IÐNAÐARRÁÐHERRA og sjávarútvegsráðherra hafa ákveðið að fullnýta strax í fyrsta áfanga heimildir núgildandi laga til sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eða 49% hlutafjár. Finnur Ingólfsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir að vel heppnuð sala á hlutafé í Landsbanka valdi því að ákveðið hafi verið að selja svo stóran hlut í fyrsta áfanga.
49% hlutur ríkisins í FBA seldur fyrir áramót

IÐNAÐARRÁÐHERRA og sjávarútvegsráðherra hafa ákveðið að fullnýta strax í fyrsta áfanga heimildir núgildandi laga til sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eða 49% hlutafjár. Finnur Ingólfsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir að vel heppnuð sala á hlutafé í Landsbanka valdi því að ákveðið hafi verið að selja svo stóran hlut í fyrsta áfanga.

Finnur sagði að salan myndi fara þannig fram að almenningi yrði boðið að skrá sig fyrir hlut í bankanum að hámarki 3 milljónir króna á nafnverði. Ef menn skráðu sig fyrir meira en sem næmi þessum 49% yrði hlutur hvers og eins skertur. Ef eftirspurn eftir áskrift yrði hins vegar minni en 49% yrði síðar tekin ákvörðun um að selja það sem á vantaði í tilboðssölu, þó þannig að einstakir aðilar gætu aðeins keypt hlutafé sem næmi allt að 3% hlutafjár í bankanum í slíkri sölu.

Heimildar aflað til meiri sölu

"Ef aðstæður á markaði verða góðar ætlum við að leita eftir lagaheimild frá Alþingi fyrir áramót til að selja 51% hlut ríkisins í bankanum á fyrrihluta næsta árs. Bankinn verður þá að öllu leyti í eigu einkaaðila. Síðar verður tekin ákvörðun um hvernig verður staðið að sölu á þessum hlut," sagði Finnur.

Finnur sagði að framkvæmdanefnd um einkavæðingu yrði falið að undirbúa söluna, m.a. ákveða tímasetningu hennar og hvert gengið yrði. Gert væri ráð fyrir að starfsmönnum yrði gert kleift að kaupa hlut í bankanum með hliðstæðum hætti og gert hefði verið við söluna á hlutabréfum í Landsbanka og Búnaðarbanka. Það þýddi að miðað væri við að hlutur starfsmanna í sölunni yrði svipaður og við sölu á hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum.

Upphaflega var áformað að selja 49% hlut ríkisins í FBA í tveimur áföngum, en Finnur sagði að mikill áhugi almennings á að kaupa hlut í Landsbankanum gerði það að verkum að ákveðið hefði verið að selja allt hlutaféð í einum áfanga.