TITILLINN á þessari grein virðist dálítið skrítinn, en hann er samt réttur. Laukar er ein tegund haustlauka, rétt eins og túlipanar, páskaliljur eða krókusar. Orðið lauk tengja flestir við matjurt, gula, venjulega laukinn, sem við borðum svo mikið af og mörgum finnst ómissandi við matseld, að ég tali nú ekki um með pylsum. "Viltu hráan eða steiktan" er algeng spurning.
Öðruvísi haustlaukar ­ LAUKAR Nr. 398 Umsjón Ágústa Björnsdóttir TITILLINN á þessari grein virðist dálítið skrítinn, en hann er samt réttur. Laukar er ein tegund haustlauka, rétt eins og túlipanar, páskaliljur eða krókusar. Orðið lauk tengja flestir við matjurt, gula, venjulega laukinn, sem við borðum svo mikið af og mörgum finnst ómissandi við matseld, að ég tali nú ekki um með pylsum. "Viltu hráan eða steiktan" er algeng spurning. En laukar er íslenska heitið á ættkvíslinni Allium, sem er stór og mikil, sumir segja með 800-1.000 tegundum. Margar tegundir af laukum eru góðar matjurtir, eins og sá guli, cepalaukurinn, púrran, graslaukurinn eða höfuðlaukurinn. Í okkar görðum getum við ræktað margar tegundir af ætilaukum, meira að segja matarlaukinn algenga. Hægt er að sá fyrir honum, en þó er betra að setja niður smálauka á vorin, svo kallaða sáðlauka, til að flýta fyrir vextinum. En hér var ekki ætlunin að tala um lauka sem matjurtir, heldur lauka sem blómjurtir, já lauka sem haustlauka. Þetta fer nú að verða æði þvælukennt, best að koma sér að efninu. Fjölmargar tegundir af Allium geta vaxið á Íslandi, en þessi ættkvísl er þó ekki verulega algeng í görðum. Garðyrkjufélagið hefur haft ýmsar tegundir á haustlaukalista sínum um langt árabil, þannig að félagar hafa prófað margar Alliumtegundir, sem reynst hafa misvel eins og gengur. Sameiginlegt einkenni laukanna er blómskipunin, sem er kölluð sveipur. Blómin eru sett saman úr mörgum stjörnu- eða klukkulaga smáblómum, sem standa hvert um sig á stuttum legg. Sveipurinn getur síðan verið flatur eða mismikið kúlulaga og eins eru smáblómin í sveipnum mismörg eftir tegundum. Laufblöðin koma beint upp úr lauknum en eru ekki á blómstönglinum, blaðjaðrarnir eru beinir og blöðin ýmist flöt eða þráðlaga, stundum hol að innan, eins og hjá graslauknum. Hjá mörgum laukum visna blöðin um svipað leyti og blómgun hefst. Hæð laukblómsins er mjög mismunandi, allt frá nokkrum sm upp í á annan metra. Rósalaukur (All. oreophilum) er líklega sú lauktegund, sem oftast er á lista GÍ þótt hann sé ekki með nú í haust. Rósalaukurinn er lágvaxinn, 10-30 sm hár og virðist oft lægri en hann er, því blómstönglarnir þurfa helst stuðning til að halda uppi blómsveipnum, sem er mjög stór miðað við heildarhæð plöntunnar. Rósalaukurinn hefur skærrósrauð blóm, en blöðin eru grágræn. Rósalaukurinn er mjög skemmtilegur í steinhæðum og skínandi vel harðger. Hann fjölgar sér smám saman og getur myndað fallegar breiður. Hvolflaukur (All. cernuum) er mikill uppáhaldslaukur hjá mér. Hann er liðlega 30 sm á hæð. Blöðin eru mjó, nánast eins og strik. Blómstönglarnir eru stinnir og blómsveipurinn, sem er samsettur úr tiltölulega fáum blómum, eins og hangir á bognum stilk, er á hvolf. Blómin geta verið ýmist hvít, bleik eða purpuralit. Hvolflaukurinn hefur reynst mér mjög harðger og fjölgar sér jafnt og þétt. Gulllaukurinn (All. moly) hefur fengið frekar slæmt orð á sig, en það finnst mér mesta vitleysa. Reyndar má segja að hann sé kenjóttur, a.m.k. lætur hann ekki bjóða sér hvað sem er. Hann hefur oft verið á laukalista GÍ og ég féll fyrir honum fyrir nokkrum árum, hikandi þó. Til að tryggja mig setti ég nokkra lauka á 3 mismunandi staði í suðurgarðinum. Það reyndist líka jafn gott, á einum staðnum komu aðeins upp fáein lauf fyrsta vorið, á næsta stað kemur myndarlegur blaðbrúskur á hverju ári en á þriðja staðnum blómstrar hann og blómstrar og fjölgar sér í gríð og erg. Ég er farin að gefa laukana vítt og breitt til að halda honum í skefjum. Það er líklega óþarfi að geta þess að gulllaukur er með gulum, tiltölulega stórum blómum, í frekar flötum sveip. Hann er 30-40 sm á hæð. Margar fleiri Alliumtegundir hef ég prófað og get mælt með, en einhvers staðar verður að hætta. Laukar þurfa yfirleitt frekar hlýjan og sólríkan stað, eigi þeir að vera langlífir. Sumir þurfa dálítið raka mold, aðrir þurrari. Engir vilja þó vera "blautir í fæturna" allan veturinn. S.Hj.