ÚTBOÐ vegna framkvæmda við nýjan barnaspítala Hringsins á Landspítalalóð í Reykjavík verður auglýst á næstu dögum og er ráðgert að byggingin verði orðin fokheld og fullbúin að utan á næsta ári. Verða veittar tæplega 400 milljónir króna til þessa fyrsta áfanga.
Barnaspítali Hringsins

Fyrri áfangi boðinn út næstu daga

ÚTBOÐ vegna framkvæmda við nýjan barnaspítala Hringsins á Landspítalalóð í Reykjavík verður auglýst á næstu dögum og er ráðgert að byggingin verði orðin fokheld og fullbúin að utan á næsta ári. Verða veittar tæplega 400 milljónir króna til þessa fyrsta áfanga.

Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra, sagði að nú þegar fyrir lægi samkomulag milli Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar um flutning á Hringbraut væri hægt að hefjast handa af fullum krafti. Með flutningi Hringbrautar skapast betra athafnarými á Landspítalalóðinni. Teikningar voru tilbúnar í maí en beðið hefur verið byggingaleyfis frá borginni sem nú er fengið. Heildarkostnaður er áætlaður á bilinu 800 til 1.000 milljónir króna og segir ráðherrann að ríkisstjórnin hafi tryggt áframhaldandi fjármögnun þannig að taka megi spítalann í notkun ekki síðar en árið 2001.

Í fyrsta áfanga verður annars vegar boðinn út grunnur byggingarinnar og síðan uppsteypa. Er stefnt að því að auglýsa útboð á næstu dögum og að fyrsta áfanga ljúki á næsta ári. Þá yrði síðari áfanginn boðinn út.

Í samkomulagi borgar og ríkis vegna flutnings Hringbrautar kemur fram að verkið er talið kosta kringum 580 milljónir króna. Hringbrautin verður færð á kaflanum frá Miklatúni að enda Tjarnarinnar. Verður hún sex akreinar á þessum kafla með mislægum gatnamótum þar sem hún sker Bústaðaveg og Snorrabraut.