Í NÝRRI spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í efnahagsmálum frá því í síðustu viku hafa fyrri spár verið endurmetnar og eru áhrif efnahagskreppunnar í Asíu og Rússlandi metnar meiri og víðtækari en áður. Þar kemur fram að hagvöxtur iðnríkja sé nú metinn 1,9% eða 0,3% lægri en í fyrri spám. Hagvöxtur á Íslandi er ráðgerður 4,6% á næsta ári.
Morgunkorn FBA segir hagvöxt hugsanlega ofmetinn

Þjóðhagsspá ekki

endurskoðuð

Í NÝRRI spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í efnahagsmálum frá því í síðustu viku hafa fyrri spár verið endurmetnar og eru áhrif efnahagskreppunnar í Asíu og Rússlandi metnar meiri og víðtækari en áður. Þar kemur fram að hagvöxtur iðnríkja sé nú metinn 1,9% eða 0,3% lægri en í fyrri spám. Hagvöxtur á Íslandi er ráðgerður 4,6% á næsta ári.

Vakin er athygli á þessari nýju spá í Morgunkorni, fréttabréfi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í fyrradag. Þar er tilgreint enn fremur að hagvaxtarspár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi önnur þróuð efnahagsríki séu nú 2,3% eða 1,3% lægri en sjóðurinn spáði í maí. Í framhaldi af þessum fréttum segir svo: "Af ofansögðu er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort hagvöxtur á Íslandi á næsta ári sé einfaldlega ekki ofmetinn og þar með tekjuafgangur ríkisins."

Áhætta bendir til lakari niðurstöðu

Í ritinu Gjaldeyrismál, sem Ráðgjöf og efnahagsspár gefa út, segir að áhættuþættir í þjóðhagsáætlun séu fremur í átt til lakari niðurstöðu en betri og að það eigi ekki síst við um verðþróun sjávarafurða í ljósi hræringa á erlendum markaði. "Þá gætir bjartsýni í forsendum um fiskafla auk þess sem neysla gæti aukist meira en spáð var," segir í Gjaldeyrismálum. Yngvi Harðarson ritstjóri segir að hlutirnir hafi verið að gerast hratt í efnahagsmálum heimsins að undanförnu. "Okkar spá myndi ekki vera þetta bjartsýn en ég er þó ekki tilbúinn að gefa út spá strax," segir Yngvi. Hann benti á að í umfjöllun um þjóðhagsspána segði að allir áhættuþættir í efnahagsmálum heimsins virtust leggjast á eitt um að dekkja myndina. "Þess vegna finnst mér of lítið gert úr þessu í framhaldinu í umfjölluninni."

Þjóðhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir 4,6% hagvexti. Forsendur þess eru meðal annars 5% aukning á einkaneyslu, 3% aukning samneyslu og 8,5% aukning á útflutningi. Gert er ráð fyrir um 10% minni fjárfestingum, m.a. vegna minni stóriðjuframkvæmda, og varðandi útflutning er gert ráð fyrir 3% auknu aflaverðmæti og 25­30% aukningu útflutnings á kísiljárni og áli.

Friðrik Már Baldursson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, segir að varðandi þjóðhagsspár sé erfiðast að segja fyrir um þróun á viðskiptakjörum, þ.e. verði á áli og sjávarfangi og olíuverði, svo dæmi séu nefnd. Friðrik Már segir að hugsanlegar breytingar á alþjóða efnahagshorfum hafi fyrst og fremst áhrif á viðskiptakjörin til að byrja með en í framhaldinu einnig á afkomu fyrirtækja hér og almennan hagvöxt.

Óvissan er mikil

Hann segir þjóðhagsspána meðal annars styðjast við þau drög að spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lá fyrir um miðjan september enda hafi stofnunin ekki getu til að annast sjálfstæðar spár í efnahagsmálum heimsins. "Við gerum okkur ljóst að horfur í efnahagsmálum heimsins hafa heldur daprast síðan spáin var gerð og að þær eru áfram óvissar. Við drögum heldur ekkert úr því í umfjöllun okkar þar sem við segjum í kaflanum um alþjóðleg efnahagsmál að óvissa sé mikil um efnahagsmál heimsins um þessar mundir og að allir helstu áhættuþættirnir virðist leggjast á eitt um að dekkja myndina," segir Friðrik Már.

Hann telur því ekki þörf á að endurskoða þjóðhagsspá nú en segir það verða gert næst um áramótin og stefnt sé að því að gera það ársfjórðungslega. "Spár eru eðli málsins samkvæmt óvissar og óvissan getur verið í báðar áttir og spáin er því eins konar miðgildi. En ég óttast ekki mikil frávik miðað við forsendur okkar um óbreytt viðskiptakjör þrátt fyrir að þróunin sé niður á við um þessar mundir."

Morgunblaðið/Kristinn SPÁÐ er 4,6% hagvexti hérlendis á næsta ári og m.a. gert ráð fyrir minni fjárfestingum vegna stóriðju en 5% aukningu á einkaneyslu.