Meiðsli lykilmanna rússneska landsliðsins hafa sett Anatoly Byshovets, þjálfara, í erfiða stöðu því hann er nú aðeins með tvo sóknarmenn í landsliðshópnum sem leikur við Frakka í undankeppni EM um helgina í Moskvu. Rússar töpuðu fyrsta leiknum í riðlinum á móti Úkraínu, 3:2, og því er mikið atriði fyrir þá að ná hagstæðum úrslitum á heimavelli gegn Frökkum ætli þeir sér stóra hluti í keppninni.


Rússar eru ívandræðumSóknarleikmenn meiddir fyrir leik gegn Frökkum og Íslendingum

Meiðsli lykilmanna rússneska landsliðsins hafa sett Anatoly Byshovets, þjálfara, í erfiða stöðu því hann er nú aðeins með tvo sóknarmenn í landsliðshópnum sem leikur við Frakka í undankeppni EM um helgina í Moskvu. Rússar töpuðu fyrsta leiknum í riðlinum á móti Úkraínu, 3:2, og því er mikið atriði fyrir þá að ná hagstæðum úrslitum á heimavelli gegn Frökkum ætli þeir sér stóra hluti í keppninni. Rússar leika síðan við Íslendinga á Laugardalsvelli í næstu viku.

Í gær var ljóst að bæði Igor Kolyvanov hjá Bologna sem er með flensu og Sergei Kiryakov hjá HSV, sem er meiddur, geta ekki leikið. Þeir eru báðir framherjar. Eftir í hópnum eru þá aðeins tveir sóknarmenn, Vladimir Beschastnykh, Racing Santander, sem hefur ekki leikið heilan landsleik í meira en ár, og síðan Oleg Teryokhin, leikmaður með Dynamo Moskvu.

Við þetta bætist að tveir af bestu miðvallarleikmönnum Rússa, Andrei Kanchelskis, Glasgow Rangers, og Ilya Tsymbalar, sem skoraði fyrir Spartak Moskvu í sigrinum á Real Madrid í Meistaradeildinni í síðustu viku, verða heldur ekki með gegn heimsmeisturunum. Báðir eru þeir meiddir.

"Ég tel að við þurfum ekki að breyta áformum okkar í sambandi við leikskipulagið á móti Frökkum þrátt fyrir allt," sagði Byshovets eftir æfingu rússneska landsliðsins á Navogrska-æfingasvæðinu rétt utan við Moskvu í gær. "Það eru alltaf einhverjir meiddir af lykilmönnunum. Á móti Úkraínu vorum við án nokkura lykilmanna í vörninni, en nú eru það fjórir sóknarmenn sem verða fjarri."

Byshovets ætlar þrátt fyrir forföllin ekki að kalla í Sergei Yuran, sem leikur með Bochum í Þýskalandi. Hann hefur ekkert leikið með þýska liðinu það sem af er tímabili.