AMERÍSK-íslenska verslunarráðið á Íslandi og Íslensk-ameríska verslunarráðið í Bandaríkjunum efna til ráðstefnu í Washington næstkomandi föstudag um viðskipti Íslands og Bandaríkjanna og viðskiptatengsl Evrópu og Norður-Ameríku. Um fjörutíu stjórnendur íslenskra fyrirtækja fara vestur um hafa til þess að taka þátt í ráðstefnunni ásamt utanríkisráðherra og fjármálaráðherra.
ÐRáðstefna um viðskipti Íslands og Bandaríkjanna í Washington

Verslun milli ríkjanna

rædd frá mörgum hliðum

AMERÍSK-íslenska verslunarráðið á Íslandi og Íslensk-ameríska verslunarráðið í Bandaríkjunum efna til ráðstefnu í Washington næstkomandi föstudag um viðskipti Íslands og Bandaríkjanna og viðskiptatengsl Evrópu og Norður-Ameríku. Um fjörutíu stjórnendur íslenskra fyrirtækja fara vestur um hafa til þess að taka þátt í ráðstefnunni ásamt utanríkisráðherra og fjármálaráðherra.

Á ráðstefnunni verður fjallað um fjölmargar hliðar viðskipta milli ríkjanna, t.d. um afstöðu íslenskra og bandarískra stjórnvalda til viðskiptasamninga milli Evrópulanda og ríkja Norður-Ameríku. Þá verður fjallað um sértækari mál eins og:

Fríverslunarsamning EFTA og Kanada sem nú er verið að semja um.

Stöðu bandarískrar neytendavöru á íslenskum markaði.

Alþjóðlega viðskiptamiðstöð á Íslandi.

Sölu íslenskra sjávarafurða á Bandaríkjamarkaði.

Möguleika á ferðaþjónustu m.t.t. þátta eins og flugs milli Evrópu og Ameríku og möguleika á markaðssetningu vegna komu háhyrningsins Keikós til Íslands og landafundaafmælisins árið 2000.

Möguleika á fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á Íslandi.

Ræðumenn á ráðstefnunni verða Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Charles Ludolph, aðstoðarviðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Ronald Asmus, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kjartan Jóhannsson, framkvæmdastjóri EFTA, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, Einar Benediktsson sendiherra, Magnús Bjarnason, viðskiptafulltrúi í New York, Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood, Elvar Einarsson, aðstoðarforstjóri Iceland Seafood, Bruce Galloway, stjórnarformaður Arthur Treacher's, Richard Dees, ráðgjafi í markaðssetningu matvæla, Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum, Robert Ratliffe, varaformaður Free Willy Keiko samtakanna, David Brewer, aðstoðarforstjóri Columbia Ventures, Heinz Schimmelbusch, stjórnarformaður Safeguard International, Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og Vilhjálmur Fenger, framkvæmdastjóri Nathan og Olsen hf. Ráðstefnustjórar verða Þórður Magnússon, formaður Amerísk- íslenska verslunarráðsins og Jon Yard Arnason, formaður Íslensk- ameríska verslunarráðsins.

Fríverslun og sóknarfæri

Birgir Ármannsson, lögfræðingur Verslunarráðs, segir að útlit sé fyrir að um fjörutíu manns úr bandarísku viðskiptalífi og stjórnkerfi verði meðal þátttakenda á ráðstefnunni. Í þeim hópi séu m.a. Íslendingar sem starfi hjá fyrirtækjum vestra, Bandaríkjamenn sem þegar eigi í viðskiptum við Íslendinga eða hafi áhuga á að stofna til nýrra viðskipta. "Ráðstefnan verður vonandi til þess að efla enn frekar viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna enda kjörinn vettvangur fyrir þá sem vilja koma á slíkum tengslum. Þá verður m.a. leitast við að bregða ljósi á hvað er að gerast í fríverslunarviðræðum EFTA og Kanada og möguleika á að útvíkka slíkt samstarf frekar. Þá verður sérstaklega rætt um breyttar aðstæður og nýja möguleika í hefðbundnum viðskiptum Íslands og Bandaríkjanna, svo sem sölu íslenskra sjávarafurða vestra og möguleika á aukinni fjárfestingu erlendra aðila hér á landi," segir Birgir.