ÉG HEF hugsað mikið um það undanfarið svona mitt í öllu þessu Keikó-fjölmiðlafári hvað mannkynið er óskaplega göfugt og gott og þá sérstaklega við dýr. Það er ekki nóg með það að á öðru hvoru heimili í veröldinni séu einhvers konar gæludýr. Hundar, kettir eða alls konar önnur kvikindi. Nei, við urðum að gera betur. Og nú er svo komið að við höfum náð takmarkinu.
Af Keikó, köttum og öðrum kvikindum

Endar það kannski með því að við látum ,svæfa" Keikó þegar við verðum leið á honum? spyr Guðný Svava Strandberg , eins og við gerum við flest öll dýr sem við nennum ekki að hugsa um lengur?

ÉG HEF hugsað mikið um það undanfarið svona mitt í öllu þessu Keikó-fjölmiðlafári hvað mannkynið er óskaplega göfugt og gott og þá sérstaklega við dýr. Það er ekki nóg með það að á öðru hvoru heimili í veröldinni séu einhvers konar gæludýr. Hundar, kettir eða alls konar önnur kvikindi. Nei, við urðum að gera betur. Og nú er svo komið að við höfum náð takmarkinu. Við, það er að segja allur hinn vestræni heimur, hefur loksins sameinast um eitt. Allsherjarþjóðagæludýr. Og það ekki neitt smákvikindi heldur heljarstóran hval, Keikó. Og það er svo sem allt í lagi með það. Svona fyrir mína parta.

En er ekki svolítil skinhelgi í þessu öllu saman? Erum við virkilega svona göfug og góð? Gæti kannski komið upp sú staða að við verðum leið á Keikó? Nennum ekki að gefa honum að éta eða að sinna honum svona yfirleitt. Það er að segja ef allt fer á versta veg og ekki verður hægt að sleppa honum lausum og láta hann bjarga sér á eigin spýtur. Og hvað gerum við þá? Látum "svæfa" hann kannski eins og við gerum við flest öll dýr sem við nennum ekki að hugsa um lengur? Eða þá við hendum þeim út á guð og gaddinn. Sem er til dæmis vinsæl aðferð til að losna við ketti. Uppskriftin er mjög auðveld. Bara að sleppa þeim lausum og láta vera að merkja þá. Og svo er bara að gleyma að þeir hafi nokkru sinni verið til.

Ég rakst einmitt á eitt svona fórnarlamb fyrir skömmu. Svona á að giska sex mánaða gamlan kettling grábröndóttan. Hann hafði verið að sniglast í nágrenni við Landsspítalann í nokkra daga og gert ítrekaðar tilraunir til að komast þar inn á geðdeild. Sem mér finnst ekkert skrýtið. En greyið var borið jafnharðan út aftur enda er Landsspítalinn ekki fyrir ketti eins og næstum því allir vita. Svo ég aumkaði mig yfir kettlingsræfilinn og fór með hann heim. En því miður gekk það ekki upp þar sem ég á tvo ketti fyrir. Og þeir voru ekki tilbúnir til að samþykkja þriðja köttinn í sína klíku. Þannig að ég varð að fara með Litla-Brand upp í Kattholt sem er athvarf fyrir glataða og afvegaleidda ketti. Í Kattholti var mér tjáð af þreytulegri konu að væru tugir heimilislausra katta sem enginn kærði sig um. Margir hverjir veikir. Jafnvel svo veikir að þeirra biði ekkert annað en dauðinn. Og við því væri ekki neitt að gera vegna fjárskorts. Konan kvaðst ennfremur vera ein við að sinna þessum u.þ.b. sextíu köttum. Og hún sagði líka að ef borgarstjóranum okkar þætti vænt um ketti væri ástandið líklega öðruvísi. Þá myndi Kattholt örugglega fá fjárstyrk svo það gæti sinnt sínu hlutverki betur.

En mér er spurn, hvers vegna tekur fólk að sér dýr án þess að gera sér nokkra grein fyrir að því fylgir mikil ábyrgð? Kettir t.d. geta lifað allt upp í 14 ár. Litlir sætir kettlingar verða fullvaxnir fyrr en varir og þeir þurfa umönnun allt sitt stutta líf. En ekki bara fyrstu 6 mánuðina. Og hvers vegna lýtur kattahald ekki sömu lögum og hundahald? Hvers vegna eru kettir látnir ganga lausir en hundar í bandi? Kettir þurfa ekki og eiga ekki að ganga lausir í stórborgum. Eins og t.d. Reykjavík. Þeir geta hæglega lifað hamingjusömu lífi innandyra. Ef kattaeigendur vilja endilega láta kettina sína vera úti eiga þeir að hafa þá í bandi. Eða að minnsta kosti sjá til þess að þeir séu almennilega merktir. Best væri að menn þyrftu að sækja um leyfi til yfirvalda til að fá að eignast kött. Og þeim væri gert skylt að merkja þá gegn viðurlögum. Það er kominn tími til að köttum sé sýnd sama virðing og hundum. Og ekki bara hreinræktuðu dýru köttunum. Eða er það kannski málið? Peningaspursmálið. Venjulegu íslensku húskettirnir fást nefnilega ókeypis. Líklega er það rétt sem einhver sagði að því meira sem menn borguðu fyrir hlutina, því vænna þætti þeim um þá. Og það liggur við að það sé gefin meðgjöf með "venjulegum" kettlingum svo einhver fáist til að taka þá að sér. Svo fólk slær til, fær sér kettling til að leika sér að og hendir honum svo fljótlega út. Ómerktum að sjálfsögðu. Enda er allt fullt af vegalausum köttum í Reykjavík eins og áður segir. Það á að selja alla ketti skilyrðislaust dýrum dómum. Þá yrði kannski hugsað betur um þá.

Svo er verið að flytja hingað fyrrnefndan hval. Hann Keikó. Og menn geta vart vatni haldið af hrifningu yfir þessu lofsverða mannúðarframtaki. Ég hef svo sem ekkert á móti Keikó svona persónulega en ég þykist, af mínu takmarkaða viti, vita, að allir sem hafa einhverja glætu í kollinum, átti sig á að þeir sem að þessu tiltæki stóðu voru ekki eingöngu með þennan bægslagang af einhverjum uppljómuðum mannúðarástæðum. Þar eins og alltaf og alls staðar komu peningar við sögu. Svona neðanmálssögu með litlum stöfum. Því kvikmyndafyrirtæki eitt í henni Ameríku, Warner Brothers, var búið að græða á Keikó. Með framhaldsmyndum um hvalinn sem fékk frelsi úr prísund sinni. Og "lived happily ever after". En það var ekki reiknað með múgsefjuninni sem fylgdi í kjölfarið. Fólkið vildi að ævintýrið yrði að raunveruleika. Fólk er bara svoleiðis. Svo til að halda andlitinu og aurunum, því ekki vildi fyrirtækið að almenningur sneri baki við hinum "vondu Warner-bræðrum" ef þeir sæju ekki um almennilegan "happy ending", létu þeir af hendi rakna slatta af peningum. Og þannig varð Free Willy Keiko-sjóðurinn til. Og Ísland var svo sannarlega tilbúið að syngja með í sápuóperunni. Keikó var rækilega auglýstur í bak og fyrir og sungið lof og prís. Ísland bernskuslóðir Keikós, ef svo má segja, var einmitt rétti staðurinn fyrir hann. Sérstaklega vegna þess að síðasta senan í kvikmyndinni yrði tekin einmitt hér. Og ekki sakaði að öll heimsbyggðin fylgdist andaktug með útsendingunni í sjónvarpinu. Allavega sá hluti af heimsbyggðinni sem skipti einhverju máli. Og það þýddi að hingað myndu glepjast fleiri og meiri ferðamenn með meiri peninga. Gagngert til þess að berja augum þennan heimsfræga "súperstar" hval. Og kaupa í leiðinni Keikó-minjagripi af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum fyrir enn meiri peninga. En ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig fer fyrir okkar Guðs útvöldu þjóð þegar Keikófárið fjarar út. Og við þurfum að bíta í það súra epli að standa straum af kostnaði við, ekki bara Kattholt heldur líka Hvalholt. Ég segi nú bara "Guð hjálpi okkur þá".

Höfundur er myndlistarmaður.

Guðný Svava Strandberg