FJÖGUR sveitarfélög í Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu hafa ákveðið að stofna sameiginlega félagið Þeistareyki ehf. Þetta eru Akureyrarbær, Húsavíkurbær og hrepparnir í Aðaldal og Reykjadal en hrepparnir tveir eru eigendur landsins við Þeistareyki.
Sameinast um jarðhitarannsóknir Líkur á

150 mW

virkjun við

Þeistareyki

FJÖGUR sveitarfélög í Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu hafa ákveðið að stofna sameiginlega félagið Þeistareyki ehf. Þetta eru Akureyrarbær, Húsavíkurbær og hrepparnir í Aðaldal og Reykjadal en hrepparnir tveir eru eigendur landsins við Þeistareyki.

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að sveitarfélögin fjögur sem stæðu að félaginu myndu hafa með sér samvinnu við rannsóknir og nýtingu jarðhita á Þeistareykjum. "Við ætlum að kanna hvort orka finnst á þessu svæði," sagði Kristján þegar hann kynnti málið á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær.

Benti Kristján á að verið væri að vinna að svipuðum málum t.d. hjá Hitaveitu Suðurnesja og einnig í Reykjavík og ekki væri ástæða til að Akureyringar sætu eftir. "Við verðum að nýta þá orku sem býr í iðrum jarðar, í stað þess að kaupa hana af öðrum," sagði Kristján en verulegar líkur eru á að unnt verði að reisa um 150 mW virkjun á svæðinu við Þeistareyki. Benda athuganir til að verðið verði hagstætt.

Fyrir liggja drög að samningum við landeigendur og einnig stofnskrá og stofnsamningur fyrir hlutafélagið Þeistareyki, en Franz Árnason, hita- og vatnsveitustjóri á Akureyri, Hreinn Hjartarson, bæjarverkfræðingur á Húsavík, Svanbjörn Sigurðsson, rafveitustjóri á Akureyri, og Baldur Dýrfjörð, bæjarlögmaður á Akureyri, unnu að gerð þeirra.

Forskot og frumkvæði

Akureyrarbær tekur einnig þátt í verkefni á þessu sviði í Öxarfirði en bæjarstjóri sagði að á því sviði lægju ákveðin sóknarfæri sem bæri að nýta. "Með þessu viljum við skapa okkur betri stöðu, ná ákveðnu forskoti og frumkvæði, en ég vona að þessi verkefni okkar beri ávöxt og að við munu uppskera ríkulega þegar þeim er lokið," sagði Kristján.