"MENN hafa miklar áhyggjur af því ástandi sem skapast hefur í alþjóðlegum efnahagsmálum vegna erfiðleikanna í Asíu og Rússlandi sem hefur valdið því að hagvöxtur í ár verður á heimsvísu aðeins 2% en ekki 4% eins spáð var," sagði Geir Haarde fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær, en hann situr nú ársfund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í Bandaríkjunum.

Áhyggjur vegna

erfiðleikanna í Asíu

"MENN hafa miklar áhyggjur af því ástandi sem skapast hefur í alþjóðlegum efnahagsmálum vegna erfiðleikanna í Asíu og Rússlandi sem hefur valdið því að hagvöxtur í ár verður á heimsvísu aðeins 2% en ekki 4% eins spáð var," sagði Geir Haarde fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær, en hann situr nú ársfund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í Bandaríkjunum.

"Þessir erfiðleikar segja til sín í minnkandi eftirspurn um allan heim og menn hafa lagt áherslu á það í ræðum sínum hér að við þessu þurfi að bregðast með skipulegum aðgerðum bæði í viðkomandi löndum og hjá hinu alþjóðlega og opinbera bankakerfi með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í broddi fylkingar," sagði fjármálaráðherra ennfremur.

Geir Haarde sagði einnig hafa komið glöggt fram í máli Wolfehnsons, bankastjóra Alþjóðabankans, að kreppan hafi haft mjög óheillavænleg áhrif á þróunarlönd sem hafi í fyrra eygt möguleika á að rétta úr kútnum en þær vonir síðan ekki ræst.

Engin heimskreppa

Forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, ávarpaði fundinn, svo og Menem, forseti Argentínu, og sagði Geir Haarde Bandaríkjaforseta hafa skorað á aðildarþjóðirnar að auka fjármagn til sjóðsins. "Mér finnst fundurinn vera á nokkrum tímamótum þar sem menn horfast nú í augu við kreppu sem skall nokkuð óvænt á þar sem menn höfðu kannski ekki nógu þróað fjármagns- og bankakerfi og eftirlit með þeim og þetta ástand vofir yfir öllum ársfundinum," sagði fjármálaráðherra ennfremur. "Hins vegar kom líka glöggt fram sú von í ræðum hér að menn telja mögulegt að vinna sig út úr þessum vanda og að hér sé ekki um neina heimskreppu að ræða eins og var árið 1929, menn hafa til þess ýmis úrræði."

Geir Haarde segir ekki hægt að sjá hvernig kreppan í Asíu hafi bein áhrif á Íslandi: "Við vitum að við höfum notið góðs af lægra olíuverði þar sem eftirspurnin hefur minnkað í Asíulöndum en hins vegar verður líka eitthvað minni eftirspurn eftir vörum okkar og verðið gæti lækkað. Um þetta vitum við ekki gjörla ennþá, en í fjárlagafrumvarpinu höfum við stuðst við það sem best var vitað og nýjast í forsendum alþjóðlegra efnhagsmála," sagði ráðherra að lokum.