka var fædd á Siglufirði 18. febr. 1917. Elín amma eignaðist hana með norskum manni, Carli Tynes. Amma giftist síðan afa mínum, Páli Guðmundssyni, og eignuðust þau tvö börn, móður mína, Rögnu, og dreng sem dó á fjórða ári. Páll afi gekk Ölmu í föður stað og hugsaði ávallt um hana sem sína dóttur. Til marks um það vissi ég ekki að þær mamma væru hálfsystur fyrr en ég var orðin fullorðin. Fjölskylda mín í móðurætt var því ekki mjög stór í þá daga, ég var einbirni til þrettán ára aldurs en þá kom bróðir minn í heiminn, Þórður Gunnar, svo fjölskyldan á Bíldudal var mér mjög mikilvæg. Til Bíldudals fluttu Alma og Einar Th. Guðmundsson sem var læknir, mikill sómamaður, hjartahlýr mjög og skemmtilegur umfram allt. Þau eignuðust sex börn og á þeim tíma fannst mér, einbirninu, eins og um heilan skólabekk væri að ræða. Ég hlakkaði ávallt mikið til þegar við fórum vestur á Bíldudal, þar var líf og fjör, mörg börn, Alma í eldhúsinu að elda eða baka og Einar að sinna sjúklingunum. Alma frænka var fyrst og fremst móðir og mikil húsfreyja. Hún vann heima og hlúði að sínu og undir hennar verndarvæng tróð ég mér og hélt fast. Þetta var á þeim tíma þegar mæður voru húsmæður, ekki eins og í dag, "bara húsmóðir". Við Alma náðum alltaf mjög góðu sambandi hvor við aðra, hún var mér ekki aðeins móðursystir heldur líka vinkona. Hún hvatti mig til dáða, hún lagði smyrsl á sárin og börnum mínum var hún sem amma. Hjá Ölmu dvaldi ég þegar ég stundaði nám í nuddi, þá var hún orðin ekkja og bjó ein á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar, einu mesta umferðarhorni Reykjavíkur. En innan dyra var hlýja, ylur og friður og hún var alltaf til taks. Þetta var skemmtilegur vetur ­ en öðruvísi vetur, ég ein fyrir sunnan en Bjarki og börnin fyrir norðan. "Elín, þú heldur þínu striki," sagði Alma. Hún hjálpaði mér og reyndist búa yfir gagnlegum fróðleik í sambandi við nám mitt, enda gift lækni, átti son sem var læknir og dóttur sem var hjúkrunarfræðingur. En fyrst og fremst kom hennar eigin reynsla og lífsmat mér mest til góða og af því miðlaði hún mér af örlæti sínu. Hún minnti mig ávallt á Elínu ömmu og það líf sem ég átti hjá afa og ömmu í gamla húsinu á Sigló, ömmu sitjandi við gömlu kolavélina en nýja Rafha-eldavélin stóð ónotuð hinum megin, því það var einhver nýjung sem amma kunni ekki að meta, Ragnar Páll að teikna á móðuna á gluggunum, afi að fara í pakkhúsið, kisurnar að leika sér á gólfinu, Kobbi mall og Jói sovét í kaffi. Á þeim tíma skiptu mínútur ekki máli.

Nú er allt breytt og við stjórnumst af hringiðu hraða og lífsgæðakapphlaups en þegar tíminn stoppar og hugurinn hverfur aftur í tímann mun minningin um þig, elsku Alma, marka djúp spor hjartahlýju og visku og þú verður í sama sessi og Elín amma og Páll afi voru mér, sem bjarg sem alltaf stóð upp úr þó á móti blési.

Elsku frændsystkin, Guðmundur Rúnar, Ragnar Páll, Sverrir, Elín Guðrún, Anna Sigríður og Norma, það er komið haust en það vorar aftur.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær

og faðmi jörðina alla.Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóstið þitt fái svala.Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.) Guð blessi minningu þína, elsku Alma.

Elín Hólmfríður Haraldsdóttir.