GUÐJÓN Þórðarson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, tilkynnti í gær 18 manna landsliðshóp sinn fyrir viðureignina við Armeníu í Evrópukeppninni ytra á laugardag og heimaleikinn við Rússland á miðvikudag, en hann gerði þrjár breytingar á hópnum frá jafnteflisleiknum við Frakka í byrjun september. Hann stefnir á sigur en segist hugsanlega verða að sætta sig við jafntefli.


Guðjón Þórðarson landsliðsþjálfari gerði þrjár breytingar á hópnum frá jafnteflinu við Frakka

Væri að ljúga ef ég segðist ánægður með jafntefli GUÐJÓN Þórðarson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, tilkynnti í gær 18 manna landsliðshóp sinn fyrir viðureignina við Armeníu í Evrópukeppninni ytra á laugardag og heimaleikinn við Rússland á miðvikudag, en hann gerði þrjár breytingar á hópnum frá jafnteflisleiknum við Frakka í byrjun september. Hann stefnir á sigur en segist hugsanlega verða að sætta sig við jafntefli. Hins vegar komi tap alls ekki til greina.

Guðjón sagðist stöðugt vera að velta hópnum fyrir sér og að vandlega athuguðu máli hefði hann ákveðið að gera örlitlar breytingar að þessu sinni. Eyjólfur Sverrisson, sem hefði verið fyrirliði í tveimur undangegnum leikjum og staðið sig vel, gæti ekki leikið vegna meiðsla en Sigurður Jónsson tæki stöðu hans. Brynjar Björn Gunnarsson kæmi líka aftur inn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla og þá væri Helgi Sigurðsson valinn á ný. Ólafur Örn Bjarnason og Sigurður Örn Jónsson voru í hópnum fyrir leikinn við Frakka en voru ekki valdir að þessu sinni.

Vanir menn

"Mesta breytingin er að Eyjólfur Sverrisson verður ekki með í þessum leikjum," sagði Guðjón. "Það er skarð fyrir skildi í stöðu sem skiptir mjög miklu máli og því er missir liðsins mikill. Hins vegar kemur maður í manns stað og vonir standa til að Sigurður Jónsson fylli í skarðið."

Brynjar Björn hefur ekki leikið lengi en Guðjón sagði að hann væri tilbúinn eftir að hafa verið frá vegna meiðsla og traustsins verður. "Brynjar Björn ristarbrotnaði skömmu eftir komuna til Moss frá Våleringa en hefur æft á fullu í um það bil mánuð og er tilbúinn," sagði Guðjón, þegar Morgunblaðið spurði hann um valið á leikmanninum. "Hann var í landsliðinu áður en hann meiddist og hefur ávallt staðið sig feikivel, síðast á móti Suður- Afríku í júní. Hann er fjölhæfur leikmaður, getur leikið í öftustu varnarlínu eða á miðjunni. Hann er í góðu líkamlegu ástandi og ég valdi hann vegna karaktersins og þess að ég treysti honum fullkomlega."

Sigurður Örn Jónsson er viðbúinn ef á þarf að halda en Pétur Marteinsson er tæpur. "Pétur á í smávægilegum erfiðleikum en hann telur að hann verði tilbúinn," sagði Guðjón. "Það kemur í ljós á æfingunum fyrir brottför en Sigurður Örn er tilbúinn." Guðjón sagði að Hlynur Stefánsson, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara ÍBV, hefði ekki hug á að spila framar með landsliðinu og hann hefði ekki velt Guðna Bergssyni, fyrirliða Bolton, fyrir sér. "Við höfum verið að leika ákveðið kerfi og mikilvægt er að menn viti að hverju þeir ganga og séu tilbúnir að gera það sem þarf. Sigurður Jónsson þekkir þetta kerfi og Sigurður Örn líka."

Guðjón sagði að miklu máli skipti að leikmenn væru að spila með liðum sínum en Stefán Þórðarson hefur reyndar lítið leikið að undanförnu. "Hann hefur lítið sem ekkert spilað með Brann eftir að hann fór frá Öster en hann er varamaður hjá mér fyrir Ríkharð Daðason og ég hef skoðað fleiri með þetta hlutverk í huga." Hann áréttaði að það væri visst áhyggjuefni ef menn væru ekki að leika með liðum sínum "því við þurfum á því að halda að menn séu að spila".

Arnar Grétarsson hefur ekki verið valinn í landsliðið síðan á æfingamótinu á Kýpur í febrúar sem leið. "Ég hef ekki fylgst sérstaklega með því sem hann hefur verið að gera að undanförnu," sagði Guðjón. "Hann fékk ákveðið tækifæri til að sýna hvað í honum býr en frammistaða hans þá verðskuldaði ekki áframhaldandi val. Hins vegar er þetta ekki endanlegt og kannski fæ ég tækifæri til að fylgjast með honum í vetur."

Sýnd veiði en ekki gefin

Armenía vann Andorra 3:1 í liðnum mánuði en í nýliðinni heimsmeistarakeppni fagnaði liðið fyrsta og eina sigri sínum í HM til þessa, vann Albaníu 3:1 heima. Guðjón sagðist ekki vita mikið um væntanlega mótherja, en þjálfari Andorra hefði veitt sér ákveðnar upplýsingar. "Það er knattspyrnuhefð í landinu og Armenía er sýnd veiði en ekki gefin. Leikmennirnir eru einstaklingshyggjumenn, vilja halda boltanum sjálfir í stað þess að spila honum á milli sín. Það getur hjálpað okkur að skipuleggja vörnina og takist það er mikilvægt að nýta sóknarfærin sem gefast. Þjálfari Andorra sagði að fyrst Andorra hefði skorað ættum við að geta gert það líka auk þess sem við værum með sterkari vörn en Andorra. Hann sagðist vera bjartsýnn fyrir okkar hönd en aðalatriðið hjá okkur er að halda hreinu eins lengi og hægt er. Best væri að við skoruðum á 88. mínútu og ynnum 1:0 en svona er auðvelt að segja og erfitt að fylgja eftir. Hins vegar er ljóst að ef við ætlum að styrkja stöðu okkar verðum við að hætta að tapa leikjum eins og á móti Armeníu á útivelli."

Næsti leikur mikilvægastur

Guðjón sagði að allir leikir væru mikilvægir en næsti leikur væri alltaf mikilvægastur. "Við sáum á móti Frökkum að hægt er að gera góða hluti og jákvæðir hlutir eru að gerast í okkar röðum. Ríkharður er að standa sig vel í Noregi, Arnar blómstrar í Englandi og Þórður í Belgíu auk þess sem Helgi hefur átt góða leiki í Þýskalandi og Rúnar í Noregi. Ég hef trú á að liðið geti staðið sig í komandi átökum og ljóst er að við gerum allt sem við getum til að vera Íslandi til sóma. Fljótlega eftir að flautað hefur verið af í Armeníu förum við að einbeita okkur að leiknum við Rússa en næst er það Armenía. Það er alltaf erfitt að leika á útivelli og yfirleitt eru menn sáttir við jafntefli á útivelli en ég væri að ljúga ef ég segðist ánægður með jafntefli í Jerevan. Markmiðið er sigur, sem hugsanlega er óraunhæft, kannski verðum við að sætta okkur við jafntefli en tap kemur ekki til greina."

Morgunblaðið/Golli STEFÁN Þórðarson, Ríkharður Daðason, Lárus Orri Sigurðsson, Rúnar Kristinsson, Pétur Marteinsson, Hermann Hreiðarsso og Þórður Guðjónsson fagna jafnteflinu við Frakka og þakka áhorfendum stuðninginn. Þeir verða í eldlínunni í Armeníu á laugardag og taka á móti Rússum á miðvikudag í næstu viku. Steinþór Guðbjartsson skrifar