GÖRAN Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti í gær við setningu sænska þingsins stefnu nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Sagði hann markmiðið um þriggja prósentustiga hagvöxt og lágmarksverðbólgu eftir sem áður njóta forgangs. Persson ítrekaði í stefnuræðunni það takmark stjórnarinnar, að koma atvinnuleysi í landinu niður fyrir fjögur prósent árið 2000.
Svíþjóð Stjórnarstefnan óbreytt

GÖRAN Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti í gær við setningu sænska þingsins stefnu nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Sagði hann markmiðið um þriggja prósentustiga hagvöxt og lágmarksverðbólgu eftir sem áður njóta forgangs.

Persson ítrekaði í stefnuræðunni það takmark stjórnarinnar, að koma atvinnuleysi í landinu niður fyrir fjögur prósent árið 2000. Hann sagði nauðsynlegt að efna til víðtækrar upplýsingaherferðar um Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU), sem ellefu aðildarríki ESB verða stofnaðilar að um næstu áramót. Svíþjóð er ekki í hópi stofnaðildarríkja EMU, en Persson sagði að ítarleg umræða um kosti og galla aðildar yrði að fara fram. Ákvörðun um þátttöku yrði að bera undir þjóðaratkvæði. Hann útilokaði þó að efnt yrði til slíkrar atkvæðagreiðslu samhliða kosningum til Evrópuþingsins næsta sumar.

Sahlin aftur í stjórn

Persson upplýsti ennfremur í gær, hvaða breytingar hann hygðist gera á stjórninni. Anna Lindh, fyrrverandi umhverfisráðherra, á að verða utanríkisráðherra í stað Lenu Hjelm-Wallén. Tekur Hjelm-Wallén við embætti aðstoðarforsætisráðherra. Mona Sahlin, sem nefnd var sem líklegt leiðtogaefni jafnaðarmanna fyrir þremur árum en neyddist síðan til að segja af sér ráðherraembætti, kemur inn í stjórn að nýju sem aðstoðarráðherra.

Reuters GÖRAN Persson (fyrir miðju), með nýjum ráðherrum í stjórn sinni. Frá vinstri: Björn Rosengren, viðskipta- og iðnaðarráðherra, og aðstoðarráðherra hans Mona Sahlin, þá Ingegerd Wörnersson, menntamálaráðherra, Britta Lejon, dómsmálaráðherra, og Kjell Larsson, umhverfisráðherra.