EFTIR að hún hafði hengt upp öll jakkafötin hans meðfram svefnherbergisveggnum beitti hún skærunum og klippti tvo sentimetra af hverri erm og hverri skálm. Hún skildi náttfötin eftir í skápnum. Efnisbútarnir duttu á gólfið hver á fætur öðrum.

RÚM OG

TÍMI

SMÁSAGA

EFTIR EINAR ÞÓR GUNNLAUGSSONEFTIR að hún hafði hengt upp öll jakkafötin hans meðfram svefnherbergisveggnum beitti hún skærunum og klippti tvo sentimetra af hverri erm og hverri skálm. Hún skildi náttfötin eftir í skápnum. Efnisbútarnir duttu á gólfið hver á fætur öðrum. Hún var róleg á meðan hún lauk við verkið, hraðaði sér svo niður í eldhús, skildi bútana eftir, setti skærin aftur í skúffuna, lokaði henni, sneri sér í hálfhring, horfði svipbrigðalaust í dimmt anddyrið og beið. Hann myndi koma heim, hélt hún, hann hafði engan annan stað til að fara á. Hún fór í svörtu skóna. Það hafði stytt upp. Rigningin úti hafði skilið eftir litlar tjarnir á stéttinni sem hún trítlaði yfir í áttina að bílnum. Nei, hún myndi labba, henni fannst alltaf gott að labba í myrkri. Bílstjórinn hans gjóaði til hans augum í baksýnisspeglinum. Hann var þreytulegur. Hann reiknaði ekki með að hún væri heima og gekk beina leið upp í svefnherbergi. Skórnir lentu útí horni og hann kveikti á rúmlampanum. Náttfötin héngu ein í tómum skápnum, hann virti ónýt jakkafötin vart viðlits, og tók, að honum fannst, síðasta andartakið. Hann fór í náttfötin. Honum fannst gott að vera kominn í rúmið sitt, hann leið útaf og fáeinum mínútum eftir að hann hafði slökkt ljósið var hún komin og beið við útidyrnar. "Ég elska þig," hafði hann sagt við hana í garðinum. Hún elskaði að láta hann bíða eftir svari eitt augnablik á meðan hann horfði á hana. Nú beið hún. Droparnir úr eldhúsvaskinum rufu þögnina þegar hún gekk inn. Hún herti kranann, fann á sér að hann var sofnaður, lagðist í sófann og lét þreytuna líða úr sér til morguns. Síminn hringdi en hún svaraði ekki. Aftur var hringt en hún svaraði ekki. Hún útbjó morgunmat. Hún fór upp í svefnherbergi og staðnæmdist á miðju gólfinu. Axlir hans risu og sigu hægt og þétt. Hún settist á rúmstokkinn og ætlaði kannski að strjúka honum um hárið en gætti þess að vekja hann ekki. Hún ætlaði ekki að eiga við hann. Síðan tók hún sitt til, náttkjól, "make-up" og inniskó, færði það inn í aukaherbergið sem eitt sinn átti að vera barnaherbergi, og dró fyrir. Hún ætlaði að sofa nakin, þeim hafði þótt gott að elskast þarna. Úti var sólskin, hún heyrði hvernig fuglarnir sungu en hún myndi ekki láta neitt skína inn. Hún hleypti engum inn nema lækni. Hann svaf enn á þriðja degi. Læknir þeirra gat sér til að hann væri þreyttur og gaf honum beint í æð ef hann skyldi sofa lengur. Læknirinn kvaddi og fór. Hann hreyfði sig ekki þegar hún gekk afskiptalaust inn í svefnherbergið. Andardráttur hans var stöðugur. Hún þóttist ekki sjá hann, hún þurfti bara skyrtu og leitaði með örlitlum fýlusvip. Hún fann létta skyrtu sem henni þótti gott að ryksuga í. Hún hafði ekki ryksugað lengi, hann hafði alltaf tekið eftir þegar ló safnaðist saman þótt hann minntist aldrei á það. Hann bara brosti. Hún ryksugaði stiga og gang af natni, hún var ekki áttavillt, aðeins að hugsa. Hún ætlaði ekki að láta það eftir honum að stjana við hann. Hún var viss um að hlutirnir myndu ganga einhvernveginn upp. Á nóttunum lét hún enn einsog hann væri ekki þarna, hún missti ekki af uppáhaldssjónvarpsþáttunum sínum, sápunni og "Gettu nú!". Á fimmta degi gerði hún góðan mat, borðaði ein, fletti í gegnum magasín og virti fyrir sér módelin, las í gegnum uppskriftir, garðræktarhornið, leiðara, tísku og hárklippingar. Hún skrapp upp í herbergið þeirra til að athuga eitthvað í skápnum, en ætlaði ekki að taka eftir honum þótt hún stælist til að gjóa augunum aðeins til hans. Hann var kominn með sjö daga skegg. Hún lagaði á sér hárið fyrir framan klósettspegilinn. Hún var ánægð með það. Hún rak augun í raksápuna með sítrónulyktinni. Axlir hans risu og sigu undir sænginni. Hún lagaði náttfatakragann til, strauk honum um hárið og bar sápuna mjúklega yfir skeggbroddana. Beitt rakvélarblaðið gerði raksturinn auðveldan. Hann umlaði í gegnum svefninn en svaf þó fast. Hún tók varalitinn og bar á varir hans. Hún dró rauða brosandi línu um munninn og setti tvo bletti á kinnarnar. Þá fór hún aftur inn í aukaherbergið, háttaði sig og reyndi að sofna. Hún hefði ekki átt að gera þetta, og ætlaði að láta hann vera framvegis. Kvöldið eftir fylgdist hún með spurningaþættinum en heyrði varla spurningarnar og leiddist svörin. Hún slökkti á sjónvarpinu, fór upp í aukaherbergið og lagaði gluggatjöldin, henni fannst vera rifa. Svo sofnaði hún. Tíminn beið. Á ellefta degi þvoði hún honum um hárið, klippti það og snyrti, en rakaði það svo allt af. Ber skallinn yngdi hann upp og lítið ör úr sveitinni, sem lá þvert á hnakkann, gerði hann strákslegri. Hún opnaði gluggann og ferskt loft smaug inn. Hún flýtti sér út, kom aftur inn. Hún stoppaði á miðju gólfi í örlitlum sólargeisla sem stalst inn um rifu á gluggatjöldunum. Vindurinn hlaut að hafa hreyft þau. Hún skreið upp í til hans og kraup undir sænginni. "Ég elska þig," hafði hann sagt í garðinum. Hún elskaði að láta hann bíða eitt augnablik. Nú beið hún, en hann skyldi aldrei fá að vita.