Í ÁR eru 30 ár liðin frá því konur í kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands tóku við rekstri sjúklingabókasafna Landspítalans og SHR í Fossvogi. Árið 1950 gaf frú Ágústa Þórðardóttir Sigfússon Landspítalanum einkabókasafn sitt. Frú Ágústa ananðist reglubundna bókasafnsþjónustu þar til kvennadeildarkonur tóku við rekstrinum í ársbyrjun 1968.
Bókasafnsþjónusta kvennadeildar Reykjavíkurdeildar RKÍ

Í ÁR eru 30 ár liðin frá því konur í kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands tóku við rekstri sjúklingabókasafna Landspítalans og SHR í Fossvogi.

Árið 1950 gaf frú Ágústa Þórðardóttir Sigfússon Landspítalanum einkabókasafn sitt. Frú Ágústa ananðist reglubundna bókasafnsþjónustu þar til kvennadeildarkonur tóku við rekstrinum í ársbyrjun 1968. Á SHR í Fossvogi fara kvennadeildarkonur í maímánuði 1968 að lána út og fara með bækur á stofur til sjúklinga. Áður höfðu þær unnið mikla undirbúningsvinnu með starfsfólki bókasafns SHR í Fossvogi við að flokka, merkja og skrá bækur sem Lionsklúbburinn Baldur hafði fært sjúkrahúsinu að gjöf. Söfnin hafa verið með hljóðbókaþjónustu frá árinu 1975 í samvinnu við Blindrabókasafn Íslands.

Frá nóvember 1969 hafa kvennadeildarkonur rekið bókasafn SHR á Landakoti og á sjúkrahóteli RKÍ síðan í júlí 1976.

Kvennadeildarkonur afla fjár til bókakaupa fyrir söfnin með árlegum föndur- og kökubasar. Í haust, 1. nóvember, verður basarinn í húsi Rauða kross Íslands, Efstaleiti 9.

Forstöðukonur bókasafnanna eru: Anna Kristjánsdóttir, SHR á Landakoti, Sigrún Flóvenz, Landspítala, Ingunn Gíslason, SHR í Fossvogi og Grensásdeild, Eva Úlfarsdóttir, Sjúkrahóteli RKÍ, Ragna Gunnarsdóttir, Hljóðbókaþjónusta SHR í Fossvogi og Guðlaug Ingólfsdóttir, Hljóðbókaþjónusta Landspítala.

Dagskrá yfir félagsstarf deildarinnar hefur verið send til allra félagskvennam, en fyrsti fundur vetrarins verður fimmtudaginn 8. október nk. í Skíðaskálanum í Hveradölum, en þar ætla félagskonur að sýna tískufatnað og Ólafur "nikkari" mun halda uppi fjörinu. Allir eru hvattir til að mæta.