SAMVINNA er ekki tilfinningasemi, hún er hagfræðileg nauðsyn, sagði góður maður. Sem flokksbundinn Alþýðubandalagsmaður get ég ekki lengur orða bundist yfir þeim uppákomum og svo klofningi sem átt hefur sér stað innan flokksins.
Samvinna vinstri manna er hagfræðileg nauðsyn

Ég hvet Alþýðubandalagsfólk um allt land, segir Þorsteinn Gunnarsson, að láta háttalag þríeykisins ekki hafa áhrif á sig.

SAMVINNA er ekki tilfinningasemi, hún er hagfræðileg nauðsyn, sagði góður maður. Sem flokksbundinn Alþýðubandalagsmaður get ég ekki lengur orða bundist yfir þeim uppákomum og svo klofningi sem átt hefur sér stað innan flokksins. Afturhaldssemi og persónulegir hagsmunir hafa vegið þyngra við ákvarðanatöku einstakra þingmanna vegna úrsagnar úr þingflokknum í stað samvinnu, sáttfýsi og framtíðarhyggju.

Saga vinstri manna á Íslandi er ekki til eftirbreytni sé hún skoðuð út frá hugsjón samvinnu og samlyndis. Klofningsframboð út og suður með reglulegu millibili, oftast vegna þess að misskildir erfðaprinsar höfðu gefist upp á framapoti sínu í "flokknum". Valdagræðgi og eiginhagsmunapot sumra vinstri manna í gegnum tíðina hefur verið okkar helsti akkilesarhæll. Hvað eftir annað hefur rökhyggju samfylkingarskynseminnar á vinstri vængnum verið fórnað á altari einkaflippsins.

Alþýðubandalagið hefur gengið í gegnum ákveðinn hreinsunareld undanfarin misseri. Stefna flokksins hefur verið aðlöguð þeirri jafnaðarhugsjón sem ég og aðrir samfylkingarsinnar aðhyllumst án þess að það flokkist sem hreinn "kratismi". Fyrir vikið hefur skapast bakland fyrir samvinnu við aðra vinstri menn. Formaður flokksins tók rétta stefnu, spúlaði dekkið með glans og bjó þannig um hnútana að helstu dragbítarnir á framþróun samfylkingar vinstri manna í landinu sögðu sig úr Alþýðubandalaginu. Yfirgnæfandi meirhluti landsfundarfulltrúa studdi formanninn sinn, þarf frekari vitnanna við!

Trúverðugur andstæðingur

Ég er einn af þeim sem er orðinn hundleiður á því að styðja við bakið á vinstri flokki sem sættir sig við tíu prósenta fylgi og hefur lítil áhrif á gang þjóðfélagsmála. Ég þekki marga krata sem eru á sömu skoðun. Í grundvallaratriðum höfum við sömu sýn á pólitíkina, viljum sömu forgangsröð og eigum það sameiginlegt að líta á Sjálfstæðisflokkinn sem okkar höfuðandstæðing. Hvaða vit er í því að vera bara með einn toghlera fyrir trollið? Þeir þurfa að vera tveir ef vel á að fiskast! Til þess að ná árangri þarf, í fyrsta lagi, að fara í naflaskoðun, og í öðru lagi, skoða hverjir eru helstu styrkleikar og veikleikar höfuðandstæðingsins og læra af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert annað en regnhlífasamtök ólíkra hagsmunasamtaka sem eiga það eitt sameiginlegt að verja sameiginlega hagsmuni. Þessir aðilar bera gæfu til þess að standa saman þrátt fyrir misjafnar skoðanir. Það er kjarni málsins. Eitt skip, ein áhöfn, einn skipstjóri og öflugt kvótakerfi! Hagfræði hægri manna í hnotskurn. Til þess að hagfræði vinstri manna eigi að ganga upp þurfum við að vera í einum flokki (fylkingu) og tala með einni röddu. Annars erum við ekki trúverðugur andstæðingur við Sjálfstæðisflokkinn í augum kjósenda.

Frumhlaup þriggja þingmanna Alþýðubandalagsins, að yfirgefa skútuna þegar aflahorfur eru loks að glæðast með samfylkingu vinstri manna, er sorgleg staðreynd. Hvað liggur þar að baki? Ögmundur Jónasson var ekki í Alþýðubandalaginu fyrir síðustu kosningar. Hann komst inn sem "óháður". Nú er hann engum háður nema sjálfum sér, auk þess sem hann sinnir formennskunni í BSRB í gegnum farsímann. Hjörleifur Guttormsson hefur verið á þingi svo lengi sem elstu menn muna. Samflokksmenn mínir fyrir austan sögðu þetta vera síðasta kjörtímabil þingmannsins því stuðningurinn við hann færi þverrandi. Hvað er þá betra en að prófa annan flokk á fölskum forsendum til að vera áfram á spenanum! Steingrímur J. Sigfússon er enn stúrinn eftir að hafa tapað í formannsslag. Hér fann hann útgönguleið. Ég hélt nú að hann færi í Sjálfstæðisflokkinn, til skoðanabræðra sinna þar í sjávarútvegsmálum. En Steingrímur hefur gerst óháður, eins og Ögmundur. Kannski fær Steingrímur þar formannsdrauminn uppfylltan. Varaþingmaðurinn og tengdamóðir fjárfestingabankans, Guðrún Helgadóttir, hafði líka félagaskipti. Það er eftirsjá í henni, hún átti oft glæsilega útfærðar aukaspyrnur sem stundum voru misskildar af áhorfendum. Vonandi áttar Guðrún sig á mistökum sínum.

Þingmenn hverra?

Forystumenn sameiningarsinna segja að nú sé málefnavinna komin á fullt og búið að leggja fram drög að sameiginlegri stefnuskrá. Kvennalistinn er kominn með, sem betur fer, og boltinn farinn að rúlla. Hvernig gat þetta þingmannsþríeyki, sem yfirgaf Alþýðubandalagið, gefið samfylkingarhugmyndinni langt nef án þess að vita hvernig málefnapakkinn liti út eða a.m.k. reynt að hafa þar áhrif? Það segir allt sem segja þarf um það egó sem lá að baki úrsagnarákvörðuninni. Þeir voru í raun og veru ekki þingmenn flokksmanna og stuðningsmanna Alþýðubandalagsins, sem vill fara samfylkingarleiðina. Þeir voru fyrst og fremst þingmenn fyrir sig og sínar fjölskyldur. Þríeykið var með rofin raunveruleikatengsl, áttu enga samleið með nútíma vinstra fólki og líður eflaust vel í sínum "óháða" fílabeinsturni.

Ég hvet Alþýðubandalagsfólk um allt land að láta háttalag þríeykisins ekki hafa áhrif á sig. Höldum áfram á samfylkingarbraut. Sköpum gagnrýnið, framsækið, hugmyndaríkt og jákvætt vinstra samfylkingarafl sem hefur bakland og forsendur til að rjúfa ægivald Davíðs og hans samtryggingasveina.

Höfundur er fjölmiðlafræðingur, búsettur í Vestmannaeyjum.

Þorsteinn Gunnarsson