Á DÖGUNUM kom út fimleikablað sem fylgdi Morgunblaðinu. Tilefnið var 30 ára afmæli Fimleikasambands Íslands. Í blaðinu voru fallegar myndir og áhugaverðar frásagnir af fimleikum og fimleikafólki sem vonandi hafa náð athygli sem flestra. Eftirspurnin eftir fimleikum er mikil og það eru sannarlega gleðitíðindi hversu margir leggja stund á þessa íþrótt.
Fimleikar og átröskun

Aðstæðurnar, segir Margrét Sigmarsdóttir , koma átröskuninni af stað.

Á DÖGUNUM kom út fimleikablað sem fylgdi Morgunblaðinu. Tilefnið var 30 ára afmæli Fimleikasambands Íslands. Í blaðinu voru fallegar myndir og áhugaverðar frásagnir af fimleikum og fimleikafólki sem vonandi hafa náð athygli sem flestra. Eftirspurnin eftir fimleikum er mikil og það eru sannarlega gleðitíðindi hversu margir leggja stund á þessa íþrótt. Það eru þó alltaf ákveðnir þættir sem þarf að huga sérstaklega að og þessi grein er skrifuð til að varpa ljósi á tengsl átröskunar og fimleika. Átröskun er einn þeirra þátta sem gefa þarf sérstakan gaum í tengslum við fimleika og aðrar íþróttir þar sem líkamsvöxtur hefur áhrif á frammistöðu.

Átröskun kemur fram í mismunandi myndum en tala má um þrjá meginflokka; lystarstol (anorexía), lotugræðgi (búlimía) og offitu. Þar að auki er um að ræða "létta átröskun" þegar hegðun einstaklingsins hefur ákveðin einkenni hinna flokkanna en þó ekki nægjanlega mikil til að uppfylla greiningarskilyrði þeirra. Einstaklingar sem þjást af lystarstoli eða lotugræðgi leitast við að grennast og hafa brenglaða líkamsímynd. "Anorexían" forðast fæðu en "búlimían" borðar í törnum og losar sig við fæðuna aftur með uppköstum eða með öðrum leiðum. Þess ber að geta að átröskun er alvarlegt vandamál og getur valdið dauða, beint eða óbeint.

Til eru margar rannsóknir á tíðni átröskunar, sem og skýringar fræðimanna á orsökum. T.d. má nefna að í Noregi er tíðni átröskunar meðal almennings 8,7%. Vandkvæði af þessum toga eru sérlega algeng meðal fimleikafólks og annars íþróttafólks þar sem líkamsvöxtur skiptir afgerandi máli. Fyrir tveimur árum gerði greinarhöfundur rannsókn á 200 íslenskum fimleikaiðkendum 12 ára og eldri. Markmiðið var að varpa ljósi á tíðni og orsakir átröskunar meðal fimleikaiðkenda. Rannsóknin sýndi 17,1% tíðni átröskunar meðal hópsins, en þess ber að geta að "léttari átröskun" var langalgengust. Það kom einnig fram að 90,2% aðspurðra höfðu líkamsvigt undir meðallagi og 45,3% töldu sig of feita.

Orsakir átröskunar má skýra út frá mörgum sjónarhornum; á líffræðlegan hátt, út frá kvennapólitík, atferlisfræðilega, út frá félagslegum þáttum, hugfræðilega, sáldýnamískt og sem fjölskylduvandkvæði. Hér er um að ræða vandkvæði, sem ómögulegt er að skýra út frá einu sjónarhorni. En hvernig stendur á því að átröskun er svona miklu algengara vandamál meðal fimleikafólks en meðal almennings? Til þess að svara þessari spurningu er nauðsynlegt að skoða félagslegar aðstæður fimleikafólksins, þ.e. hvaða þættir í umhverfi fimleikafólksins eru þess eðlis að þetta hátt hlutfall þróar með sér átröskun. Annar þáttur er áhugaverður og það er hvort persónuleiki fimleikaiðkandans sé á einhvern hátt sérlega móttækilegur fyrir átröskun.

Fræðingar á þessu sviði eru á því að félagslegar aðstæður geti ekki einar og sér valdið alvarlegri átröskun en að félagslegar aðstæður hafi áhrif, þ.e. þær geta komið vandanum af stað. Þetta eru aðstæður, sem tengjast miklu tilfinningalegu álagi, miklum kröfum um að standa sig vel eða mikilli óvissu. Ef betur er að gáð má sjá að vandkvæði einstaklingsins eiga ekki upphaf sitt í þessum aðstæðum og því má segja að aðstæðurnar komi átröskuninni af stað. Sérstök áhersla er lögð á tvo félagslega orsakaþætti, sem eru sérlega áhættusamir. Það eru annars vegar kröfurnar um það að vera grannur og hins vegar miklar kröfur um að standa sig vel. Rannsókn greinarhöfundar sýnir að miklum meirihluta (96,2%) íslensku fimleikaiðkendanna finnst þeir vera undir miklum eða töluverðum þrýstingi frá þjálfara um að vera grannur og hluti þeirra (25,0%) er þeirrar skoðunar að þjálfarinn geri mjög eða töluvert óraunhæfar kröfur til þeirra varðandi getu í fimleikum. Á grundvelli þessa má draga þá ályktun að aðstæður fimleikaiðkenda séu sérlega áhættusamar varðandi þróun átröskunar, fimleikaumhverfið er áhættuþáttur varðandi þróun þessa vanda.

Hvort persónuleiki fimleikaiðkandans er á einhvern hátt sérlega móttækilegur fyrir átröskun vil ég ekki fullyrða neitt um þar sem ekki liggja fyrir neinar rannsóknir á því svo mér sé kunnugt um. Hins vegar vil ég ítreka það sem nefnt var fyrr, að félagslegar aðstæður einar og sér geta ekki valdið alvarlegri átröskun en einungis komið alvarlegri átröskun af stað og hugsanlega einar og sér valdið "léttari átröskun". Það er því alltaf um að ræða djúpstæðan vanda þegar átröskun er annars vegar og orsakirnar geta verið samspil margra þátta.

Fimleikaþjálfarar eru mikilvægir uppalendur þeirra barna sem stunda fimleika. Ofangreind rannsókn á íslenska fimleikafólkinu sýnir að um 70% þeirra fara alltaf eða oft eftir því sem fimleikaþjálfarinn segir þeim að gera, sem sýnir mikinn mátt þjálfarans. Það er því nauðsynlegt að gerðar séu kröfur til þjálfara um menntun á sviði uppeldis- og kennslufræða, auk kunnáttu í íþróttinni, sem og að fræða fimleikaþjálfara um einkenni átröskunar, hættumerki og hverjar afleiðingarnar geta verið. Stjórnir fimleikafélaganna bera ábyrgð á því að þessum þáttum sé sinnt í fimleikafélögunum og síðast en ekki síst má undirstrika skyldur foreldra til þess að gæta barna sinna.

Fimleikar eru fögur íþrótt segir einhvers staðar. Þessu má samsinna þegar uppeldisaðstæður eru hvetjandi, styðjandi og krefjandi og í samræmi við aldur og þroska fimleikafólksins.

Höfundur er sálfræðingur og starfar á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Margrét Sigmarsdóttir