LÍKUR eru á að erfiðleikar bandaríska áhættusjóðsins, Long-Term Capital Management (LTCM) gætu haft víðtæk áhrif á efnahagskerfi víða um heim og þar á meðal hér á landi. Að sögn Más Wolfgang Mixa, sérfræðings á viðskiptastofu Sparisjóðs Hafnarfjarðar,
ÐGætum séð óbein áhrif hérlendis

LÍKUR eru á að erfiðleikar bandaríska áhættusjóðsins, Long-Term Capital Management (LTCM) gætu haft víðtæk áhrif á efnahagskerfi víða um heim og þar á meðal hér á landi.

Að sögn Más Wolfgang Mixa, sérfræðings á viðskiptastofu Sparisjóðs Hafnarfjarðar, þá er óumflýjanlegt að samdráttaráhrifa af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir gæti í ólíkum hagkerfum enda hafa margir alþjóðlegir fjárfestar og stærri bankar lagt umtalsverðar fjárhæðir í LTCM: "Í fljótu bragði er kannski erfitt að tala um bein áhrif þessa ástands á íslensk fyrirtæki eða fjármálamarkaði hér á landi almennt. Málum er einfaldlega þannig háttað í dag að hagsveiflur erlendis, hvort sem þær eru upp á við eða öfugt, skila sér í efnahagsþróun einstakra ríkja. Þar nægir að benda á þau áhrif sem samdráttur á erlendum skinniðnaðarmörkuðum hefur haft á greinina hér á landi".

Vöntun á áhættudreifingu

Már segir það með ólíkindum hvernig sjóðurinn hefur varið fjármagni sínu í kaup á áhættusömum skuldabréfum m.a. í S-Ameríku og Rússlandi, að því er virðist án nægilegrar áhættudreifingar: "Það sem sjóðurinn hefur verið að gera síðastliðin fjögur ár, er m.a. að fá lán í bandarískum ríkisskuldabréfum (short position) og fjárfesta í áhættumeiri bréfum m.a. í S-Ameríku og Rússlandi. Þessar ráðstafanir gengu vel á meðan vaxtamunurinn var þeim hagstæður en undanfarna mánuði hafa þessir markaðir því sem næst hrunið. Það á ekki bara við um hlutabréfamarkaði landanna heldur efnahaginn almennt. Einna verst er þó ástandið í gengi hávaxtabréfa. Afleiðingin er sú að peningaflæðið leitar til Bandaríkjanna og krafa bréfanna í Rússlandi hækkar á meðan krafan í bandarísku ríkisbréfunum lækkar. Niðurstaðan er tap í báðar áttir. Bréfin í Rússlandi falla í verði á sama tíma og LTCM þarf að greiða til baka lántökur heimafyrir á bréfum sem hafa hækkað í verði".

Már segir útlit fyrir að lánshæfni þeirra banka sem hafa fjárfest mikið í TLCM muni lækka í kjölfar ástandsins. Slíkt hefði augljóslega í för með sér neikvæð áhrif á fjármagnsmarkaði almennt og væri tvímælalaust vísbending um óbein áhrif þeirra erfiðleika sem bandaríska fyrirtækið á við að etja, bæði hér á landi sem annars staðar.