JAMES Rubin, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að Bandaríkin myndu ekki láta andstöðu Rússa gegn hernaðaríhlutun Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Kosovo stöðva sig ef engin önnur leið er fær til að stöðva kúgunaraðgerðir Serba í héraðinu.
Fundir Richars Holbrookes með Milosevic, forseta Júgóslavíu, árangurslausir Auknar líkur taldar á

hernaðaríhlutun NATO

Rússar segjast ætla að beita neitunarvaldi í öryggisráði SÞ

Jerúsalem, Pristina, Washington, Moskvu. Reuters.

JAMES Rubin, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að Bandaríkin myndu ekki láta andstöðu Rússa gegn hernaðaríhlutun Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Kosovo stöðva sig ef engin önnur leið er fær til að stöðva kúgunaraðgerðir Serba í héraðinu. Sagðist hann telja æ líklegra að NATO ákvæði að beita hernaðaríhlutun og ítrekaði Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, einnig í gær að taki Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, sambandsríkis Serbíu og Svartfjallalands, ekki sönsum muni koma til loftárása.

Nokkur andstaða er þó við fyrirhugaðar árásir og telja Rússar að NATO þurfi samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að geta látið til skarar skríða, en þau skilaboð bárust frá Moskvu í gærmorgun að rússnesk stjórnvöld myndu beita neitunarvaldi í öryggisráðinu og hið sama hyggjast kínversk stjórnvöld gera. Varaði Borís Jeltsín, forseti Rússlands, við því að valdbeiting NATO gæti haft "alvarlegar afleiðingar á alþjóðavettvangi".

Bandaríkjamenn gáfu hins vegar til kynna að NATO myndi hugsanlega hefja loftárásir jafnvel þótt öryggisráð SÞ gæfi ekki grænt ljós á aðgerðirnar. Ræddust þeir Bill Clinton og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, við símleiðis í gær og urðu sammála um að beita yrði valdi ef nauðsyn krefði. "Niðurstaðan veltur algerlega á Slobodan Milosevic," sagði talsmaður Blairs.

Varaði Jacques Chirac, forseti Frakklands, Milosevic einnig við því að íhlutun NATO væri óumflýjanleg hættu Serbar ekki aðgerðum sínum í Kosovo. Verða hafnar viðræður um það í dag í höfuðstöðvum NATO hvort beita eigi hernaðaríhlutun.

Holbrooke á faraldsfæti

Richard Holbrooke, samningamaður Bandaríkjastjórnar, hitti Milosevic öðru sinni í gærkvöldi á tveimur dögum og gerði úrslitatilraun til að telja Milosevic á að binda enda á kúgunaraðgerðir Serba í Kosovo.

Eftir árangurslausan fund með Milosevic á mánudagskvöld, þar sem Milosevic sakaði NATO um að undirbúa "glæpsamlegt athæfi", fór Holbrooke í gærmorgun til Pristina, höfuðborgar Kosovo, og átti þar fund með fulltrúum Vesturveldanna sem haft hafa eftirlit með ástandinu í Kosovo og framferði serbneskra hersveita þar. Létu eftirlitsmennirnir Holbrooke í té "óhugnanlegar upplýsingar" um framferði serbneskra lögreglumanna í Kosovo og slæman aðbúnað flóttamanna frá Kosovo, sem Serbar gerðu ómögulegt að snúa aftur til síns heima. Hitti Holbrooke einnig Ibrahim Rugova, leiðtoga Kosovo-Albana.

Reuters

RICHARD Holbrooke, samningamaður Bandaríkjastjórnar, var á ferð og flugi í gær en æ líklegra er nú talið að NATO hefji hernaðaríhlutun í Kosovo.