BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans í gær að mikilvægt væri að stíga þegar þau skref sem þyrfti til að sigrast á alþjóðlegum efnahagsvanda sem hefði aukist að undanförnu.
Ársfundur IMF og Alþjóðabankans Clinton segir eflingu hagvaxtar meginmarkmiðið

Washington. Reuters.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans í gær að mikilvægt væri að stíga þegar þau skref sem þyrfti til að sigrast á alþjóðlegum efnahagsvanda sem hefði aukist að undanförnu.

"Við horfumst í dag í augu við sennilega erfiðasta efnahagsvanda í um hálfrar aldar skeið," sagði Clinton en kvaðst sannfærður um að vinna mætti bug á vandanum. Sagði hann hins vegar að til að það mætti verða yrðu allir, Evrópubúar, Japanir, Bandaríkjamenn og aðrir, að beita samtakamætti sínum. Sagði forsetinn eflingu hagvaxtar í heiminum meginmarkmið þeirra sem mótuðu stefnu í þessum málum en lagði að öðru leyti ekki fram sérstakar hugmyndir um hvernig taka ætti á vandanum.

Framkvæmdastjóri IMF, Michel Camdessus, sagði í sinni ræðu að ekki væri um það að ræða að einstakar þjóðir ættu við efnahagsvanda að stríða heldur væri allt fjármálakerfið í uppnámi, enda hefði mönnum ekki enn tekist að aðlaga það nægilega vel þeim kostum og göllum sem fylgdu alþjóðavæðingu í fjármálum.